10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3461 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

37. mál, verkamannabústaðir

Sigurður Eggerz:

Jeg skal ekki þreyta hv. deild með langri ræðu, en jeg vil minna á það, að við 2. umr. þessa máls kom jeg með samskonar till. og hv. 1. þm. Skagf. hefir nú gert, um að vísa þessu máli til stj. Jeg þóttist þá hafa rökstutt allrækilega, að þessa leið ætti að fara, en mjer virðist sem ekki hafi verið tekið mikið tillit til þeirra raka, þótt mjer sjálfum þætti þau ekki lítils virði.

Jeg benti á, að það væri óviðfeldið, að Alþingi tæki ákvarðanir um, að bæjar- og sýslusjóðir tækju á sig ákveðna ábyrgð og legðu fram ákveðið tillag í þessu skyni. Ef brtt. hv. 1. þm. N.-M. verður samþ., nær þetta líka til kauptúnanna. Nú hagar víða svo til, að kauptúnin eru meiri eða minni hl. úr viðkomandi sveit, og ætlast hv. 1. þm. N.-M. því til, að þessari greiðslu verði aðeins jafnað niður á íbúa kauptúnsins, en ekki aðra í sveitinni. Jeg er hálfhræddur um, að það mundi mælast illa fyrir í kauptúnunum, ef þar á að fara að jafna niður á menn þessu gjaldi eftir sömu reglum og með útsvör. Hinsvegar er jeg því samþykkur, að kauptúnin þurfi engu síður að njóta góðs af þessu en kaupstaðirnir. Jeg tel það mjög óheppilegt að stofna byggingarfjelög í hverjum kaupstað og kauptúni, því að af því leiðir, að hvert byggingarfjelag út af fyrir sig verður að útvega sjer lán úr ríkissjóði. Er lítil hagsýni í slíku fyrirkomulagi. Í þessu sambandi vil jeg benda á það, hvernig búið er að koma fasteignalánunum fyrir. Í stað þess að hafa þau öll undir einum hatti og stofna einn fasteignabanka, er lánunum dreift niður í marga staði. Landsbankinn hefir veðdeildina og sömuleiðis Búnaðarbankinn. Líkt er þessu farið með lánsfjelögin, sem samþ. voru í fyrra. Og nú á að fara að stofna marga fasteignabanka víðsvegar um land, því að þessi byggingarfjelög eru ekkert annað en bankar, sem hver um sig útvegar lán upp á ábyrgð ríkissjóðs. Það hlýtur hver maður að sjá, að með því að skifta þessu á svo margar hendur verða lánskjörin miklu verri en með því að hafa þetta alt undir einum hatti, enda hljóta menn að sannfærast um það, því betur sem þeir lesa þetta frv., að það vantar ítarlegan undirbúning.

Það má segja margt fallegt um þá hugsjón að styðja þá, sem örðugt eiga og búa við vond húsakynni, en hinsvegar er ekkert eins vel lagað til að kæfa þessa hugsjón eins og ef það, sem gert er, er áberandi „ópraktískt“.

Ýms ákvæði þessa frv. eru í ósamræmi við tilsvarandi löggjöf á Norðurlöndum, svo sem ákvæðið um það, að veðsetja megi hverja íbúð fyrir sig. Þetta er auk þess á móti mörgum núgildandi byggingarsamþyktum, svo ef taka á upp þennan nýstárlega sið, verður að gera heila löggjöf í sambandi við það. Jeg bendi á þetta til þess að sýna fram á, að frv. er svo illa undirbúið, að sjálfsagt er að vísa málinu til stj.

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í þær deilur, sem hjer hafa risið milli fulltrúa bæjanna og sveitanna. Jeg slæ því föstu, að það sje meiri þörf að hjálpa sveitunum til að byggja, vegna fólksstreymisins þaðan. Þeir. sem þekkja, hvernig smábændurnir búa í hálfgerðum moldarkofum, vita, hve þörfin er mikil, en hinsvegar fer ekki vel á því að bera fulltrúum sveitanna hreppapólitík á brýn, því að þeir hafa oftar en einu sinni sýnt, hversu mikið þeir vilja gera fyrir bæina og útveginn. Mjer finst sem fulltrúar sveitanna hafi sýnt mikla sjálfsafneitun á þessu þingi, því að það hefir greinilega komið í ljós, að þeir vilja, þótt þeir sjeu fulltrúar sveitanna, gera meira fyrir kaupstaðina en sveitirnar. Mjer finst sem þeir vilji gera lítið fyrir sveitirnar, en alt fyrir bæina og útveginn. Það er því illa farið, þegar verið er að bregða þeim um þröngsýni.

Jeg ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en endurtek það, að jeg vil styðja fast að því, að þessu máli sje vísað til stj.