10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

37. mál, verkamannabústaðir

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg hafði hugsað mjer að leggja ekkert til þessa máls, þar sem flokksmenn mínir hjer í hv. deild hafa með rökum sýnt fram á nauðsyn á framgangi þess. En umr. hafa gert það að verkum, að jeg get ekki komist hjá því að mæla nokkur orð. Jeg hefi um 20 ára skeið átt kost á að kynnast kjörum verkafólksins, bæði hjer í borginni og víðar, og er því vel kunnugt um híbýli þau, er það á við að búa, auk þess sem jeg hefi einnig rannsakað f. h. bæjarstj. ástandið í húsnæðismálum bæjarins.

Mjer hefir þótt kenna nokkurs ókunnugleika hjá ýmsum þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls við umr. þessa frv., um þau kjör, sem mikill hluti almennings á við að búa hjer í Reykjavík og víðar, og finst mjer því skylt að lýsa nokkuð því ástandi, sem hjer ríkir á þessu sviði. Jeg þekki mörg þau tilfelli, þar sem 8–10 manna fjölskylda verður að hýrast í einu herbergi, þar sem verður að elda, þvo þvott o. s. frv. Getur hver maður sjeð, hvílík hollusta er fyrir börn að alast upp í slíkum íbúðum, sem ofan á alt þetta eru oft í kjallara, þar sem alt rennur út í raka og sjaldan sjer sólu. Slíkar íbúðir hafa verið í tuga-, ef ekki hundraðatali hjer í Reykjavík. Það ber ósjaldan við, þegar einhver veikist í slíkum íbúðum og læknis er vitjað, að hann skipar fjölskyldunni að flytja í betra húsnæði. En hvert á að flytja? Fyrst og fremst eru hentugar íbúðir ekki fyrir hendi, og í öðru lagi eru þær, ef til eru, alt of dýrar til þess að bláfátækt fólk hafi efni á að taka það, sem í boði er.

Með verulegum umbótum á þessu sviði myndi húsaleiga lækka að mun. Það hafa komið fram brtt. við þetta frv., og er ein þeirra, að öll kauptún verði aðnjótandi þeirra kjara, sem gert er ráð fyrir í frv. Jeg held, að þessi till. sje til þess að tefja fyrir framgangi frv. Þó segi jeg það ekki vegna þess, að jeg geti ekki unnað kauptúnunum þessa, en þörfin er meiri þar, sem fjölmennið er mest. Þar eru vandræðin mest, og á það ber að líta fyrst og fremst. Eitt af því, sem heldur húsaleigunni svo hárri, er það, að heil stjett manna lifir á því að byggja hús, sem síðan eru leigð út við okurverði. — Það er bent á það, að bygt hafi verið fyrir svo og svo margar milj. króna á ári hjer í Reykjavík, — en hvað hefir það að segja? Það eru efnaðri borgararnir, sem byggja; hina skortir fje, sem hafa tekjur af svo skornum skamti, að þeir eiga varla fyrir daglegum þörfum, og verkafólkið fær ekki inni í hinum nýju stórhýsum, nema þá í kjöllurum og á hanabjálkum, Þess vegna verður verkalýðurinn að skríða inn í gömlu, ljelegu húsin við okurleigu. Í hinum nýju húsum er leigan of há. Barnafjölskyldur fá ekki inni nema í grenjum, sem enginn vill líta við. Ef ekki á að kyrkja hina komandi kynslóð, verður að hjálpa þeim fyrst og fremst, og svo þeim, sem lítil efni hafa til að byggja. En það er ekki hægt nema hið opinbera taki málið til meðferðar og veiti þeim aðstoð sína. Annars finst mjer harla undarleg stefna hv. 1. þm. S.-M., að vilja láta ástandið í kaupstöðunum haldast eins og það er nú, til þess að fólkið verði að flýja í sveitirnar úr kaupstöðunum; en öðruvísi var ekki hægt að skilja hann. Það er eins og fyrir honum vaki gömul og þekt aðferð til sveita, hvernig farið var að svæla melrakka úr greni.

Það er vitanlegt, að húsaleigulögin á sínum tíma komu mörgum mönnum að notum, enda barðist borgarstjórinn lengi vel á móti afnámi þeirra, þó að hann yrði að lokum að beygja sig fyrir íhaldsmeirihlutanum í bæjarstj., sem barðist fyrir afnámi laganna. Afleiðingin varð líka sú, að verra ástand skapaðist um leigumálann og mörg dæmi þess, að húsaleiga hækkaði, einkum hjá fátækari fjölskyldum, sem búa að lakasta og minsta húsnæðinu. Enda er reynslan sú, að húsaleigan er tiltölulega hæst hjá öllum þorra hins fátækara fólks, miðað við það húsnæði, sem það verður að notast við. Það hefir ekki enn unnist tími til þess að vinna úr þeim skýrslum um húsnæði hjer í bæ, sem safnað var á síðastl. sumri, en það verður fróðlegt að sjá þær tölur á sínum tíma.

Það hefir verið lagt talsvert upp úr því við umr. þessa máls, að aðstreymi fólks til bæjanna mundi aukast, ef eitthvað yrði gert til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum. En þetta held jeg að sje grýla og ekkert annað. Það eru ekki húsakynnin, sem lokka menn til bæjanna, heldur er það sú atvinna, sem bæirnir hafa upp á að bjóða. Jeg hefi orðið var við, að fólki, sem til bæjarins flytur, gengur best að fá sjer húsnæði. (MG: Það hefir betra álit á sjer en bæjarfólkið). Getur verið á meðan ekki er búið að pína út úr því hvern eyri í okurleigu fyrir ljelegt húsnæði. Það á víst við málshátturinn um þetta fólk, að „úti sje vináttan þá ölið er af könnunni“. Margt aðkomufólk hefir nokkur peningaráð fyrst í stað: þá er það góðir leigjendur. En þegar peningarnir eru þrotnir, þá er þetta fólk komið í sama foraðið og það. sem fyrir var.

