21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

17. mál, eftirlit með skipum og bátum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg hefi skrifað undir þskj. 141 með fyrirvara. Fyrirvari minn er aðallega við 5. gr., um stimpilgjaldið. Annars er jeg n. sammála í aðalatriðunum um efni frv. í frv. felst töluverð breyt. frá því, sem nú er, þar sem gert er ráð fyrir auknu starfi við eftirlit með skipum, en fje til þess samkv. frv. á að fá með því að leggja stimpilgjald á öll skip í landi. Jeg álít miklu rjettara að miða stimpilgjaldið við stærð skipanna og rúmlestatölu þeirra, eins og í frv. stendur. Samkv. frv. mundi stimpilgjaldið nema röskum 9 þús. króna, en það mun ekki vera fullnægjandi upphæð upp í þann kostnað, er af auknu eftirliti leiðir. N. hefir hallast að því að miða þetta að nokkru leyti við stærð skipanna, þó ekki rúmlestatal nema að nokkru leyti, þannig að gjaldið sje 2 kr. fyrir skip og báta upp að 30 rúmlesta stærð. En mjer finst órjettlátt að hafa róðrarbáta í sama flokki og skip yfir 12 rúmlesta. Gjaldið er að vísu ekki hátt, en órjettlátt samt að leggja sama gjald á smábát og 30 rúmlesta mótorkútter. Í næsta flokki eru svo skip frá 30–100 rúmlesta, og stimpilgjaldið 5 kr., en 10 kr. fyrir 100 rúmlesta skip og stærri —, sama ósamræmið í öllum flokkunum. Jeg hefi fengið upplýsingar hjá skipaskoðunarmanni ríkisins um fjölda þeirra skipa, sem mundu greiða stimpilgjald samkv. þessu, og er það á þessa leið:

Bátar undir 12 rúml. 329, 2 kr. Skip 12–30 rúml., vjela- og seglskip, án tillits til fiskveiða eða annars, 170, 2 kr. Skip 30–100. rúml. 96, 5 kr. Skip yfir 100 rúml. 105, 10 kr.

Samkv. þessu verða tekjurnar 2528 kr., en það er smávægilegt og lítið upp í þann kostnað, sem frv. hefir í för með sjer frá því, sem nú er varið í fjárlögum til þessara mála. En ef farið er eftir frv., fást í stimpilgjald um 9000 kr. miðað við sama skipastól. Þrátt fyrir þetta ætla jeg að greiða atkv. með breyt. n., tel vonlaust um, að brtt. nái fram að ganga.

Jeg hefi nú skýrt, í hverju fyrirvari minn liggur, en að lokum ætla jeg drepa örlítið á málið í heild sinni, nefnilega skipaeftirlitið. Á seinni árum hefir verið lögð nokkuð meiri rækt við það en áður. Það er augljóst, að ef eftirlitið á að vera í góðu lagi, útheimtir það allmikið starfslið, sem þarf vel að vanda til. Við höfum því miður sjeð sorgleg dæmi þess, hvað eftirlitinu hefir verið áfátt. Hvort sjóslys hafa af því stafað eða ekki, skal jeg láta ósagt, en við höfum ný dæmi um, að það er ekki eins gott og skyldi. Þessu verður ekki komið í góða höfn, nema nægilegt eftirlit sje af hálfu ríkisins, enda höfum við fyrir nokkrum árum, 1922, öðlast löggjöf um þetta efni, sem er allítarleg, ásamt tilskipun útgefinni sama ár.

Þessi lög eru að mestu sniðin eftir dönskum og norskum lögum um eftirlit með skipum og bátum. Svipað er að segja um tilskipunina. Hún er líka miðuð við tilsvarandi löggjöf í nágrannalöndunum. Verði nú öllum þessum lagafyrirmælum framfylgt, bæði þeim, sem nú gilda, og svo hinum, sem væntanlega verða samþ. í þessu frv., þá sje jeg ekki ástæðu til að ætla annað en eftirlitinu ætti að geta verið sæmilega borgið, og sje jeg ekki þörf á að gera að svo stöddu frekari kröfu til ítarlegri lagafyrirmæla. En aðalatriðið er, að þessum lögum sje framfylgt. Jeg vil ekki láta undir höfuð leggjast að geta þess hjer, að það er á almæli, að skipaeftirliti sje mjög ábótavant hjer á landi utan Reykjavíkur. Í Reykjavík er það alment álitið best, sem af líkum má ráða, þar sem skipaeftirlitsmaðurinn er búsettur hjer. En úti um land er skipastóllinn stöðugt að aukast, og því tilfinnanlegri verður sá misbrestur, sem þar er á eftirliti. Sje fullkomnara eftirlit leitt í lög, leiðir vitanlega af því aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. En hjá því verður ekki komist. Jeg vil beina þeirri áskorun til hæstv. atvmrh., að hann beiti áhrifum sínum til þess, að ákvæðum laganna verði eftirleiðis fylgt út í ystu æsar. Mistakist eftirlitið, er lífi fjölda manna stefnt í voða, ekki einungis sjómanna, heldur og þess fjölda manna, sem ferðast með skipum hjer við land. En eins og jeg hefi áður sagt, tel jeg þetta frv. stórt spor í áttina til þess að gera eftirlitið tryggara en það hefir verið hingað til.