11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Torfason:

Út af því, er hv. síðasti ræðumaður sagði, verð jeg að mótmæla því algerlega, að hægt sje, ef nota á þessa tekju- og eignarskattslöggjöf næsta ár, að láta það bíða næsta þings. Jeg þykist þess fullviss, að þá verði búið að leggja skattskýrslurnar fram, áður en slíkt frv. hefði gengið í gegnum báðar deildir þingsins og hlotið staðfestingu.

Það hafa nú orðið stórmiklar umræður út af þessu litla frv., sem ekki er nema 1½ lína, og skal jeg ekki fara út í það að öðru leyti en því, að mjer finst það ekki ná nokkurri átt, að hæstv. forsrh. (TrÞ) hafi gefið nokkurt loforð um lækkun á skatti í sáttaumleitan þeirri, er hann hafði með höndum í síðustu vinnudeilu. Mjer finst það satt að segja vera firra að hugsa sjer slíkt. Slík lækkun á tekjuskattsaukanum mundi fyrst og fremst koma þeim útgerðarmönnum að notum, er taka stórgróða á útgerðinni og engrar hjálpar þurfa. Aftur á móti mundi slík lækkun á engan hátt hjálpa þeim smærri útgerðarmönnum, er erfitt eiga með að standast kostnaðinn við útgerðina.

Jeg verð að halda því fram, að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sje heiðarlegri og vandaðri maður en svo, að hann leyfði sjer að halda fram slíkri ívilnun fyrir tekjumestu menn útgerðarinnar, því jeg er viss um, að hann hefði fyrst og fremst litið á hag þeirra smærri.

Að öðru leyti vil jeg láta það koma skýrt í ljós, að það var eigi unt fyrir hæstv. þáverandi fjmrh. (TrÞ) að gera sjer fasta hugmynd um tekjurnar 1928, þegar úrskurður var gefinn um að tekjuaukinn skyldi innheimtur. Fyrirskipunin til sýslumanna og lögreglustjóra um að gefa upp tekjurnar, var fyrst gefin út eftir áramót, og svo dróst það eðlilega nokkuð hjá þeim að svara. T. d. var mjer ekki unt að gefa upp tekjurnar fyr en eftir 20. jan. og svo býst jeg við að hafi verið hjá fleirum. Það var því ekki nema eðlilegt, að hæstv. fjmrh. öðlaðist aðra skoðun á þessum málum að fengnum upplýsingum frá innheimtu- og tollheimtumönnum landsins. En vitanlega náði ekki neinni átt að gefa eftir skattaukann fyr en sjeð var, að verkfallið yrði stöðvað.

Rjett þykir mjer og að geta þess, að þetta er eini færanlegi skatturinn, og var það ein ástæða þess, að jeg var honum samþykkur. Í öðrum löndum eru slíkir skattar töluvert notaðir, t. d. í Englandi og víðar. Mitt álit er, að það sje mjög heppilegt að hafa slík tekjuskattslög, svo að stjórnin þurfi ekki að spyrja þingið til þess að fá löglega lagðan skatt á landsmenn, án þess þó að hætta sje á, að hún íþyngi skattþegnunum um of með þungum álögum.

Úr því farið var út í það, hverju hæstv. forsrh. hafi átt að lofa útgerðarmönnum í sambandi við nýafstaðna launadeilu, þá fyndist mjer ekki nema eðlilegt þó spurt væri, hverju hann hefði lofað jafnaðarmönnum og vinnulýðnum, án þess jeg ætli þó að gera það að minni fyrirspurn. En það hljóta allir að sjá, að breyting sú, er gerð var á till. sáttasemjara áður en hún varð endanlega samþ., var svo hverfandi lítil, að það er ómögulegt að ætla, að margra vikna verkfall hafi staðið vegna hennar út af fyrir sig. Jeg er hlessa á að enginn skuli hafa minst á þetta jafnt og talað hefir verið um það, hvað útgerðarmenn hafi fengið.

En svo að jeg komist nú að efni málsins, þá get jeg lýst því yfir, að jeg skildi þetta ákvæði svo, sem þar hlyti að vera átt við skattskyldar tekjur, og það var af því, að hvergi í heiminum, svo að jeg viti, eru álögur miðaðar við brúttó tekjur, og jeg býst ekki einu sinni við, að slíkt fyrirfyndist þó leitað væri til annara hnatta. (Hlátur).

