16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2288)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Erlingur Friðjónsson:

Þetta frv. mitt fjekk ekki neitt sjerlega hlýjar viðtökur hjá íhaldinu í þessari hv. deild, þegar það var lagt fram til 1. umr., svo að jeg hefi ekki búist við neinu sjerstöku vinarþeli úr þeirri áttinni við 2. umr. málsins, eins og líka kom fram, að fulltrúi íhaldsins í allshn. deildarinnar hefir nú skilað frá sjer löngu áliti, sem alt gengur í þá átt að reyna að gera það lýðum ljóst, að nægar ráðstafanir hafi áður verið gerðar með lögum í þá átt, sem frv. mitt gengur. Í annan stað legst þessi hv. þm. á móti frv. af því, að það sje einokun, auk þess sem það sje engin þörf á slíkum ráðstöfunum, sem frv. gerir ráð fyrir, þar sem áður sje búið með lögum að tryggja fólk og fjenað fyrir harðindum.

Hv. þm. hefir vitnað hjer í eina fimm lagabálka, máli sínu til stuðnings. En þessi lög, sem hv. þm. hefir vitnað í, þau eru yfirleitt sett með tilliti til þess að bjarga búpeningi landsmanna frá því að falla eða verða fyrir áföllum vegna harðinda. Að sönnu má undanskilja kannske ein af þessum lögum, en þrenn lögin eru aðallega í þeim tilgangi sett. En þar sem auðvelt er að sanna þetta, með því að vitna til 1. gr. þessara laga, sem eru stuttar og skýrar og leggja grundvöll að tilgangi laganna, þá ætla jeg að leyfa mjer að vitna beinlínis í lögin sjálf, því til stuðnings, að þau eru alls ekki sett í þeim tilgangi, sem frv. mitt hefir aðallega fyrir augum. Tilgangur frv. míns er sá, að bjarga því fólki, sem nú er setst að í kauptúnum hjer á landi, þar sem siglingateppa getur valdið því, að ekki komist útlend björg til fólksins langan tíma af árinu. Frv. ber þetta ljóslega með sjer, að jeg er að hugsa um fólkið, og jeg er mest að huga um sjávarþorpin, af því að jeg álít, að þau standi ver að vígi en sveitirnar til að bjargast, ef eitthvað ber út af.

Jeg gat þess við 1. umr. málsins, að munurinn á sveit og kauptúni byggist á því, að kauptúnsbúar byggja á versluninni, sem er við vangann á þeim, svo að þeir geta keypt til dagsins, en þeir, sem lengra búa frá kauptúninu, draga þó altaf að sjer forða til einhvers dálítils tíma, jafnvel til alls vetrarins, þeir, sem fjarst búa kauptúninu.

En mjer er það ljóst, að hættan, sem stafar af siglingateppu, er að vetrinum, svo að sá, sem birgir sig upp að haustnóttum til vetrarins, þarf ekki að óttast neitt, jafnvel þótt hafís reki upp að landinu og hindri siglingar.

Jeg skal þá fyrst vitna til laga um samþyktir um heyforðabúr. En þau heyforðabúr eru ætluð skepnum, en ekki fólki. Jeg geri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki að skýra það fyrir hv. þm. (JóhJóh); fólkið er ekki enn farið að nota sjer grasið til framfæris, svo að ástæðulaust er fyrir hv. minni hl. að vitna til þessara laga sem sjerstakra ráðstafana fyrir fólkið. Fyrsta gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er sýslunefnd að gera samþykt um heyforðabúr fyrir hvern hrepp innan sýslu, sem óskar þess.“

Hjer er þó ekki gengið lengra, en að tala um hreppa í sýslunum, en ekki um kauptúnin eða kaupstaðina. — Nákvæmlega sama er að segja um lög um kornforðabúr. Fyrsta gr. þeirra laga hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er sýslunefndum að gera samþyktir fyrir einn hrepp eða fleiri um kornforðabúr til skepnufóðurs.“

Þessi lög ná heldur ekki lengra en það, að heimila að gera samþyktir um kornforðabúr til skepnufóðurs, og það er líka fyrir hreppana í sýslunni; það er ekki talað um kauptún eða kaupstaði.

Þá get jeg enn tekið ein lög, sem hv. minni hl. hefir vitnað í; það eru lög um samþyktir um stofnun eftirlits- og fóðurbirgðafjelaga; 1. gr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er sýslunefnd að gera samþyktir fyrir einn hrepp eða fleiri hreppa, innan sýslu, um eftirlits- og fóðurbirgðafjelög.“

Hjer kemur það sama fram, að það er verið að hugsa um hreppa innan sýslu og talað um fóðurbirgðafjelög. Það er fóður handa búpeningi, sem verið er að hugsa um.

