16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Allshn. hefir eigi getað orðið sammála um þetta frv. Einn nefndarmannanna vill fella það. Tveir hafa sameinast um nál., en annar þó skrifað undir það með fyrirvara og gerir væntanlega grein fyrir skoðun sinni við þessa umræðu, ef honum þykir ástæða til.

Í mínum augum er mest unnið við það, ef þetta frv. verður að lögum, að bæjar- og sýslufjelög geta sjer að kostnaðarlausu trygt sig fyrir bjargarskorti, sem orsakast kann af siglingateppu vegna hafíss. Á það einkum við Norðurland, því að þar er hættan mest. Það hefir oft komið fyrir, og getur komið fyrir enn, að hafís fylli hverja höfn norðanlands og teppi siglingar tímunum saman. Eins og hv. flm. (EF) gerði grein fyrir við 1. umr., hagar nú svo til, að matvörur eru fluttar inn eftir hendinni, og sjaldan eru matvörubirgðir svo að nokkru nemi hjá kaupmönnum eða kaupfjelögum. Komi hafísinn, er því bjargarskortur yfirvofandi.

Fyrir svo sem 20–30 árum var það algengast, að heimilin birgðu sig upp með matvöru að haustinu, svo að endst gæti til vors. Væri þeirri venju enn fylgt, myndi minni þörf þeirra ráðstafana, sem hjer ræðir um. Það eru því ekki eingöngu kaupstaðarbúarnir, sem eru í voða, þegar hafísinn kemur. Sveitirnar norðan- og austanlands eru það líka.

Margir segja e. t. v., að ekki sje hætta á slíku, tíðin sje svo góð. En góða tíðin má ekki gera okkur andvaralausa.

Hv. frsm. minni hl. lætur þess getið í nál. sínu, að bæjar- og sýslufjelög hafi nægilega heimild til varúðarráðstafana í bjargráðasjóðslögunum frá 1913. Það er þó athugandi, að mjög er vafasamt, að þeim lögum sje ætlað að starfa undir þeim kringumstæðum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Og þótt svo væri, verða það talsverð útgjöld fyrir bjargráðasjóðina. Þótt hjer sje að ræða um heimild fyrir bæjar- og sýslufjelög að taka innflutning á nauðsynjavöru í sínar hendur, og þótt eitt íhaldsblaðið hjer hafi nefnt þetta frv. mesta einokunarfrv. þessa þings, þá skilst mjer, að framkvæmd laganna mundi helst verða á þann veg, að sýslu- og bæjarfjelögin semji við kaupmenn og kaupfjelög um að hafa nægar birgðir fyrirliggjandi handa hjeruðunum þann tíma, sem íshættan er.

Jeg sje sem sagt ekki betur en að slík heimild, sem felst í frumvarpinu, sje hjeruðunum fullkomin bjargráð og að þau geti á þann hátt trygt íbúa sína, sjer að kostnaðarlausu, fyrir þeirri yfirvofandi hættu, sem altaf getur yfir dunið.

Málið er fremur einfalt, og þykist jeg ekki þurfa lengri ræðu til að skýra það, og einstök ákvæði frvgr. sje jeg ekki ástæðu til að skýra, nema fyrirspurnir komi fram. Þar sem líka engar breytingar eru gerðar á frv. af meiri hl. hálfu, vil jeg fyrir mitt leyti, og að því leyti sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) kann að vera mjer sammála, mæla með því, að frv. þetta fái að ganga áfram.