26.03.1929
Neðri deild: 32. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg er ánægður, úr því að hv. þm. G.-K. hefir játað, að hann hafi drýgt ýmsar syndir í þessum umræðum, blandað hlutum saman, sem ekki áttu saman o. s. frv. Jeg vona, að þetta verði honum til viðvörunar framvegis, svo að hann hugsi málið betur, áður en hann talar.

Að öðru leyti hefi jeg ekki ástæðu til að fara út í þetta, nema eitt atriði. Hv. þm. sagði, að jeg hefði farið á fund niðurjöfnunarnefndar og haft í hótunum, ef „British Petroleum“ fengi hærra útsvar en áður hefði verið. Fyrst vil jeg þá skýra frá því, sem þó allir hv. þm. vita, að það, sem gerist á fundum niðurjöfnunarnefndar, er bundið svo miklu þagnarheiti, að drengskapur er við lagður, svo að það er auðsjeð, að hv. þm. hefir fengið einhvern til að rjúfa þagnarheitið. (ÓTh: Jeg hefi þetta úr opinberum fyrirlestri). Ef svo er, þá er það vísvitandi lygi þess manns, sem sagði. (Forseti hringir). Jeg endurtek það, að það er vísvitandi lygi þess manns, sem þetta hefir sagt. Og jeg vil geta þess, að það er auðvelt með rjettarhöldum að fá staðfesting á því, að í staðinn fyrir að jeg hefði í hótunum, þá skýrði jeg niðurjöfnunarnefnd frá því, sem lögfræðingar yfirleitt álitu í bænum, að það væri mjög vafasamt, hvort hægt væri að leggja á fjelagið, svo að ef lagt yrði á það hátt útsvar, yrði það sennilega gert að dómstólamáli. Það er því ekki hægt að segja, að jeg hafi haft í hótunum, — því að hótun mun enginn skoða það, að skýra frá því, að annar aðilja muni undir gefnum kringumstæðum láta dómstólana skera úr, hvað lög sjeu í landinu, — heldur hef jeg þvert á móti orðið þess valdandi, að bærinn hefir fengið það útsvar, sem annars var honum óvíst.