10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3420 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

37. mál, verkamannabústaðir

Sveinn Ólafsson:

Mjer þykir hlýða að gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli. Jeg hefi að vísu áður gert það óbeint, er jeg greiddi atkv. með því að vísa því til stj. við 2. umr. Jeg mun gera hið sama við þessa umr., en geri þó ráð fyrir að fylgja brtt. hv. 1. þm. N.-M., því að ef frv. verður á annað borð samþ., tel jeg það betur komið í því formi, er brtt. miða að. Sama er að segja um brtt. á þskj. 590, frá hv. 3. þm. Reykv. En með málinu get jeg ekki greitt atkv. út úr deildinni, og ástæðan til þess er sú, að með þeirri stofnun, sem hjer er gert ráð fyrir að koma á fót, er verið að efna til samkepnisstofnunar við byggingar- og landnámssjóð, samkepnisstofnunar, er hlýtur að vinna gegn stefnu þess fyrirtækis og hafa skaðlegar afleiðingar fyrir þann tilgang, sem byggingar- og landnámssjóður stefnir að.

Jeg veit og viðurkenni, að byggingar í kaupstöðum og kauptúnum eru víða lakari en vera skyldi og að kjör manna í þessum íbúðum eru ekki góð. En hitt veit jeg líka, að íbúðir manna í kaupstöðum eru yfirleitt betri en íbúðir í sveitum, og í sveitunum kallar þörfin fyrst að til umbóta á þessu sviði.

Mig minnir, að veðdeildir Landsbankans sjeu búnar að gefa út vaxtabrjef fyrir um 20 milj. króna í öllum 8 flokkum. Af þessum 17–20 miljónum hefir langmestur hlutinn gengið til að byggja upp Reykjavík og aðra bæi landsins að einhverju leyti.

Það hefir verið upplýst hjer, að bygt hafi verið fyrir 5 milj. króna í Reykjavík síðastl. ár. Flest þessi hús eru ætluð til íbúðar, og virðist því líklegt, að fljótlega rakni úr húsnæðisvandræðunum með slíku áframhaldi. En ef þörfin er eins brýn og af er látið, þá er önnur leið miklu líklegri og eðlilegri til að bæta úr húsnæðiseklu en að stofna þennan byggingarsjóð. Og sú leið er að taka aftur upp húsaleigulögin og hafa hemil á gerðum þeirra manna, sem selja hús á leigu með okurvöxtum. Þetta er leið, sem jeg mundi fúslega fylgja, að farin yrði, ef þörf þætti á. (MJ: Þar fundu þeir púðrið). En frv. get jeg ekki stutt, hve feginsamlega sem jeg hefði viljað bæta kjör þeirra, sem við erfiðust húsnæðiskjör eiga að búa í bæjunum.

Þetta vildi jeg sagt hafa, til að gera grein fyrir atkv. mínu, en að öðru leyti get jeg gert að mínum orðum ummæli hv. 1. þm. Skagf. um þá rjettlætiskröfu, sem sveitirnar ættu á því að sitja fyrir stuðningi hins opinbera til þess að bæta íbúðir sínar. Það var einnig rjettilega til þess bent hjá honum, að sveitirnar gætu blómgast, þótt bæirnir færu í auðn, en hitt er jafnvíst, að bæirnir komast ekki af án sveitanna. Sveitirnar hafa alið þrótt og gáfur þjóðarinnar frá landnámstíð og skilað henni fram að þessum tíma með fullu þreki, þótt hagur þeirra hafi oft erfiður verið. En það er meira en vafasamt, að bæirnir inni það starf jafnvel af hendi á komandi öldum.