18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3482 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

37. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Jeg skal gjarnan viðurkenna, að jeg álít brtt. hv. 3. landsk. fram bornar af vinsemd við málefnið. Þó að þær nái fram að ganga, gera þær málið ekki á neinn hátt óaðgengilegt. En þess ber að gæta, að þetta er síðasti eða næstsíðasti deildarfundurinn á þessu þingi, svo að ef brtt. verða samþ., nœr frv. ekki fram að ganga. Það eru nógu margir andstæðingar þess í Nd. til að neita um afbrigði, ef til kæmi.

Um fyrstu brtt. skal jeg geta þess, að það er rjett, að það sparar sjóðunum fje, ef farið er til veðdeildanna, en kjörin eru betri í sjóðunum, svo að þess er ekki kostur fyrir þá, sem hjer eiga hlut að máli, að nota sjer veðdeildirnar þó að með því móti yrði hægt að byggja meira.

Jeg er sammála hv. 3. landsk. um það, að húsin eigi ekki að vera hærri en tvíhæða. Helst hefði jeg kosið bara einlyft hús fyrir eina fjölskyldu. Tvö slík hús gætu staðið saman, en íbúðirnar verið hvor út af fyrir sig.

Á þann hátt getur hver fjölskylda verið meira út af fyrir sig, og hefi jeg lýst því, hvernig það gæti orðið. Jeg held við höfum nóg landrými undir húsin, en það þarf fyrirfram að útbúa landsvæði undir byggingarnar, svo að ekki standi á því. Jeg er sammála hv. þm. um þetta og þá framkvæmd laganna, að fremur beri að hafa húsin lítil en stór. En þetta er framkvæmdaratriði og þarf ekki til lagaákvæði, en því má breyta síðar, ef það þykir nauðsynlegt. En jeg er ekki á sama máli að því er lóðirnar snertir; jeg álít, að það sje heppilegra að leigja lóðirnar. Jeg þekki marga verkamenn, sem hafa átt lítil hús eða lóðarbletti, nægilegt fyrir sig, en álpast til að selja það til annara til þess að geta fengið einhver auraráð í bili, og notað þá síðan til annars ónauðsynlegra. En svo hafa þessir sömu menn orðið að leigja hjá þeim, sem keyptu húsin, og orðið að láta mikinn part af húsverðinu ganga upp í hina rándýru og síhækkandi húsaleigu. Niðurstaðan mundi verða hin sama um þessar nýju byggingar, Ef menn vildu fara að nota sjer þá verðhækkun á lóðum og húsum, sem leiðir af því, að margir byggja á einum stað, þá myndi sá augnabliksgróði, sem einstaklingar kynnu að hljóta af því að selja lóð sína og íbúð, fljótur að hverfa aftur.

Jeg lít svo á, að þessar brtt., sem hjer eru fram komnar við frv., sjeu fluttar af vinsemd til málsins, en jeg ræð eindregið frá því, að þær verði samþ., vegna þess að þær hljóta óhjákvæmilega að verða frv. að falli á þessu þingi; auk þess sem þá mætti búast við fleiri brtt., sem yrðu til skemda á málinu.