Jeg geri því ekki ráð fyrir, þó að húsakynni skáni eitthvað, að sterkari hvöt vakni hjá fólki um að flytja til bæjanna, ef þangað er enga eða litla atvinnu að sækja. N. hefir líka í till. sínum viljað takmarka, hverjir yrðu þessara rjettinda aðnjótandi. A. m. k. virðist hún ógjarnan vilja, að þeim mönnum. sem til bæjanna skreppa í atvinnuleit, verði veitt nein forgangsfríðindi.

Á síðasta þingi var samþ. ágreiningslítið og með atkv. okkar jafnaðarmanna að endurbyggja sveitirnar. Á jeg þar við lögin um byggingar- og landnámssjóð. Jeg held, að allir hafi verið sammála um, að nauðsyn bæri til þess að byggja upp húsakynnin í sveitunum, því mjög víða væri ábótavant í því efni. Mjer dettur heldur ekki í hug að mótmæla því, að húsakynnum kunni að vera ábótavant í hinum ýmsu hjeruðum. En þrátt fyrir hin ljelegu mannahíbýli í sumum sveitum tærist þó fólkið miklu fljótar upp í kaupstöðunum. Það er venjulega hraustari kynslóð, sem vex upp í sveitunum, heldur en í bæjunum. Bæði er það nú, að fæðið í sveitunum er fólki hollara; þar er venjulega nóg um mjólk handa börnum og unglingum, en jeg þekki fjölda af barnafjölskyldum hjer í Reykjavík, sem ekki hefir ráð á því að kaupa mjólk handa börnum sínum og lifir við mjög skarðan kost að öðru leyti. Ekki liggur svo annað fyrir mörgum þessara barna en að fara út á götuna undir eins og þau geta vafrað, til þess þar að anda að sjer sóttkveikjum og öðrum óheilindum úr forugum götum o. s. frv. En börnin í sveitunum teiga að sjer hreint fjallaloftið og leika sjer í grænu grasi, þá sumra tekur. Aðstöðumunur æskunnar í sveitum landsins og kaupstöðum er mikill; það finna þeir best, sem hvorttveggja þekkja. Jeg er alinn upp í sveit og þekki því þennan mun. En hjer í Reykjavík eru leiðir barnanna ekki aðrar en út á foruga götuna til þess að leika sjer á.

Þá vildi jeg minnast lítilsháttar á brtt. hv. 3. þm. Reykv. Jeg get fallist á þær að öðru leyti en því, að mjer þykir of skamt gengið, hverjir geti orðið aðnjótandi íbúðanna. Að vísu skal jeg játa, að verkamenn ná yfirleitt ekki 6.000 kr. tekjum á ári. En þó eru til menn, sem gera það, en þeir hafa þá stóra fjölskyldu, mörg börn fyrir að sjá og sum þeirra með einhverjar tekjur, og eru að mörgu leyti ver settir en hinir, sem hafa lægri tekjur, t. d. 3.500 kr. á ári. Jeg veit ósköp vel, að verkamaður, sem hefir fyrir 4–5 börnum að sjá, honum veitir ekki af 4.000–5.000 kr. á ári til þess eins að draga fram lífið. Það er því mest nauðsyn að hjálpa þeim til að byggja yfir sig, sem flest hafa börnin á framfæri. Jeg veit ekki, hvort samkomulag muni nást um þetta. En þetta er það eina í till. á þskj. 590, sem jeg álít varhugavert, því enda þótt verkamaður kunni að ná 4 þús. kr. tekjum eða eitthvað þar yfir, ef hann hefir fyrir mörgum að sjá, þá er það ranglátt að útiloka hann frá þeirri hjálp, sem öðrum er veitt með minni tekjum og langtum minni fjölskyldu og þar af leiðandi getur staðið miklu betur að vígi að afla sjer húsnæðis á eigin spýtur.

Um till. hv. 1. þm. N.-M., sem bornar munu vera fram til samkomulags, verð jeg að segja það, að jeg álít þær ekki tímabærar enn sem komið er. Frá mínu sjónarmiði sjeð mundu þær, næðu þær samþ., valda skemdum og draga úr mætti frv., að því ógleymdu, að framlag ríkissjóðs er þar fært niður um helming, sem stórskemd á frv. Jeg lít svo á, að frv. þetta, sem borið er fram af jafnaðarmönnum til hjálpar bæjunum, sje hliðstætt þeirri löggjöf, sem sett hefir verið á undanförnum þingum og enn er verið að bæta og fullkomna, sveitunum til viðreisnar. Þess vegna hefði jeg getað búist við, að frv. þetta mætti hlýrri viðtökum en raun hefir orðið á. En við jafnaðarmenn eigum svo mörgu og misjöfnu að venjast af þeim meiri hl., sem ræður hjer á þinginu, að engan skyldi undra, þó fundin yrðu einhver ráð til þess að bregða fæti fyrir þetta sanngirnis- og nauðsynjamál fátæku og barnamörgu verkamannanna í bæjum landsins og kauptúnum.