10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3463 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg þarf að gera nokkrar athugasemdir, sjerstaklega út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hann tók það upp, sem hjer hefir verið sagt af þeim, er á móti þessu frv. eru, að ekki stæði eftir af því steinn yfir steini, eftir að till. hæstv. forsrh. voru samþ. Það er rjett, að það eru komnar nýjar gr. í stað allra gr. gamla frv., en það er fljótt hægt að sannfærast um, að alt meginmálið er hið sama. T. d. eru þau kjör, sem menn geta fengið þessar íbúðir keyptar með, hin sömu og í upphaflega frv., en það er aðalatriðið. Hitt er fyrirkomulagsatriði, hver eigi að byggja. Eftir upphaflega frv. var ætlast til, að bæirnir gerðu það, en þó jafnframt aðgangur fyrir samvinnufjelög verkamanna til að byggja. Eftir tillögum hæstvirts forsrh. er fyrst og fremst œtlast til, að samvinnufjelög sjái um að byggja húsin, en bæjarstjórnunum hinsvegar heimilt að gera það. Er enginn eðlismunur á þessu tvennu, aðeins önnur niðurröðun frvgr., sem ekki breytir kjarna málsins. Sama er að segja um árgjaldið, nema hvað það er ákveðið í eitt skifti fyrir öll eftir till. hæstv. forsrh.

Mjer kemur ekki til hugar að fullyrða það, að þessu máli sje nú ráðið til endanlegra lykta, enda hygg jeg, að fá stórmál hafi í byrjun verið svo leyst, að ekki hafi þurft að gera þar á breyt. síðar. Hinsvegar vona jeg, að þetta frv. nái fram að ganga, svo að reynsla fáist í þessum efnum og hægt verði að bœta þessa löggjöf, þannig að hún komi að sem bestum notum fyrir þá, sem hún á að ná til, og skapi heilnœmar og ódýrar íbúðir fyrir íslenskan verkalýð. Og víst er það, að hvað oft sem þessu máli verður vísað til stj., mundi hún aldrei geta undirbúið það svo vel, að engar breyt. þyrfti á að gera, er reynsla væri fengin í þessum efnum. Það er á misskilningi bygt, að litlum tíma hafi verið varið til undirbúnings þessa frv. Það var varið miklum tíma til undirbúnings þess og það hefir tekið mikinn tíma hjer á þinginu, fyrir utan umr., að búa því það form, sem það nú liggur fyrir í.

Hv. 1. þm. Reykv. hjelt því fram, að rjettara væri að láta taka fasteignalánin úr veðdeildinni, en nota ríkissjóðsstyrkinn til viðbótar. Jeg fæ ekki sjeð, hvað á að vinnast með þessu. Ef þessi leið væri farin, yrðu renturnar hærri, og þau kjör, sem menn fengju, þar af leiðandi verri. Í öðru lagi bæri ríkissjóður fulla ábyrgð á veðdeildarlánunum, svo að með þessu ynnist það eitt, að ríkið yrði að leggja fram meira fjármagn, því að með þessu móti yrði það að bera ábyrgðina eitt, í stað þess sem ábyrgðin skiftist eftir frv. að jöfnu niður á ríkið og bæina. (MJ: Það er um beint framlag að ræða, sem myndi endast lengur á þennan hátt). Ríkið þyrfti að bera ábyrgð á hærri upphæð, ef þetta væri samþ., en eftir frv., þar sem það á ekki að ábyrgjast þetta nema að hálfu leyti, auk þess sem kjörin yrðu með þessu móti verri og næðu til færri manna. Ef bygt hefði verið fyrir alt það fje, er byggingasjóður rjeði yfir, væri eins hægt að útvega nýja ríkissjóðsábyrgð og auka framlögin nýju eins og að fara í veðdeildina, sem gæti skapað það erfið kjör, að riði baggamuninn fyrir ýmsum, er. byggja vildu.

Jeg þarf engu að svara hv. 1. þm. Skagf. (MG: Jeg er dauður). Já, hv. þm. er meira að segja steindauður, því að hann er búinn að halda hjer þrjár stórar ræður, og tókst það með því að stela framsögumannsrjettindunum frá hv. þm. Barð.