20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2280)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Þó að einkasölumál sjeu engin nýung hjer á Alþingi, þá er þó þetta frv. nokkur nýung og tilbreytni frá þeim, er áður hafa verið hjer á ferðinni.

Eins og sjest á frv., þá er í því gert ráð fyrir því, að sýslu- og bæjarfjelögum sje heimilt að taka í sínar hendur innflutning og sölu á nauðsynjavörum þann tíma árs, er hætta er á því, að siglingar stöðvist vegna hafíss eða annara hindrana. Frv. á því aðallega við staðhætti norðanlands, þar sem hætt er við hafísreki.

Jeg geri nú ráð fyrir því, að hv. þdm. neiti því ekki, að fylsta ástæða sje til að íhuga slík mál og þetta. Ísahættan er altaf mikil fyrir Norðlendinga, og jafnvel fyrir alt landið, því þess munu finnast dæmi, að hafís hefir verið kringum alt land, nema ef til vill við Breiðafjörð. Það má nú ef til vill segja, að ekki sje nú ástæða til þess að fara að gera ráðstafanir í þessa átt, eftir að við höfum lifað hjer allan þann tíma, er liðinn er frá því á landnámsöld. Og lifað sæmilega, mætti bæta við, þó við höfum auðvitað orðið fyrir mjög þungum búsifjum af völdum íss og eldgosa. En reynsla undanfarinna ára hefði átt að geta gert okkur það framsýnni en forfeður okkar, að við ljetum nú ekki hjá líða að gera einhverjar varnarráðstafanir, þó alt hafi slampast af ennþá. En við verðum að vera við því búnir að taka á móti hafísnum næst þegar hann kemur, því það er áreiðanlegt, að hann kemur, þó það geti vel dregist nokkuð ennþá. Og þó hann komi ekki nema einu sinni eða tvisvar á öld, þá verðum við að gera okkar ráðstafanir eigi að síður.

Það hefir nú þegar verið gert nokkuð að því að setja lög um þau efni, til þess að tryggja þjóðina gegn ís og eldgosum og öðru harðæri. En þó ýms lög hafi verið sett um þetta, þá hefir mjög lítið verið gert að því að framfylgja þeim. T. d. hefir ákvæðunum um korn- og heyforðabúr ekkert verið framfylgt. Frv. það, er Pjetur Jónsson flutti 1921 um einkasölu á kornvörum og sem átti að vera til tryggingar fólki og fjenaði, fjekk ekki betri viðtökur en svo, að því var vísað heim til umsagnar sýslu- og hreppsnefnda, og þar dagaði það uppi, hygg jeg að hafi verið. Af þessu sjest, að menn hafa haft mjög lítinn áhuga á þessum málum, en jeg tel það alls ekki vansalaust að láta afskiftalaust, hvílíka aðstöðu Norðlendingar eiga við að búa, ef ísinn kynni að koma aftur eins mikill og hann var t. d. á 17. og 18. öld og að sjálfsögðu fyr, enda þó fáar sagnir sjeu til um það. Til þess að hv. þdm. verði það enn ljósara, á hverju getur verið von, vil jeg leyfa mjer að lesa upp umsagnir fróðra manna um hafís hjer við land á 17. og 18. öld. Skal jeg t. d. taka það, er Þorvaldur Thoroddsen segir um veturinn 1694. Þá segir hann, að hafi verið ís við Norður- og Austurland alla leið til Eyrarbakka og Vestmannaeyja. 1695 var vetur harður um land alt, með snjóum og norðanstormum, ísalögum, hörkum og frostum. Hafís kom þá snemma að Norðurlandi og lá fram um þing. Um sumarmál var ísinn kominn vestur með landi að sunnan, alla leið að Þorlákshöfn, og 14. apríl 1695 rak hann fyrir Reykjanes inn á Faxaflóa. Rak ísinn þar inn á hverja vík, og mátti ganga á ísum af Akranesi í Hólmakaupstað. Lá hann í flóanum rúmlega fram í vertíðarlok. Að vestan komst ísinn fyrir Látrabjarg, en norðanlands mátti ríða og renna fyrir hvern fjörð um vorkrossmessu.

Þessi lýsing frá 17. öld sýnir okkur, að ísinn hefir þá legið um alt Ísland, nema lítið eitt af Breiðafirði. Ef við ættum nú að taka á móti slíku ísári, þá stæðum við miklu ver að vígi nú en þá, þó á 17. öld væri. Ástæðan til þess er sú, að nú byggjum við miklu meira á tíðari skipaferðum og notum meira aðkeypta vöru en þá. Þetta gerir þörfina til þess að hefjast nú þegar handa til þess að gera varnarráðstafanir tvöfalda.

