10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3445 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. minni hl. (Hákon Kristófersson):

Jeg og hv. 1. þm. Skagf. höfum orðið fyrir allþungum dómi hjer í hv. deild, og nú hefir hv. 1. þm. S.-M. verið skipað á bekk með okkur. Báðir þessir hv. þm. hafa talað mjög skynsamlega í máli þessu og hrakið þær fjarstæður, sem komið hefir verið fram með. Hv. þm. Mýr. fór einnig mjög fallegum orðum um þetta mál og benti á, að þegar búið er að koma öllu í gott horf í sveitunum, þarf ekki að óttast, þótt bæjarfjelögin og ríkissjóður færu að taka að sjer að styrkja menn til húsabygginga. En framhjá því atriði má ekki ganga, að það er búið að toga ríkissjóðinn út í svo miklar ábyrgðir, að lengra er varla farandi, því að einhverntíma verður að setja takmörk fyrir því, bæði á þessu sviði og öðrum.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þeir jafnaðarmenn væru fylgjandi byggingar- og landnámssjóði, og það er rjett, að þeir greiddu atkv. með honum. Mjer skildist á hv. þm., að úr því að svo mikið hefði verið gert fyrir sveitirnar, yrðum við að gera eitthvað fyrir kaupstaðina. Í sveitunum var komið í þvílíkt öngþveiti, að þingið varð að skerast í leikinn, en mjer finst vafasamt, hvort stofnun þessa sjóðs hefir borið nokkurn árangur. Eins og menn vita, er sjóðurinn ekki ennþá tekinn til starfa, og mjer er spurn, hvort nokkrum þýðingarmiklum framkvæmdum verði komið í framkvæmd með styrk hans á þessu eða næsta ári. Hv. 2. þm. Reykv. fullyrti að vísu, að fje væri komið í sjóðinn, en mjer er ókunnugt um það, og ef þetta, sem hjer liggur fyrir, er borið saman viðbyggingar- og landnámssjóð, þá er þar ólíku saman að jafna. Hv. 1. þm. S.-M. og hv. 1. þm. Skagf. hafa farið ítarlega inn á þetta atriði málsins, svo að jeg finn ekki ástœðu til að gera það frekar, en jeg er sannfærður um það, að af þeim mönnum, sem nauðsynlegt er að fá lán úr byggingar- og landnámssjóði, fœr einn þriðji þeirra það ekki, hvað þá heldur meira. í þessu sambandi vil jeg benda á, að það er bygt svo mikið og lagfært á ári hverju í kaupstöðunum, að húsnæðiseklan fer óðum þverrandi. Hv. þm. mintist einnig á það, hversu margar brýr væru gerðar og vegir lagðir fyrir sveitirnar, en jeg get ekki verið honum sammála um það, að þetta sje eingöngu gert fyrir sveitirnar, heldur njóta kaupstaðirnir einnig góðs af því. — Menn úti um sveitir verða auðvitað að hafa vegi til að fara eftir og flytja nauðsynjar sínar að heimilunum, en kaupstaðirnir lifa á verslun og sjávarútvegi og verða því auðvitað að ná í einhverja til að hafa verslun við, og má því telja það jafnt í þeirra þágu. Hvað því viðvíkur, að margar og óhollar kjallaraíbúðir sjeu í kaupstöðunum, þá er því til að svara, að nú er það bannað, þannig að þær munu fljótlega niður lagðar, og eins og jeg hefi bent á, er svo mikið um byggingar í kaupstöðum, að húsnæðiseklan minkar óðum. Hvað því viðvíkur, að jeg og hv. 1. þm. Skagf. sjeum verri og óþjóðlegri menn en aðrir hv. þm. hjer í Nd., þá sje jeg ekki ástæðu til að svara því, enda mun það koma í ljós við atkvgr. um málið. Það hefir verið talað um, hve mörgum þúsundum væri varið til umbóta í sveitum, en jeg sje ekki, að mönnum farist að telja það eftir, því að til kaupstaðanna er einnig varið miklu fje. Þá var vikið að því, að sveitirnar ættu hægara með aðgang að. berklaskýlum en kaupstaðirnir, en það hygg jeg ekki vera rjett, og jeg verð að segja, að mjer finst það æðihörð ummæli, að við, sem ekki getum verið þessu samþykkir, viljum drepa fólk í kaupstöðunum. Það vildi jeg ekki hafa á samviskunni; en jeg hygg, að húsakynni í kaupstöðum sjeu ekki verri en í sveitum, þótt margt megi að þeim finna. (SÁÓ: Það er verra að vera í bæjunum á sumrin). Það er rjett, sem hv. 4. þm. Reykv. tók fram, að á vissum árstíðum er verra að búa í kaupstöðum en sveitum, því að í sveitum geta menn haldið sig meira úti við, en þetta er óðum að lagast í kaupstöðunum. Hinu skal ekki neitað, að húsaleigan er óhæfilega há, þannig að fátækum mönnum er gert ómögulegt með öllu að njóta góðra húsakynna. Jeg hygg, að ef jeg er ásakaður fyrir ókunnugleika minn í kaupstöðum, þá geti jeg aftur á móti ásakað þá, sem það gera, fyrir hve lítið þeir þekkja til húsakynna í sveitum, og þótt byggingar- og landnámssjóði sje ætlað að bæta úr því, þá mun enginn árangur af því verða fyr en eftir 3–4 ár. Jeg sagði áðan, að það vœri sýnilegt, að hugur hv. 2. þm. Reykv. hefði frekar hneigst að Reykjavík og bæjunum en sveitunum, enda ber frv. það líka með sjer, því að þar er ekkert að því vikið, að nauðsyn sje á sömu umbótum í smærri kauptúnum, þótt hv. þm. hefði ekki þurft að leita lengra en hjer rjett norður fyrir Snæfellsnesið til að ganga úr skugga um, að þessa er ekki minni þörf þar. Að jeg eða aðrir teljum það besta ráðið til bjargar sveitunum, að fólki líði illa í bæjunum, er slík fjarstæða, að jeg er hissa á því, að hv. þm. skuli hafa látið sjer slíkt um munn fara. Hv. þm. sagði einnig í öðru sambandi, að það væri broslegt að hlýða á rök íhaldsins og að þau lýstu blygðunarleysi, eins og framkoma okkar öll í málinu.

