04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3403 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

37. mál, verkamannabústaðir

Forseti (JörB):

Ákvæði 40. gr. þingskapanna um þetta efni eru skýr og ótvíræð og eru á þessa leið:

„Frumvörp, hvort heldur eru frá stjórninni eða þingmönnum, svo og tillögur til þingsályktunar og breytingartillögur, má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill. En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi. Fyrirspurn má og afturkalla“.

Nú er ekki einungis, að það sje annar fundur en þegar þessar brtt. voru teknar aftur, heldur hefir liðið dagur á milli. Þessi fundur er því 2. eða 3. fundur síðan till. voru teknar aftur af flm. þeirra. Á þessu atriði veltur mest, og úrslitin hljóta að falla samkv. því.

Út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, skal jeg geta þess, að þá var um alt annað að ræða. Till. sú, sem þá var tekin aftur, var að vísu ekki tekin samstundis upp, en það var þó gert aðeins síðar á sama fundi, áður en til atkv. var gengið.

Jeg úrskurða því, að brtt. á þskj. 509 og 519 komi ekki til atkv. nú við þessa umr.

Skrifstofan semur dagskrá og útbýr þær, án þess að forseti hafi í hvert sinn fylgst með því, hvernig frá þeim er gengið. Og þingskjalsnúmer að þessum brtt. hefir af vangá slæðst inn á dagskrána.