18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3480 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

37. mál, verkamannabústaðir

Jón Þorláksson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 675, og sú fyrsta fer fram á að binda ekki hendur stjórnar byggingarsjóðs eins mikið og gert er í frv. um það, hvernig útlánum skuli háttað. Eins og frv. er orðað, er ekkert annað heimilt en að byggingarsjóður láni einn út á húsin alt, sem verður lánað. Þetta er hin mesta óhagsýni, því að það mundi sennilega í mörgum tilfellum þykja hentugt að nota þær veðlánsstofnanir, sem veita lán gegn fyrsta veðrjetti, en nota byggingarsjóð aðeins til nauðsynlegra viðbótarlána. Jeg hefi orðað þetta svo, að það er stjórn byggingarsjóðs frjálst, hvaða leið er farin.

2. brtt. er við 5. gr. og er þess efnis, að því verði skotið inn, að húsin skuli ekki vera hærri en tvíhæða. Þetta vil jeg gera til að koma í veg fyrir, að farið verði að nota þessi hlunnindi til að byggja fyrir opinbert fje mikil og há hús með mörgum íbúðum. Það kom fram við 2. umr. hjá hv. 4. landsk., að að því bæri að stefna, að þessi hús yrðu sjerbyggingar fyrir eina eða í hæsta lagi tvær fjölskyldur. Jeg er hv. þm. alveg sammála um það, og ef brtt. mín verður samþ., býst jeg við, að ákvæði hennar nægi, þó að jeg hefði heldur kosið ítarleg ákvæði í frv. um þetta. Jeg veit, að því er haldið fram af sumum, að sambyggingar verði tiltölulega ódýrari; en í fyrsta lagi er munurinn lítill, og í öðru lagi verður að gæta þess, að þegar verið er að ráðast í aðrar eins framkvœmdir og húsagerð, sem eiga að endast í 2–3 kynslóðir, er það aukaatriði, hvort kostnaðurinn er lítið eitt meiri eða minni í byrjun. Hitt er aðalatriðið, að framkvæmdirnar verði taldar fullnægjandi í nokkuð langan tíma, þó að kröfur manna og aðstæður breytist. Sjerbyggingar þurfa ekki að valda vandræðum í framtíðinni, þó að kröfur manna til þæginda aukist, því að þær er hægt að endurnýja og breyta þeim á ýmsan hátt.

2. brtt. við 5. gr. er þess efnis, að skotið verði inn fjórum orðum, sem merkja það, að slík byggingarfjelög, sem um getur í frv., geti notið sömu aðstöðu, þó að þau byggi í landi, sem fjelagið á sjálft. Þessa brtt. ætti ekki að þurfa að skýra. Hjer í höfuðstaðnum er að vísu ekki kostur á sjálfseignarlandi, nema með því móti að kaupa land af bænum, og það getur reyndar verið ávinningur fyrir fyrirtækið, en ekki mikill, því að bærinn mundi sýna sanngirni í leigumála. En annarsstaðar stendur svo á, að land við kaupstaðina er einkaeign, og er alls ekki rjett að hindra byggingarfjelögin á þeim stöðum að kaupa landspildu.

Allar brtt. mínar eru bornar fram af vinsemd við frv. Samt eru eftir nokkur ákvæði, sem jeg hefði heldur kosið á annan veg, t. d. það, að útiloka ekki menn frá þessum framkvæmdum, sem eiga meira en 4.000 kr. Það á ekki að vera tilgangurinn að velja endilega úr þá allra fátækustu og gera þá að húseigendum. Aðalatriðið er að geta komið upp sem flestum húsum þeirrar tegundar, sem þörf er á.