Jeg er hissa á, að hv. þm. skuli viðhafa slík stóryrði, því að jeg get ekki sjeð, að blygðunarleysi sje um að kenna, þótt menn geri grein fyrir aðstöðu sinni við málið; en hitt virðist mjer meira blygðunarleysi hjá hv. þm., að hann skuli leyfa sjer að fara slíkum orðum um þingbræður sína.

Þá sagði hv. þm., að við vildum vinna að því, að börn lifðu í kytrum í kaupstöðum og eyðilegðu heilsu sína; en það er síður en svo, því að við teljum, að á þessu þurfi að ráða bót, en álítum aðrar leiðir heppilegri en þessa. Hv. 4. þm. Reykv. benti á, að hann væri manna kunnugastur hjer í Reykjavík, og get jeg vel trúað því, en hinu myndi jeg ekki trúa, ef ekki vœri um jafnsannorðan mann að ræða, að hjer væru hundruð íbúða, sem væru ekki nema eitt herbergi, og í því hefðust við alt að 10 manns. Ef ástandið er svona hörmulegt, þá er hjer um að kenna illu eftirliti bæjarstjórnar, en á því þarf auðvitað að ráða bót hið bráðasta. Ef bæjarfjelagið er fært um að leggja fram jafnmargar þúsundir og frv. fer fram á, þá œtti það að geta ráðið bót á þessu án þess að löggjafarvaldið gripi inn í. Þá sagði hv. 4. þm. Reykv., að heilar stjettir manna lifðu á því að leigja út hús sín gegn okurverði, og er það hörmung að heyra, en spurningin er þá bara sú, hvort komið verði í veg fyrir það með þessu frv. Jeg veit til þess, að ýmsir fátækir verkamenn hafa ráðist í að byggja sjer hús og fengið lán til þess í þeirri von, að geta greitt það með þeirri leigu, sem þeir fengju eftir húsið, og margir sæmilega efnaðir menn hafa einnig bygt stærri hús en þeir hafa beint not fyrir, en mjer þykir það ekki trúlegt, að þeir leigi þau út gegn okurvöxtum, en ef svo er, þá ætti það að vera á valdi löggjafans að koma í veg fyrir það. Hv. þm. sagði, að hann byggist ekki við, að þessi hv. deild vildi samþykkja að banna okur á húsnœði, en jeg verð nú að segja það, að hann hefir verið svo þrautseigur í baráttunni fyrir áhugamálum sínum, að jeg býst við, að hann myndi ekki gefast upp, er hann hefir gott mál að flytja, þótt það væri nokkrum sinnum drepið fyrir honum. Sami hv. þm. benti á, að frv. þetta ætti að koma í stað þess, sem gert hefir verið fyrir sveitirnar. Jeg gœti vel fallist á þetta með hv. þm., ef eitthvað hefði verið gert í þessu efni fyrir sveitirnar. En gallinn er bara sá, að ekkert hefir verið fyrir þær gert, sem nokkurn árangur er farið að bera.

Jeg er að sjálfsögðu fús til að líta með velvild á hag kaupstaðabúanna. En jeg vil spyrja: Hvernig verður líf fólksins, sem kaupstaðina byggir, ef t. d. svo færi, að 3–4 aflaleysisár kæmu yfir þjóðina? Hvað ætli yrði þá um alla verkamannabústaðina, ef við þyrftum að breyta alveg lifnaðarháttum?

Læt jeg svo máli mínu lokið að sinni og mun láta mjer á sama standa um öll hnífilyrði, sem jeg kann að fá, hvort heldur sem það verður innandeildar eða þm. fari með þau í saurblöð, sem þeir gefa út.