10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

37. mál, verkamannabústaðir

Jón Ólafsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera hjer fram nokkrar brtt.; varð jeg heldur seinn með þær, því málið hefir verið tekið á dagskrá með svo stuttu millibili og helgidagur komið inn á milli; verð jeg því að beiðast afsökunar.

1. brtt. fer fram á að orða um 1. gr. Samkv. frv. var ekki opin leið fyrir alla þá, er koma ættu til mála með að fá þennan styrk til bygginga. En sjálfsagt er, að allir borgarar eigi þess jafnan kost, ef þeir að öðru leyti uppfylla skilyrði frv.

Þá er það nokkuð einhliða, að atvmrh. hafi einn óskorað vald til að segja til um, hvort þörf væri á aðstoð þeirri, sem frv. veitir. Með brtt. verður tryggilegar um þetta búið, þar sem ákveðið er, að 5 manna nefnd, kosin hlutbundnum kosningum af bæjarstj., fari höndum um þetta mál áður en það er lagt fyrir viðkomandi ráðuneyti. Með þessu fæst og bestur spegill af vilja bæjarmanna, og er rjett og sjálfsagt að láta viðkomandi bæjar- eða kauptúnsráð hafa fullan íhlutunarrjett um það, hvort þetta verði á þá lagt. Þetta þykir mjer aðalatriðið í gr., og því legg jeg áherslu á, að því verði breytt í þá átt, er jeg hefi hjer lagt til.

En svo hefi jeg leyft mjer að koma með 2 brtt. við 5. gr. Er önnur um það, að í 3. tölulið komi 3.500 kr. í stað 5.000 kr. árstekjur. Virðist mjer eins og til þessara sjóða er stofnað, og með ekki meiri framlögum en ætlast er til, að þeir muni hafa ærið að starfa hjá borgurum, er hafa minni tekjur en 3.500 kr. Er því rjett að miða við 3.500 kr. árstekjur. Og ef peningar næðu hærra verðgildi en þeir nú hafa, þá má búast við, að enn fleiri kæmust þarna undir. Þetta er ekkert aðalatriði, hvort tekjur styrkþega mega nema 3.500 kr., 4.000 kr. eða 5.000 kr., ef hjer væri um nægilegt fje að ræða. En jeg þykist sjá, að með því að miða við 5.000 kr. muni verða of mikil aðsókn af þeim mönnum, er töluverð ráð hafa. Hinsvegar eru það margir verkamenn og verslunarmenn, er ekki hafa 3.500 kr. árstekjur, en mundu þó geta klofið það að greiða 15% andvirðis, með aðstoð vina sinna og vandamanna.

Þá vil jeg, að 4. liður 5. gr. sje ákveðnari heldur en hann er í frv. Þar stendur, að „íbúðirnar sjeu falar fjelagsmönnum“, en jeg vil orða það svo, að íbúðirnar sjeu seldar fjelagsmönnum. Þetta álít jeg hyggilegra að því leyti, að þá eru altaf trygðir kaupendur að því, sem bygt verður. Það kemur í veg fyrir, að byrjað verði að byggja án þess að hafa trygt sjer kaupendur, en það tel jeg aðalatriði.

Þá legg jeg til, að 9. gr. verði orðuð um. Þar er tiltekið, að ríkisstj. skuli láta gera uppdrætti að húsum fjelagsmanna, bæði sjerbyggingum og sambyggingum. Þetta er ákveðið í frv., og tel jeg það hyggilegt. En það var annað, sem ekki er tekið fram, sem er þó nauðsynlegt, og það er um eftirlit, sem með byggingunum þarf að hafa. Það vita allir, að hagsýni manna er misjöfn, og gætu því byggingar orðið óeðlilega dýrar, en þó með sannvirði. Nú er það tilskilið í þessu frv., að menn fái 85% kostnaðarverðs út á 1. veðrjett, og gætu því á þennan hátt, sem jeg hefi hjer nefnt, orðið ljelegar tryggingar. Því er sjálfsagt fyrir bæjarstjórnir, og auðvitað líka ríkisstjórn, að hafa glögt eftirlit með því. Það er hægt að gera byggingar það dýrari, sem svarar þessum 15% , sem greiða á, og þá vandast málið fyrir ríkið og bæina, sem geta þá setið í ábyrgð fyrir 85 % af kostnaðinum. Jeg vona, að hv. þdm. skoði þetta mál frá sama sjónarhól og jeg og sjeu mjer samdóma í því, að svo best er af stað farið með þetta mál, að tryggilega sje um hnútana búið.