16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Frsm. minni hl. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg vildi aðeins segja örfá orð.

Hv. flm. sagði, að þótt þetta frv. yrði að lögum, kæmi það að sínu áliti ekki til framkvæmda, nema hallæri væri fyrir dyrum. En jeg vil benda honum á, að um hallæri talar maður, þó ekki sje beint bjargarskortur fyrir fólk. Því getur verið um hallæri að ræða, þó allir haldi lífi. Samkv. bjargráðasjóðslögunum er það hallæri, ef sveitarfjelög, eitt eða fleiri í sýslu, eða bæjarfjelag, verða af náttúruvöldum svo illa stödd, að sýslufjelagið eða bæjarfjelagið megnar ekki af eigin ramleik að forða mönnum og skepnum frá harðrjetti eða felli. Og eftir 12. gr. 2. mgr. þarf hallærið ekki að vera meira en það, að haustbirgðir reynist svo litlar í einhverju hjeraði, að hætt er við bjargarskorti fyrir menn eða skepnur, ef illa vetrar. Það virðist því heimilt þegar að gera ráðstafanir á haustin, áður en nokkuð verður vitað um það, hvernig tíðin verður.

Það er rjett hjá hv. flm., að til eru þrenn lög, sem hljóða um það, að afstýra fóðurskorti. En það er einmitt einn þýðingarmikill liður þessa máls, því meðan nægar birgðir eru handa búpeningnum, er ekki hætta á því, að fellir verði á fólki.

Þá vildi hv. flm. gera mun á hreppum og kaupstöðum, en það virðist mjer ekki rjett. Jeg fæ ekki betur sjeð, en að gildandi lög nái jafnt yfir sýslur og kaupstaði.

Hv. flm. las upp úr pjesa eftir Guðmund Björnson landlækni, nokkur áhrifamikil orð frá 1913. Mun þessi pjesi skrifaður rjett áður en bjargráðasjóðslögin voru sett, og hafa þau því væntanlega verið árangur af honum, en þau voru sett 10. nóv. 1913.

Hv. 2. þm. S.-M. benti rjettilega á það, að þó þetta frv. yrði að lögum, eins og það er nú, þá væri samt engin trygging fengin fyrir því, að nokkuð yrði gert. Er jeg honum samdóma um það, að þetta út af fyrir sig er mikill ókostur við frv.

Það var víst hv. flm., sem talaði mikið um þá hallærishættu, er vofði yfir Austurlandi. Jeg efast nú um, að þetta sje á fullum rökum bygt, því jeg veit a. m. k. ekki annað en að t. d. bændur á Fljótsdalshjeraði birgi sig ávalt upp fyrir veturinn. Enda er það alstaðar svo, þar sem langt er í kaupstað, að menn birgja sig upp til vetrarins, að meira eða minna leyti.

Sem sagt, jeg hefi ekki getað sannfærst af ræðu hv. flm. um það, að nauðsynlegt væri að setja lög um þessi efni. Og þó svo væri, þá held jeg, að það væri miður heppilegt að fara þá leið, að banna innflutning á nauðsynjavörunum til þess að fyrirbyggja hallæri.