11.03.1929
Neðri deild: 19. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi hlustað hjer á umræðurnar í dag og hugsað með sjálfum mjer, hvað ástin væri skrítin, að hún skyldi líka geta komið fram í þessari mynd. Jeg á hjer við hnippingarnar á milli hinna sameinuðu framsóknar- og jafnaðarmanna.

Annars stóð jeg upp til þess að segja það, að hæstv. forsrh. vill ekki svara spurningu minni um það, hvort kaupdeilan hafi verið jöfnuð með því að gefa eftir af tekjuskattinum. Jeg hefi tekið það fram hjer á Alþingi sem sýnishorn þess, hve hæstv. stjórn álíti verkfallsmálið alvarlegt, að kaupdeilan hafi verið jöfnuð með því að gefa eftir af skattinum, og þá var þessu ekki mótmælt. Nú vill hæstv. forsrh. engu svara.