18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir haft þetta mál með höndum og gert ályktun um það. Samkvæmt þeirri ályktun flytjum við þetta frv., en þó ekki alveg samhljóða henni. Frv. fer fram á það, að Seltjarnarneshreppur allur verði lagður undir Reykjavík frá 1. janúar 1930. Eins og öllum er kunnugt, liggur Seltjarnarnes hjer rjett hjá Reykjavík. Maður þarf ekki að ganga nema örlítinn spöl vestur fyrir bæinn til þess að komast þangað. Á Seltjarnarnesi er nú að myndast nokkurskonar útborg frá Reykjavík. Mun vera búið að selja flestallar lóðir meðfram veginum þar. Má því búast við, að þar rísi upp ekki svo lítill bær. Annað þorp í nánd við Reykjavík er í Skildinganeslandi, og mun það verða stærst, en þriðja þorpið er í Viðey. Í Viðey eru nú um 100 manns. Reykvíkingar eru þeirrar skoðunar, að þessir staðir eigi að heyra undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, af því að íbúar þeirra njóta allra hlunninda, sem Reykjavík fylgja, en sleppa hinsvegar við skatta og skyldur bæjarins. Tilgangur þeirra manna, sem flytjast til þessara staða, er aðallega sá, að geta notið hlunnindanna, sloppið undan sköttum, en stundað samt atvinnu sína hjer í bæ. Það er engin ástæða til, að það opinbera stuðli að því, að slíkir smábæir rísi upp í kringum Reykjavík, í skjóli hennar.

Fyrir utan þá staði, sem jeg hefi nefnt, koma til greina ýmsar jarðir í Seltjarnarneshreppi. Ef þorpin væru lögð undir Reykjavík, eru jarðirnar, sem eftir eru, svo fáar, að þær geta varla myndað sjerstakan hrepp. Jeg ætla fyrst að minnast á Elliðavatn. Það er einhver besta jörðin hjer nærlendis og eign bæjarins. En vegna sambandsins við rafveituna og nauðsynlegs renslisjöfnuðar Elliðavatns, er ekki nema eðlilegt, að bæði jarðirnar Elliðavatn og Vatnsendi heyri undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Jörðin Hólmur er landssjóðseign, en til hennar sækja Reykvíkingar vatnið, í Gvendarbrunna, og væri æskilegt, að bærinn gæti átt umráð hennar. Þá eru Digranes og Kópavogur, sem báðar eru landssjóðsjarðir, og Fífuhvammur, sem er einstaklingseign. Þessar jarðir vœru heppilegar fyrir ýmiskonar bæjarstofnanir, svo sem elliheimili, barnahæli o. fl., en gætu annars sameinast annaðhvort Garðahreppi eða Mosfellssveit. Enn er ein jörð eftir, sem sje Lögberg. Hún gæti sameinast Mosfellssveit. Íbúatalan í þessum hreppi er um 500. Eftir síðustu skýrslum eru eignir hreppsins 57 þúsund krónur, og hann borgar 1800 krónur í sýslusjóðsgjald til Kjósarsýslu. Öll fjárskifti yrðu fram að fara með samningum, en ef samkomulag fengist ekki, ætti atvinnumálaráðuneytið að skera úr.