10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3425 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

37. mál, verkamannabústaðir

Haraldur Guðmundsson:

Í brtt þeirri frá mjer, sem forseti las upp, við brtt. hv. 3. þm. Reykv. á þskj. 590, er lagt til, að hámarkstekjur megi vera 4.000 kr., í stað 3.500 kr. Jeg hefði helst kosið, að hv. 3. þm. Reykv. hefði tekið aftur brtt. sína um þetta efni.

Að hámarkið var sett svona hátt í frv., stafaði af því, að flm. var ljóst, að margir, sem komnir eru upp undir 5.000 kr. árstekjur, geta haft brýna þörf á því að fá hjálp til að byggja yfir sig, þegar þeir hafa þungri fjölskyldu fyrir að sjá. Var tekið fram, að ekki hefði verið farið svo hátt að öðrum kosti. Jeg tel þá þörf brýnasta, að hjálpa þeim til að fá viðunandi húsnæði, sem ala upp flest börnin. Vildi jeg mælast til, að hv. 3. þm. Reykv. tæki till. aftur, en hinsvegar yrðu sett skýr ákvæði um það í reglugerð, að þetta hámarksákvæði gilti ekki nema þegar um fjölskyldumenn væri að ræða. Að vísu mætti benda á þá leið, að hámarkstekjur fyrir barnlaust fólk væru 3.000 kr., en síðan væri bætt við 500 kr. fyrir hvert barn, svo að maður, sem hefði fyrir 4 börnum að sjá, mætti hafa 5.000 kr. árstekjur og þó hafa rjett til að njóta hlunninda við að gerast meðlimur byggingarfjelags.

Það er rjett, að aðalstarf sjóðsins á að vera að hjálpa þeim mönnum, sem hafa um og undir 3.000 kr. í árstekjur, þ. e. a. s. venjulegar .verkamannstekjur. Jeg tók eftir því, að hv. 1. þm. S.-M. sagði, að bæirnir gætu ekki lifað, ef sveitirnar legðust í auðn. Þetta er hárrjett. En svo kvað við allmjög í öðrum tón. Hv. þm. fullyrti sem sje, að enda þótt bæirnir legðust í auðn, gætu sveitirnar blómgast. Mig furðar á, að jafnskýr og reyndur maður sem hv. þm. skuli halda slíkri fjarstæðu fram. Mjer er sem jeg sjái þá bændurna eystra, ef ætti að leggja skatta, sem svaraði 12 milj. kr. á landbændur eingöngu. Jeg er hræddur um, að þeir myndu kvarta undan álögunum! Og það lítur út fyrir, að hv. 1. þm. Skagf. hafi smitast af þessari firru, því að hann taldi einnig, að besta ráðið til þess að fólkinu fjölgaði í sveitunum væri að láta því líða sem verst í kaupstöðunum. (MG: Þetta er ekki rjett). — Það var ekki hægt að skilja orð hv. þm. öðruvísi. Stefna hans virðist vera sú, að fá fólkið til þess að flytja í sveitirnar með því móti að gera því ólíft í kaupstöðunum, þ. e. a. s. fátæka fólkinu. En á hverju eiga þá burgeisar kaupstaðanna að græða, þegar alt fátæka fólkið er farið þaðan. — Hann getur ekki sjeð, eða vill ekki sjá, að sjálfsagt er að gera kjör manna sem lífvænlegust bæði til sveita og sjávar.

Nú hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að byggja upp sveitabýlin og varið til þess miklu meira fje en hjer er farið fram á, og er þá sjálfsagt að snúa sjer næst að því að bæta úr þörfum kaupstaðabúa. Og öll fólksfjölgun kemur niður á kaupstöðunum. Einmitt í kjallaraholunum og aumustu íbúðunum fæðist og vex upp mikill hluti þeirrar kynslóðar, sem á að taka við af okkur. Það væri glæpur að loka augunum fyrir þeirri hættu, sem henni stafar af óhollum íbúðum og þröngum. (MG: Eru þá engin börn í sveitunum?). Jú, en það er staðreynd, að fólksfjölgunin er aðallega í kaupstöðunum og mest hjá fátækasta fólkinu. Hv. þm. sagði, að dánartalan hefði ekki verið hærri hjer en víða annarsstaðar. Þessu er því að svara, að skamt er um liðið síðan Reykjavík varð svo stór sem hún nú er, og því einnig skamt síðan húsnæðisþrengslin urðu jafnmikil og þau eru nú. Og fólkið, sem flytst í bæinn, er margt fólk á besta aldri, og kemur því ekki í ljós fyr en nokkur tími er liðinn, hve háan skatt hinar óhollu íbúðir taka af mannslífunum og þeirri kynslóð, sem elst upp í slíkum hreysum. En kannske það sje tilgangur hv. þm. (MG) að reyna að líkjast mestu óþrifabælum erlendra stórborga að því er dánartölu fólks hjer snertir. Þá gæti fólkið ef til vill orðið hrætt við að flytja til kaupstaðanna — hugsar hann máske.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að á síðari árum hafi verið bygt hjer fyrir fimm milj. kr., sem væri að mestu leyti veðdeildarfje. Þetta er vitleysa. Það er víst, að aðeins 1/3 af þessu fje er veðdeildarfje. Hitt hefir komið annarsstaðar að.