11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Þetta frv. er borið fram vegna þess, að allmargir þm. líta svo á, að lög, sem sett voru í fyrra um þetta efni, hafi verið skýrð öðruvísi en þingið ætlaðist til. Þessi viðbót við tekju- og eignarskattinn, sem samþ. var á þinginu í fyrra, var af meiri hl. fjhn. skilin svo, að ekki kæmi til greina að hún næði til tekna, sem minnu næmu en 4000 kr. skattskyldum.

Það má sjálfsagt lengi um það deila, hvort skattstiginn sje rjettlátur eða ekki, enda hafa verið um það ýmsar skoðanir, og þær all sundurleitar. Um frádráttarregluna hefir verið minna deilt, og jeg minnist þess ekki, að hafa heyrt neitt um það, að skattstiginn ætti að miðast við annað en skattskyldar tekjur, um það hafa allir verið sammála. Jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að svo hafi einnig verið í fjárhagsnefnd í fyrra, að minsta kosti hjá meiri hl. hennar. Samkvæmt þessari ríkjandi skoðun, gátu því ekki komið til mála aðrar breytingar á löggjöfinni en þær, sem snerta sjálfan skattstigann. En hvernig lítur þetta út nú, eftir að stjórnarráðið hefir úrskurðað, hvernig beri að skilja breytinguna á skattalögunum, sem gerð var á síðasta þingi?

Mjer er sagt, að úrskurðurinn hafi fallið á þá leið, að viðaukinn skuli tekinn af 4000 kr. brúttó tekjum. Nú hefi jeg altaf heyrt talað um þrennskonar tekjur í sambandi við tekju- og eignarskattslögin: brúttó tekjur, nettó tekjur og skattskyldar tekjur. Brúttó tekjur eru allar tekjur, án frádráttar. Nettó tekjur: þegar búið er að draga frá brúttó tekjum allan lögboðinn frádrátt annan en persónufrádráttinn. Loks eru skattskyldar tekjur þær tekjur, sem fram koma þegar persónufrádráttur hefir verið dreginn frá nettó tekjum. Það ætti öllum að vera ljóst, hve óeðlilegur og ranglátur þessi skattviðauki væri, ef hann ætti að koma fram á nettó tekjum, því að þá yrðu þeir harðara úti, sem ómaga hefðu á framfæri sínu en þeir, sem enga hefðu, og enn vitlausari yrði hann, ef brúttó tekjur væru lagðar til grundvallar, sem mér virðist stjórnarráðið ætlast til.

Jeg vil benda á það, að eftir lögunum eins og þau eru, getur það komið fyrir, að sá maður, sem greiðir 70 kr. í tekjuskatt, sleppi við viðaukann, en að annar, sem ekki borgar nema 5–10 kr. í tekjuskatt, verði að greiða hann. Þetta brýtur algerlega í bág við þann anda, sem l. voru samin og samþ. í. Jeg get búist við, að sú skýring, sem gefin hefir verið á l., sje forsvaranleg og vil því ekki ásaka hæstv. stjórn í því efni. Hún kann að hafa farið eftir framsöguræðu flm. í fyrra, eins og ræðan birtist í Þingtíðindunum. Jeg veit það, að jafnaðarmenn stóðu að þessum l. í fyrra, en af ræðum þeirra um málið þá, varð það alls ekki dregið, að þeir legðu þenna skilning í þau. Þetta hefir því ef til vill brjálast hjá þingskrifurunum.

En hvað sem þessu líður, þá er það mín skoðun — jeg skal ekkert segja um samnefndarmenn mína — að betra sje að fella lögin með öllu niður en að hafa þau í þessu formi. Meiri hl. telur sjálfsagt að breyta l. eins og þetta frv. fer fram á.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta. Einn nefndarmanna, hv. 2. þm. Reykv. (HV), hefir skorist úr leik og flytur sjerstakt nál. Mun hann að sjálfsögðu sjálfur gera grein fyrir sinni afstöðu, og sömuleiðis hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), sem skrifað hefir undir nál. með fyrirvara.

Jeg vænti þess, að þingið taki þessu frv. vel og láti það ganga greiðlega, því að þótt 1. verði ekki framkvæmd í ár, er ekki gott að segja um, hvað gert verður að ári, og því sjálfsagt að sníða þessa annmarka af.