26.03.1929
Neðri deild: 32. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg hefi fáu að svara, því að hv. 2. þm. G.-K. hefir svarað flestu í ræðu hv. 2. þm. Reykv. En hv. þm. (ÓTh) heyrði ekki nokkurn hluta ræðu hv. 3. þm. Reykv. (Jól), og vil jeg því svara ýmsu úr ræðu hans.

Hv. 3. þm. Reykv. hóf ræðu sína á því, að á bak við frv. þetta stæðu 26 þús. manna, og væri því ekki að efa, að krafa frv. væri rjettmæt. Með öðrum orðum, hjer á sá sterki að ráða, en hinn veikari að láta í minni pokann.

Jeg held því fram, að rjettur hins veikari sje jafnmikill og heilagur og rjettur hins sterka, og að jafnt beri að taka tillit til rjettar og hagsmuna 26 manna og 26 þús. manna. Hitt er kenning úr grárri fornöld, og lítt sæmandi að bera slíkt fram hjer á Alþingi.

Sami hv. þm. sagði, að hjer væri ekki um neina úlfsgræðgi að ræða; þetta sje hagsmunamál Reykjavíkur. En eru það ekki hagsmunir úlfsins, er láta til sín taka, er hann svelgir lambið? Hjer er sama græðgin á ferðinni, sem gín yfir þessum hreppi.

Þá sagði hv. þm., að iðulega yrði foreldrið að setjast í skjól afkvæmisins. — Það er alveg rjett, en það er mála sannast, að eftir því sem Reykjavík hefir vaxið, hefir hún sífelt þrengt að Seltjarnarneshreppi, þó að hann sem foreldri hefði átt að vera í þessu skjóli. Og það er vitanlegt, að Seltirningar munu ekki bera annað úr býtum við innlimunina en að borga hærri útsvör, án þess að fá nokkuð aukin hlunnindi fyrir sig.

Reykjavík hefir verið að stinga upp í sig bita og bita af því landi, er næst henni liggur, en jeg sje ekki, að neitt rjettlæti sje í því, að alt fari upp í þetta sama gin.

Þá sagði hv. þm. einnig, að það væri skylda Reykjavíkur, eftir að búið er að koma hjer upp svo dýrri höfn, að gæta hagsmuna bæjarins í því efni. Jeg býst við því, að víðar í nágrenninu megi finna hafnir og staði, sem gætu kept við Reykjavíkurhöfn, ekki síður en höfnin í Skildinganesi, og sje það skylda Reykjavíkur að gæta svo sinna hagsmuna, er það áreiðanlega skylda löggjafans að gæta rjettar annara.

Jeg býst við því, að t. d. Hafnarfjörður og Akranes megi þá fara að hafa hægt um sig, og reyndar hvaða staður sem er á landinu, sem getur orðið þess valdandi að draga úr aðrenslinu til Reykjavíkur.

Þá hafa flm. borið það fram sem eina aðalástæðu, að skipulagsleysi á byggingu húsa í Skildinganesi væri svo mikið, að nauðsynlegt væri þeirra hluta vegna að leggja það undir Reykjavík.

Ef skipulagsleysi er um byggingu húsa í sjávarþorpum, þarf að bæta löggjöfina í því efni, því að víðar mun full þörf að veita slíku athygli en í Skildinganesi.

Þá sagði hv. flm., að mótspyrna gegn þessu máli væri þýðingarlaus, því að Reykjavík myndi ná undir sig Seltjarnarneshreppi smátt og smátt. Jeg veit ekki, með hvaða rjetti hv. þm. segir þetta því að fyrst verður að nást samþ. Alþingis, áður en hv. þm. getur fullyrt þetta, og einhvem tíma kann að verða sagt: hingað og ekki lengra.

Jeg vil taka undir það, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði, að menn gætu eins flutt sig sinn fyrir Elliðaár eða upp á Kjalarnes, ef þeim byði svo við að horfa.

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) sagði, að jeg væri ekki samkvæmur sjálfum mjer í þessu máli, og benti á það, er innlimun Tungu lá fyrir þinginu í fyrra. Þar var alt öðru máli að gegna, þar sem aðeins var um mjög lítinn hluta hreppsins að ræða, eða eina jörð, en hjer á að gleypa heilan hrepp. — Þó lagði jeg á móti málinu í fyrra, og gætti þar hagsmuna hreppsins. Álit mitt nú er því í fullu samræmi við gerðir mínar í fyrra.

Hv. 2. þm. Reykv. (HV) vildi telja mjer trú um, að jeg væri hjer á villugötum; bændur hefðu hjer engra hagsmuna að gæta.

Jeg vona, að hv. þm. hafi heyrt, að jeg get tekið tillit til annara en bænda. Jeg veit, að fleiri búa í Seltjarnarneshreppi en bændur, og er það með hagsmuni allra hreppsbúa sem heildar, bænda, verkamanna og útgerðarmanna, fyrir augum, að jeg legg á móti frv., svo og vegna allra bænda sýslunnar. En jeg verð að segja það, að eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, þá sje jeg ekki betur en að það jafnist nokkuð á báða bóga. Vitanlegt er það, að ýmsir menn stunda atvinnu hjer í Reykjavík, eða í sambandi við Reykjavík, en eiga heima á Seltjarnarnesi, og rennur nokkur hluti útsvars þeirra til Seltjarnarness. En jeg veit ekki betur en að það sjeu stór fyrirtæki á Seltjarnarnesi, þar sem eigendur og framkvæmdarstjórar eiga heima í Reykjavík, og hafa því Reykvíkingar hlunnindi af búsetu þeirra í bænum. Jeg veit ekki annað en að ákvæði sjeu til í útsvarslögunum, sem heimila, að ef útsvör eru miklu þyngri í atvinnusveit heldur en í dvalarsveit, þá geti atvinnusveit krafið inn nokkurn hluta af því útsvari, sem henni bar, ef maðurinn átti þar heima.

Hv. 2. þm. Reykv. vil jeg segja það, að það stappar að minsta kosti svo nærri lögbroti, að ekki er sæmandi. ef þessu máli er sýnd sú virðing að leyfa því í n. Því að það má ekki minna vera en að það, sem kemur fram á þingi, sje nokkurnveginn í samræmi við gildandi lög. Það er ekkert við því að segja, þó að alt Seltjarnarnes verði lagt undir Reykjavík með húð og hári, ef það er gert eftir lögum og eftir samkomulagi við þá menn, sem hlut eiga að máli. En þegar farið er fram á að gera það með því að brjóta rjett á mönnum og að nokkru leyti gildandi lög, — það er ekki þess vert að taka það alvarlega.