Enn má og geta þess, að 1882 lá hafís hjer við land fram á höfuðdag. 1881–1889 voru yfirleitt hin mestu harðæris- og ísaár. Þá voru tekin hallærislán úr landssjóði, er námu 90 þús. kr. Útlendar þjóðir gáfu landsmönnum alt að ½ milj. kr. í hallærisgjöfum, og 2000 Íslendingar flúðu af landi burt til Ameríku. Þetta er öllum rosknum mönnum í svo fersku minni, að ekki þarf að fletta upp skrifuðum heimildum fyrir því. Þó skal jeg til frekari sanninda lesa upp kafla úr pjesa, er Guðmundur Björnson landlæknir gaf út 1913, „Næstu harðindi“. Þar stendur á bls. 43, með leyfi hæstv. forseta:

„Harðindin hófust með „frosta-vetrinum mikla 1880–81; hafís var mikill 1881 og 82; grasbrestur mikill sumarið 81, svo tún urðu sumstaðar ekki slegin; veturinn 1881–82 var mjög illur, og vorið aftaka hart, og varð þá geysimikill peningsfellir; þar á ofan var sumarið 82 eitt af þeim verstu, er sögur fara af. Árin 1883 og ’84 var tíðarfarið allgott, en ekki svo, að þjóðin gæti rjett sig við, og ‘85 kom aftur ilt árferði og hjeltst til ’88; var allmikill hafís 3 árin í röð, ’86–’88; með árinu ’87 (sultarárinu) má þó segja, að harðindunum sje lokið.“

Menn hafa nú hugsað sjer að byggja fyrir háska, er leiða kynni af hafís, með því að flytja vörur frá Suðurlandi til Norðurlands. En jeg fæ vart skilið, hvernig slíkt ætti að geta orðið, því ef veruleg kreppa yrði, mundi það verða meir en lítið, er flytja þyrfti af vörum, til þess að fullnægja fólki og fjenaði á öllu því svæði, er gæti komið til greina. Ef ís kæmi t. d. á jólaföstu og væri fram á vor og birgja þyrfti upp alt svæðið frá Horni og austur að Langanesi, þá er jeg hræddur um, að það hrykki skamt, ef alt ætti að flytja á sleðum eða á þvílíkan hátt sunnan frá auðum sjó og norður um sveitir. Slíkt er vitanlega fásinna ein. Nei, rjetta leiðin í þessu máli er sú, að birgja bæina og sveitirnar upp um veturnætur með forða, er nægði fram undir fardaga, því sjaldan mun það koma fyrir, að ísinn sje fastur lengra fram eftir sumri. Yrði svo þessi forði notaður yfir veturinn. Það er þessi leið, sem frv. gerir ráð fyrir, að farin verði, en ekki sú, er þó hefir stundum verið talað um í sambandi við þetta mál, að stofna sjerstök korn- og heyforðabúr, þar sem varan lægi ónotuð um lengri tíma. Frv. þetta gerir nú samt ekki ráð fyrir neinum sjerstökum ráðstöfunum hvað heyforða snertir, því það miðast aðallega við kaupstaðarbúa, vegna þess að þeir eru í mestri hættu.

Þó ástandið væri slæmt á 17. og 18. öld, var það björgun þjóðarinnar í hafísárunum, að mestur hluti hennar bjó í sveitum, en ekki í kaupstöðum. Munurinn er nefnilega sá, að í kaupstöðum birgja menn sig upp í mesta lagi til vikunnar, og margir kaupa daglega allar helstu lífsnauðsynjar sínar. Fari því svo, að verslanirnar verði uppiskroppa með vörur, er ekki annað fyrir en sulturinn.

Fyrr á árum var þetta aftur á móti svo, að ekki var treyst á vetrarferðir skipanna, og því drógu menn að sjer að haustinu svo mikið, að nægði til vors. Það var því lengi svo, að ísahættan og siglingateppan fór saman, og voru menn því betur undir ísahættuna búnir að því leyti, að þeir þurftu að draga að sjer á haustin hvort eð var.

