11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Fors. og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil víkja lítið eitt að tvennu, sem hv. frsm. minni hl. (HV) drap á.

Hann spurði, hvort jeg hefði fengið nýja skoðun á skattamálum í sambandi við afskifti mín af kaupdeilum. Því er til að svara, að slíkt kom alls eigi til greina, og að skoðun mín og Framsóknarflokksins er óbreytt í þeim efnum.

Þá spurði hv. þm., hvað hefði farið á milli mín og togaraeigenda og sagði, að jeg hefði sagt, að það kæmi engum við. Það hefi jeg ekki sagt. En þar sem mjer var sýnd full einlægni á báðar hliðar, skoða jeg það sem fullkomið trúnaðarmál, sem farið hefir mín og aðilja á milli. Ef til þess kæmi, að jeg þyrfti aftur að hafa afskifti af slíkri deilu, varðar miklu, að jeg hafi eigi flíkað fyrri trúnaðarmálum milli mín og aðilja út á meðal almennings.