20.03.1929
Efri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Flm. (Erlingur Friðjónsson):

Það er ekki vandi að ráða í það, að hv. 3. landsk. muni taka til máls, þegar slíkar ræður eru haldnar og ræða mín í þessu máli. Það er alveg eins víst og að við fáum öðruhvoru hafís, að hv. 3. landsk. láti þá ljós visku sinnar og mælsku skína. En hitt kalla jeg merkilegt, að jafnvanur þm. og hv. 3. landsk. er skuli elta þann gamla höfðingja, sem les biblíuna aftur á bak, í því að lesa frv. mitt aftur á bak. Það er skýrt og greinilega tekið fram í frv. mínu, að til þess að banna innflutning þarf fyrst að ganga úr skugga um, að nóg sje til af vörum. Hv. þm. hefir því bókstaflega lesið frv. aftur á bak, eins og myrkrahöfðinginn les biblíuna. Jeg legg fyrst og fremst áherslu á, að nóg sje til, en af því að jeg vil ekki, að fyrir liggi ónotaðar birgðir, þegar hættan er útrunnin, legg jeg til, að innflutningur sje bannaður, þegar nægar eru birgðir.

Hv. 3. landsk. telur hafísahættuna minni nú en áður, af því að við vitum betur um veðráttufar! Jú, jú, jeg veit ekki betur en að næstum daglega nú að undanförnu hafi komið skeyti hingað um harðari veðráttu í nágrannalöndunum en nokkurn hafði órað fyrir. Því spáði enginn, að á næsta degi mundi frostharka verða svo mikil, sem raun varð á. Svo langt nær veðurfræðin ekki enn hjá nágrannaþjóðunum, og stöndum við þeim þó að baki.

Það er jafnmikil vitleysa að tala um, að við getum sagt fyrir um, hvort ís kemur að landi næsta vetur, eins og þegar hv. 3. landsk. talar um auknar samgöngubætur og minnist á flugvjelar í því sambandi. Jeg verð að segja, að flugvjelarnar þyrftu að vera betri en þær, sem komið hafa hingað til Íslands, ef þær ættu að bjarga Norðurlandi í stórhríðum og hörkufrostum dag eftir dag, og kannske viku eftir viku.

Hv. 3. landsk. talaði um, að við hefðum nú betri skip til þess að ráðast á ísinn. Já, jeg minnist þess, að á síðastliðnu ári var mikið talað um hina frægu för rússneska ísbrjótsins (Krassins) í norðurhöfum við leitina að ítölsku leiðangursmönnunum. En þessi ísbrjótur, sem stórþjóðirnar hafa barist við öldum saman að útbúa, gat ekki unnið á nema þriggja metra þykkum ís. En hvað heldur hv. þm., að t. d. borgarísinn, sem tíðum rekur upp að ströndum landsins, sje miklu þykkari? Jeg hygg, að það muni talsvert mörgum metrum. Hv. þm. virðist halda, að einföld flutningaskip geti ráðist á sterkan hafís, þegar þessi öflugi ísbrjótur gat ekki brotið nema þriggja metra þykkan ís. Nei, þetta er ekki mælt af fávisku hjá hv. þm., heldur segir hann það, eins og margt annað, af oftrú sinni á fávisku annara.

Þá sagði hv. 3. landsk. að jeg hefði talað um, að hætta af hafísalögum hjer við land hefði verið mest á 17. og 18. öld. Jeg benti aðeins á atburði, sem þá hefði gerst; en jeg tel þjóðinni jafnmikla hættu búna af völdum hafíss enn í dag, og því held jeg hiklaust fram.

Hv. 3. landsk. mintist á eitt, sem jeg skildi ekki vel hjá honum, að hjer á landi hefðu menn ekki haft leyfi til að flytja inn kornvörur á 17. og 18. öld. En mjer er ekki ljóst, í hvaða sambandi þetta getur staðið við frv. mitt, sem hjer er um rætt. Samkvæmt því er ætlast til, að ákveðnar stofnanir hjer á landi, sem best eru færar um það, hafi með höndum innflutning nauðsynjavara.

Þá hefi jeg síðast skrifað upp eftir hv. þm. (JÞ) ummæli hans um tryggingarráðstafanir vegna búpenings landsmanna. (JÞ: Jeg talaði ekki um tryggingarráðstöfun, heldur heimildarráðstöfun). Hann skýrði þetta nánar og sagðist eiga við kornforðabúr og heyforðabúr vegna búpenings landsmanna. Hv. þm. heldur, að hættan sje mest vegna búpenings bænda; en svo er ekki. Jeg álít, að þegar flutningar teppast af völdum hafíss og harðinda, þá sje hættan mest fyrir sjávarþorpin og kaupstaðina. Yfirleitt munu sveitabændur ekki fara svo óhyggilega að ráði sínu, að þeir birgi sig ekki með fóðurbirgðum að haustinu fyrir skepnur sínar. — En reynslan er sú, að fólkið í kauptúnunum, sem treystir á fyrirhyggju kaupmanna og verslana, birgir sig ekki að nauðsynjavörum, og er því í voða statt, hvenær sem flutningar teppast til landsins. Reglan er nú orðin sú, að kaupmenn og kaupfjelög flytja ógjarnan meira inn af vörum með hverju skipi en sem svarar mánaðar forða handa fólkinu, sem við verslanirnar skiftir. Og sumstaðar panta verslanir ekki meira en hálfsmánaðar forða í senn.

Jeg þarf ekki að fara fleiri orðum um ræðu hv. 3. landsk. Jafnvel þó að hv. þm. kunni að eiga fleiri orð en jeg í þingtíðindunum í þeim málum, sem við deilum um, þá verður orðum hans yfirleitt ekki trúað.