16.05.1929
Efri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3475 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

37. mál, verkamannabústaðir

Jón Þorláksson:

Gagnsemi þessa frv. veltur í mínum augum að mestu leyti á því, hvort það er tekin upp sú aðferð að reisa sambyggingar, eða hin, að reisa sjerbyggingar.

Það gladdi mig alveg sjerstaklega að heyra hv. 4. landsk. leggjast svo fast á þá sveifina, hvað miklu sjerbyggingarnar eru heppilegri. Því að það er satt að segja mjög tvísýn framför — og kannske engin framför — í ákvæðum frv., ef þau yrðu til þess, að farið væri að reisa sambyggingar fyrir smáfjölskyldur frekar heldur en gert er án afskifta löggjafarvaldsins. Því að það er náttúrlega af ýmsum ástæðum mikil tilhneiging til þess að reisa sambyggingar undir eins og kaupstaðirnir fara að stækka nokkuð verulega.

Jeg hefði nú fyrir mitt leyti getað tekið frv. með mikilli ánægju, ef þessi ákvæði hefðu beinlínis staðið í frv. sjálfu, þannig að það væri einskorðað við sjerbyggingar eða þá sambyggingar tveggja smáhúsa, sem er mögulegt að koma þannig fyrir, að hvert hús geti orðið sjálfstæð eign út af fyrir sig. En svo eru því miður á frv. töluverðir gallar, sem gera það að verkum, að jeg álít mjög tvísýnt, að málinu sje vinningur að því, að frv. fái afgr. eins og það nú er. Og höfuðgallinn í mínum augum er ákvæði 2. málsgr. í 3. gr., um það, hvernig eigi að verja fje byggingarsjóðanna. Það er gert ráð fyrir, að þessir byggingarsjóðir, sem ekki geta orðið sjerlega sterkar stofnanir fjárhagslega, þeir eigi einir að taka á sig alla byrði af lánsfje til þessara húsa. Þetta virðist mjer framúrskarandi óviturlegt. Því má ekki nota sjer hin almennu fasteignaveðlán veðdeildar Landsbankans t. d., til þess að leggja fram samsvarandi hluta til byggingar þessara húsa eins og á sjer stað til byggingar húsa yfirleitt í kaupstöðum? Það er svo nú sem stendur, að menn geta gert ráð fyrir því, að af byggingarkostnaði geti þeir fengið úr veðdeild Landsbankana kringum 35% . Eftir ákvæðum frv. á sá, sem verður eigandi, að leggja fram 15%, og ef veðdeild er notuð, þýðir það það, að byggingarsjóður þarf ekki að sjá fyrir meiru en helmingi byggingarkostnaðar. En eftir ákvæðum frv. verður hann að sjá fyrir 85% byggingarkostnaðar. Það er auðsjeð, að sjóðirnir verða hlutfallslega að þeim mun minni notum, sem þeir eiga að leggja fram og bera meiri hluta af byggingarkostnaðinum.

Menn munu kannske svara, að veðdeildin sje of dýr; en það er alveg misskilningur. Ef menn vildu reikna með þeim lánum og láta útkomuna verða hina sömu fyrir húseigendur, þá þýðir það ekki annað en það, að gera þyrfti lítilsháttar breyt. á lánskjörum frá byggingarsjóðnum á því fje, sem hann lánar gegn öðrum veðrjetti. En sannleikurinn er sá, að veðdeildarlánin eru alls ekki dýr eins og nú stendur, og það er ekki tilfinnanlegur aukakostnaður fyrir nokkum mann, þótt hann þurfi að nota veðdeildarlán að 1/3 húsverðsins, móts við að nota það lán úr byggingarsjóði, sem hjer er gert ráð fyrir. Mjer hefir talist svo til, að það mundi muna 30 kr. í árgjaldi fyrst um sinn af 10 þús. kr. húsi. En sem sagt, það má jafna þetta, ef menn vilja, með breyt. á lánskjörum úr byggingarsjóði gegn öðrum veðrjetti. En geta hans lamast ákaflega mikið við það, að hann á að standa þarna einn um lánveitingar.

Jeg veit ekki, hvort þingið stendur svo lengi, að fært verði að koma með brtt. við svona frv., en jeg hefi hugsað mjer samt að hreyfa breyt. á þessu við 3. umr. Svo eru ýmisleg atriði í frv. eins og sjerkreddur, stafandi frá flutningsmanni þess, eins og t. d. að byggingarfjelögin mega alls ekki eiga sjálf það land, sem húsin eru bygð á. Þetta er a. m. k. gagnstætt því, sem er þolað og tíðkað í slíkri löggjöf annarsstaðar, og það í löndum og bæjarfjelögum, þar sem jafnaðarmenn hafa haft ráð um langan aldur. Þeir líta engum ólundaraugum til þess, þó að eigendur smáíbúða eigi líka lóðirnar undir húsum sínum. En hjer er jafnaðarmannahreyfingin svo stutt á veg komin, að foringjarnir lifa ennþá svo að segja í frumkristni þeirrar stefnu. Og samkv. hennar kenningum má eiginlega helst enginn eiga nokkurt land eða lóðarblett. Drefjarnar af þessu eru komnar fram í þessu frv. Jeg gæti vísað jafnaðarmönnum til þess að læra af flokksbræðrum sínum t. d. í höfuðstað sambandsríkis okkar, Kaupmannahöfn. Þeir eru sannarlega ekkert hræddir við, þótt svona smælingjar eignist húsin sín með lóðunum undir.

Jeg ætla nú ekki að þreyta hv. d. með lengri ræðu um þetta við þessa umr., úr því að jeg ekki bar fram neina brtt. Og jeg mun með mínu atkv. styðja að því, að málið gangi til 3. umr., hvað sem svo frekar verður.