Menn hafa haft ýmsar hugmyndir um það, hvernig við ætlum að haga okkur, ef ísinn spenti greipar sínar um landið eða nokkurn hluta þess, — því altaf má búast við því, og það er barnaskapur að ímynda sjer, að maður sje laus við hann.

Torfi í Ólafsdal reit grein í Búnaðarritið árið 1912, þar sem hann bendir á það, af ef bændur hefðu verið svo forsjálir að leggja 100 krónur á ári í hverjum hreppi í hallærissjóð, og byrjað á því 1841, þá hefðu verið komnar í þann sjóð 3 miljónir króna árið 1881. Hann segir, að ef bændur hefðu verið svona forsjálir, þá hefði verið næstum því gaman að lifa síðustu harðindi, frá 1880–1888. Nú lít jeg svo á, að ekki sje nauðsynlegt að hafa sjerstaka tryggingasjóði, heldur sje tekið upp gamla búskaparlagið, að kaupa inn að haustinu nægilegar birgðir yfir íshættutímann.

Það eru fleiri en Torfi í Ólafsdal, sem hafa talið nauðsynlegt að mynda sjóði til afnota í hallærum. Einn mætur maður í Svarfaðardal, sem uppi var snemma á 19. öld, hefir gefið mikla upphæð, sem verja skal til bjargar Eyjafjarðarsýslu og Akureyrarkaupstað, ef harðindi ber að höndum. Þessi maður hjet Jón Sigurðsson. Gjöf hans er nú orðin um 100 þús. krónur í verðbrjefum og fasteignum. Ef við hefðum átt þó ekki væri nema einn slíkan mann í hverri sýslu, þá stæðum við ekki illa að vígi, þó að harðindi bæri að höndum. Það er engan veginn eðlilegt, að aðeins einn maður á öllu landinu skuli hafa gefið fje í slíkan sjóð. Það eðlilegasta er, að hver einasti einstaklingur leggi fram til slíks.

Í kveri eftir Guðmund Björnson, sem jeg las upp úr, segir svo: „1913 voru menn farnir að trúa því, að veðráttan væri orðin breytt til batnaðar“; en það liðu ekki nema tvö ár, þangað til hafísinn ljet sjá sig aftur norðanlands. Hann gerði að vísu ekki mikinn óskunda í það sinn. Þó stytti hann vertíð eyfirskra sjómanna um mánaðartíma. Þá lá ís inni í fjarðarbotni í júlímánuði. Til eru ljósmyndir, sem sýna ísinn á pollinum á Akureyri 25. júlí 1915. Nú liðu ekki nema 3 ár, þangað til ís varð landfastur norðanlands og hamlaði skipagöngum frá því laust eftir nýár og þangað til í apríl. 4. apríl það ár kom skip fyrst inn á Eyjafjörð, og komst ekki lengra en til Hjalteyrar. Þá reyndist landsverslunin okkur hjálparhella, svo að nægar matvörubirgðir lágu norðanlands.

Þorvaldur Thoroddsen segir: „Engin náttúrufyrirbrigði hafa haft jafnmikil áhrif á árferði Íslands eins og hafísinn. Ísinn kemur eins og þjófur á nóttu, nærri alveg reglulaust. Því verða Íslendingar jafnan að vera við honum búnir. Ekki hafa menn neina hugmynd um orsakir ísára, en þau koma oft í hópum, hvert á eftir öðru.“ (Ísl. II, bls. 390–391).

Þrátt fyrir umsögn hinna fróðustu manna um harðindi á Íslandi, höldum við, að veðráttufarið sje að breytast svo til batnaðar, að við þurfum ekki að óttast ís og kulda framar. En veðráttan hefir verið góð fyr en í vetur. Árið 1340 fundust til dæmis egg undan fuglum í Flóanum nálægt miðri góu. Og eftir jól árið 1623 var vetur svo góður, að sóleyjargras var sprottið í Skagafirði í síðustu viku vetrar, segir í ísl. annálum. Við þurfum ekki að ímynda okkur, að þó að góð veður hafi verið nú undanfarið, sje svo mikil breyting orðin á veðráttufarinu yfirleitt, að ekki geti komið önnur eins ísaár og til dæmis seint á 17. öldinni, þegar ísinn lukti um alt Ísland. Það er enginn vafi á því, að ísahættan vofir enn yfir okkur, svo að nauðsynlegt er að gera tryggingarráðstafanir gegn henni, og í þeim tilgangi er þetta frv. flutt.

Að lokinni þessari umr. óska jeg, að málinu verði vísað til allshn.