05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Sigurðsson:

Þegar hæstv. fors.- og atvmrh. svaraði mjer í gær, lýsti hann því, að hann liti svo á, að 2. gr. frv. næði til allra, er landbúnað stunda að einhverju leyti, svo að þeir gætu notið þeirra hlunninda, er felast í þessu frv., ef að lögum verður, og þá sjerstaklega að því leyti er rekstrarlánin snertir. Jeg verð nú að játa, að jeg hefði ekki þorað að leggja svona víðtækan skilning í greinina. En fyrst þessi er skoðun hæstv. forsrh., þá vil jeg skora á hann að halda fast við þessa skoðun sína í framtíðinni, því ef svo fer, að brtt. n. við þessa gr. verður feld, þá er jeg þó miklu ánægðari, ef þessi skilningur er lagður í greinina. Hinsvegar efast jeg um það, að hæstv. forsrh. hafi athugað það vel, hve víðtæk gr. verður með þessum skilningi, því undir landbúnaðarframleiðslu í víðtækasta skilningi hlýtur að falla fjöldi manna í kaupstöðum og utan við þá, er ekki hafa nema lítilfjörlega grasnyt.

Að öllu þessu athuguðu er mjer það næstum því óskiljanlegt, að hæstv. forsrh. skuli gera að eins miklu kappsmáli að fella tillögu nefndarinnar og hann virtist gera í gær. Mjer fyrir mitt leyti finst nú, eftir skýringum hæstv. forsrh., orðið svo skamt á milli, að mögulegt mundi að brúa djúpið og finna millileið, er báðir mættu vel við una. Annars er það ekki ætlun mín að taka aftur till. n., heldur mun jeg fylgja henni fast fram. En ef svo fer, að hún verður feld, þá vil jeg endurtaka þá áskorun mína til hæstv. ráðh. um það að halda fast fram áður yfirlýstum skilningi.