02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

46. mál, fyrning skulda

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg mun nú ekki fylgja frv. þessu af stað með löngum formála. Eins og hv. þdm. er kunnugt, lá frv. fyrir þingi í fyrra um sama efni. Lýsti jeg þá tilgangi þeim, sem því er ætlað að ná, og get að mestu vísað til þess nú.

Eins og grg. ber með sjer, þá er tilgangurinn sá, að draga úr skaðleguni áhrifum vissra lánveitinga og varna því, að lánstraustið, sem í sjálfu sjer er góður hlutur, verði misnotað. Taka ákvæði frumvarpsins einkum til þeirrar tegundar lána, sem almennust er, en það eru verslunarlánin. Samkvæmt gildandi lögum fyrnast verslunarskuldir á 4 árum. En önnur ákvæði laganna gera það að verkum, að í raun og veru njóta þessi fyrningarákvæði sín sjaldan, þar sem venjulegast er um framhaldsviðskifti að ræða, og meðan svo er, fyrnist skuldin ekki. Í framkvæmdinni verður þetta því svo, að þessar skuldir verða rjetthærri en ýmsar aðrar, sem þó eiga eftir eðli sínu að hafa meiri rjettarvernd.

Frv. í fyrra var athugað af hv. allshn., er lagði í nál. á móti frv. Nefndin taldi þó tilgang frv. góðan og rjettmætan, en leit svo á, að frv. mundi hefta um of lánstraust manna. En nú liggur fyrir þessu þingi frv., sem breytir aðstöðu sveitabænda mjög í þessu efni, ef að lögum verður. Það er frv. um sveitabanka. Gangi það fram, þá tel jeg fremur of stutt en of langt gengið í frv. þessu.

Jeg vil svo óska frv. góðra undirtekta og að það gangi að umr. lokinni til allshn.