Þá mintist hv. frsm. minni hl. á gjafasjóð Jóns Sigurðssonar, sem gefinn hefir verið Eyjafjarðarsýslu og Akureyri, til þess að verja handa fátækum, ef hallæri ber að höndum. Þau lög, sem um það fjalla, hafa ekkert annað inni að halda en það, að opna sjóðinn til útborgunar á vöxtum af sjóðnum, ef til þarf að taka; skipulagsskráin virðist hafa verið þannig úr garði gerð, að það lægi ekki opið fyrir að nota sjóðinn, ef hallæri bæri að höndum, og lögin virðast ekki fela neitt annað í sjer en að hægt sje að ganga að sjóðnum.

Af lögum um Bjargráðasjóð Íslands, sem hv. 4. landsk. mintist á, skilst mjer, að ekki sje ætlast til, að hann sje notaður nema þegar veruleg harðindi ber að höndum. Til þess að gera þetta sem skýrast, ætla jeg að lesa upp 1. gr. þeirra laga, sem hljóðar þannig, — með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal allsherjarsjóð fyrir alla landsmenn til hjálpar í hallæri eða til að afstýra því. En það er hallæri, ef sveitarfjelög, eitt eða fleiri í sýslu, eða bæjarfjelag, verða af náttúruvöldum svo illa stödd, að sýslufjelagið eða bæjarfjelagið megnar ekki af eigin ramleik að forða mönnum og skepnum við harðrjetti eða felli.

Sjóðurinn skal heita bjargráðasjóður.“

Hjer er með öðrum orðum gert ráð fyrir því, að sjóðurinn taki til starfa, þegar orðið er svo hart í ári, að hreppar geta ekki staðið hjálparlausir, eða bæjarfjelög eru orðin bjargarlaus. Hjer er ekki að ræða um neina almenna ráðstöfun til bjargar fólki og fjenaði frá fóðurskorti, þar sem þó er, ef til vill, nægilegt fjármagn til þess að nota til innkaupa á nauðsynlegum vörum og öðru því líku. Hjer er gert ráð fyrir, að þessi sjóður sje notaður, þegar aðrar bjargir eru bannaðar, þar á meðal hreppar orðnir svo fjevana, að leita þarf á náðir sýslunnar. Þess má einnig geta, að þó að sjóðir í þessum tilgangi sjeu vitanlega góðir, þá koma þeir ekki að neinum notum, ef það, sem fólkið þarfnast, verður ekki fengið fyrir þann gjaldeyri, sem ef til vill er í vasanum eða bankanum. Það er það, sem jeg vil með frv. mínu koma í framkvæmd, að jafnvel bjargálnamenn þurfi ekki að svelta fyrir það eitt, að þá hefir skort fyrirhyggju, eða þá, sem þeir hafa sett sitt traust á að einhverju leyti. Við vitum það vel, hv. þm. Seyðf. og jeg, að værum við staddir uppi á Öræfajökli með fulla vasa fjár og stóreign í banka, ef okkur vantaði utan á okkur og ofan í, værum við jafnilla staddir fyrir því, þótt við hefðum fulla vasa af bankaseðlum. Það er með öðrum orðum, að með peningum verða þessi þjóðarvandræði ekki leyst; það er fyrirhyggjan, sem við þurfum að nota í málinu.

Á það má líka benda, að þessi bjargráðasjóður, þótt hann sje vísir til góðs, þá er hann enn ekki orðinn stærri en það, að sjereign sjóðanna nemur sem næst 4 kr. á mann í landinu, og sameignarsjóðurinn álíka miklu, með öðrum orðum, 8 kr. á mann nema báðir sjóðir í landinu, og með þeim sjóðum verður ekki gert mikið.

Aðalatriðið er það líka, að geta bjargað sjer í þessu máli án þess að leggja í nokkurn sjerstakan kostnað vegna þess. Jeg veit ofurvel, að það, sem hv. þm. sjer á móti þessu frv. mínu, er, að það leggur nokkur höft á þá frjálsu verslun, sem honum og flestum hans flokksmönnum er svo afskaplega ant um, að ekki verði fingri drepið við á nokkurn hátt, en þegar sú frjálsa verslun getur ekki unnið það verk, sem verslun yfirleitt er ætlað að vinna hjá okkar þjóð og annarsstaðar, þá verður að gera þær ráðstafanir, sem með þarf, til að tryggja líf þeirra, sem ef til vill byggja alla sína afkomu á versluninni. Sú frjálsa verslun verður því að sjálfsögðu að þola þau bönd, sem nauðsynlegt er að leggja á hana til þess að tryggja það, að almenningur, sem á henni byggir, hrapi ekki niður í frosinn svörðinn einhvern þorradaginn, þegar allar bjargir eru bannaðar með innflutning á varningi, sem fólkið notar sjer til framfæris.