Fyrri gr. frv. á við sjálfan skattinn. tekju- og eignarskattinn, og sjálfsagt að miða undanþáguna líka við skattinn. Þetta hefir þó ekki verið gert, heldur miðað við árstekjur. Um þetta var deilt hjer í hv. deild í fyrra. og var jeg þá spurður, hvort ekki væri ástæða til að koma með brtt. við frv., er færi í þá átt, að aðeins væri átt við skattskyldar tekjur. Þá var það, að hv. 1. þm. Reykv. (MJ) gerði fyrirspurn sína, er var svarað af hv. 2. þm. Reykv. (HV), og eftir það svar, fanst mjer ekki ástæða til þess að koma fram með brtt. En þegar jeg nú fór að skoða þingtíðindin, þá kom í ljós, að umr. um þetta voru svo brjálaðar og brenglaðar, að ekki var hægt að fá nokkurt vit út úr þeim. Einkanlega var þó þetta atriði óljóst. Svar hv. 2. þm. Reykv. við fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Hv. 1. þm. Reykv. spurði hver tilgangurinn væri með 4000 kr. frádrættinum, hvort þær tekjur ættu ekki að vera skattskyldar. Frv. ber með sjer, að svo er sem fyr, því gert er ráð fyrir auknum skatti einungis á hærri tekjunum.“

Skilur nú nokkur maður þetta? Mjer er það ofvaxið? Og hv. 2. þm. Reykv. (HV) er svo skýr maður, að jeg er viss um. að hann hefir aldrei svarað svona, heldur hlýtur þetta að hafa brjálast eitthvað síðar. (MJ: Jeg fjekk aldrei fullnægjandi svar.) Hv. þm. Ísaf. (HG) hefir líka haldið ræðu þessu máli, þar sem auðsjeð er, að hann hefir álitið, að þessi tekjuskattsauki kæmi ekki niður á öðrum en þeim sem hafa allháar brúttó tekjur, svona 8–10 þús. kr. A. m. k. er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi í þingtíðindunum, en þau eru svo brjáluð, að ilt er að fá nokkurt vit út úr þeim. Rjett er þó að geta þess, að allra síðast við 3. umr. kom yfirlýsing frá frsm. meiri hl., þar sem svo mætti virðast, að talað væri um brúttó tekjur. Þó er það alls ekki ljóst. Hv. þm. segir þar, að öllum muni það ljóst, að átt sje við 4000 kr. árstekjur. En brúttó tekjur verða aldrei það sama og árstekjur, því með árstekjum getur ekki verið átt við annað eða meira en það, sem hver maður hefir sjer til lífsviðurværis.

Yfir höfuð datt mjer ekki annað í hug, en að þessi lög yrðu skýrð í anda allra annara tekjuskattslaga, og að miðað yrði við skattskyldar tekjur, en ekki brúttó tekjur.

Hvað snertir afskifti stjórnarinnar, þá er vitanlega skrifstofustjórinn í fjármálaráðuneytinu sjálfkjörinn ráðunautur hennar. En hann mun hafa verið veikur, er þetta var til umr. Annars hefði það verið skylda hans að leiðrjetta þetta. Jeg hreyfði þessu ekki frekar þá, því jeg taldi víst, að fylgt yrði venjulegum skýringarreglum í þessu tilfelli, en ekki farið eftir reglum, er hvorki finnast á jörðu, undir jörðu nje yfir jörðu.

Hlessa er jeg á því, að hv. 2. þm. Reykv. (HV) skuli vera gramur yfir því, þó að minkaður verði tekjuskattur á framfærslumönnum og barnamönnum. Hjelt jeg þó, að það væri samkv. hans stefnu, og eigi hefir hv. þm. allsjaldan þanið sig út af því, að þeim mönnum væri um of íþyngt með sköttum og skyldum, og að síst ætti að hegna þeim. En það er einmitt þetta, sem hann vill gera með þessum lögum, því að samkv. þeim verða það barnamennirnir, sem verða að borga, en piparsveinarnir sleppa. Þetta er þvert ofan í allar stefnur í þessum málum, því það er reynt að koma því svo fyrir, að piparsveinarnir, sem minst borga af óbeinu sköttunum, greiði sem mest af beinum sköttum. Það hefir jafnvel verið talað um að leggja sjerstakan skatt á piparsveina og piparmeyjar, en líklega hefir þó hvergi orðið úr því, nema ef vera skyldi, að Mússólíni hefði gert það. Annars tel jeg ekki rjett að innleiða hjer slíkan skatt, og er ástæðan til þess sú, að mjer finst ekki gustuk að skattleggja sjerstaklega eina þá tegund slíks mannfólks, er nauðajómfrúr nefnast. A. m. k. vildi jeg ekki láta hafa mig til þess. (Hlátur).