Hv. þm. var að minnast á ráðstafanir, sem gerðar höfðu verið norður í Eyjafirði í þá átt að tryggja það, að fólkið hefði nægilegt fyrir sig að leggja af útlendum vörum. Það er rjett, á síðasta vetri var gerð lítilsháttar ráðstöfun, en það náði ekki lengra en svo, að inn voru fluttar tvær korntegundir, en það er öllum ljóst, að ef siglingateppa verður, þá eru það miklu fleiri vörutegundir en tvær, sem fólkið þarf að hafa. Þetta getur vel gengið fyrir sveitirnar, en í kauptúnunum verða þær að vera fleiri. Það verður tæplega komist af með að hafa færri en 10–20 vörutegundir, ef fólkinu á að líða sæmilega vel.

Þessi tilraun hefir sýnt það, sem við endalaust verðum að reka okkur á, sem betur fer, að þessi ráðstöfun var ekki nauðsynleg, en aftur á móti liggja vörurnar ónotaðar, sem hlýtur að rýra þann sjóð, sem sá góði og framsýni maður, Jón Sigurðsson, gaf fyrir nálægt því öld síðan til hallærisráðstafana í Eyjafirði og á Akureyri. En með þeirri ráðstöfun, sem jeg hefi stungið hjer upp á, er loku skotið fyrir það, að nokkur noti slíkan sjóð til að greiða tapið af þessu. Það á að geyma sjóð þann og nota þegar verulegt hallæri gengur yfir landið, svo sem grasbrestur, aflaleysi, eða kannske eitthvað svipað Móðuharðindunum, sem hjer komu yfir fyrir alllöngu, en sem er í alla staði óviðráðanlegt fyrir almenning. Jeg er aðeins að tala hjer um ráðstafanir, sem eru í allan máta viðráðanlegar fyrir fólkið, en sem þó verða ekki gerðar nema til sjeu lög, sem heimili slíkt.

Jeg ætla, áður en jeg lýk máli mínu, að lesa hjer upp byrjunarorð í riti eftir Guðmund Björnson, sem heitir „Næstu harðindin“, og sem jeg las líka lítið eitt upp úr við 1. umr. þessa máls. Jeg get búist við, að hv. þm. muni ef til vill ekki eftir, þótt þeir hafi lesið upphafið að þessu kveri, eða þeim atvikum, sem virðast hafa hrundið manni þessum af stað til að rita þetta kver. Hann segir svo í upphafinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Það var búmannasiður á öldinni, sem leið, að „birgja sig upp til vetrarins“ eftir efnum, og treysta ekki um of á vorskipin.

Nú eru menn orðnir svo vanir miðsvetrarferðunum, að allir treysta á þær — enginn man ísinn.

Sú frjett hefir borist, að Múlsýslungar, í Norðursýslunni, hafi verið orðnir bjargarlitlir og átt von á 77 lestum af matvöru í „Vestu“. Þeir náðu 23 lestum úr skipinu á Vopnafirði, segir frjettin; þá fór „Vesta“. En svo voru þeir illa staddir, að yfirvöld símuðu til landsstjórnar og beiddust hjálpar. Fjekk ráðherra loforð skipstjóra á „Botniu“ fyrir því, að bíða „Vestu“ og fara með matvöruna austur í Vopnafjörð.

Nú er „Vesta“ strönduð og varan ónýt. Verður nú að líkum símað út og matvara fengin á næstu skipum, og vonandi komast þeir eystra af þangað til með það, sem þeir klófestu.

En hvernig hefði farið, ef hafísinn hefði verið kominn á undan „Vestu“ og bannað allar samgöngur?

Hvernig ætli fari fyrir Norður- og Austurlandi næst, þegar hafísinn hremmir landið snemma á útmánuðum og sleppir því ekki úr heljargreipinni fyr en eftir höfuðdag?“

Þetta segir einn flokksbróðir hv. þm. (JóhJóh). Síðar segir hann, að ekki sje til neins að tala um þetta mál, því það sje eins og allir hafa lokað eyrum sínum fyrir því. Það var 1913, er höf. komst að þessari niðurstöðu. Fólk virðist þá þegar hafa verið hætt því að birgja sig upp fyrir veturinn, og verið farið að treysta á miðsvetrarferðirnar.

Jeg las þetta upp til þess að sýna hv. þdm., að þetta er ekki ný hugmynd hjá mjer, heldur er þetta frv. mitt uppsteypa úr till. og hugmyndum eldri manna, er sjeð hafa hættuna af því, að fólkið var farið að treysta svo mjög á hinar tíðu ferðir til Norðurlandsins.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta við þessa umr. Vona jeg, að allir hinir hyggnari menn þessarar hv. deildar geti fallist á frv., ekki síst þar sem hjer er aðeins um heimild að ræða, sem sýslu- og bæjarfjelög þurfa ekki að nota frekar en þau vilja.