14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Við 2. umr. þessa frv. beindu nokkrir þingdm. spurningum til hæstv. forsrh. (TrÞ) í sambandi við tekjuskattsviðaukann, sem feldur var niður samkvæmt fyrirmælum stjórnarinnar. Jeg beindi þá einnig fyrirspurn til hæstv. ráðh. um þetta efni, en fór eigi langt út í það vegna þess, að samkv. þingsköpum er eigi heimilt við 2. umr. mála að fara mjög út fyrir það efni, sem fyrir liggur.

Hæstv. forsrh. svaraði engu þessum fyrirspurnum, að vísu eitthvað lítillega í fyrstu, en ítrekuðum fyrirspurnum svaraði hann ekki. Jeg vil nú ekki láta þetta mál fara svo út úr deildinni, að hæstv. forsrh. fái ekki tækifæri til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.

Það er altalað, og skein líka út úr svörum hæstv. ráðh., að náið samband væri á milli endalykta verkfallsins og eftirgjafar tekjuskattsviðaukans. Þetta er að ýmsu leyti merkilegt spursmál, en þó er það sjerstaklega mikilvægt með tilliti til framtíðarinnar að vita, hvað satt væri í þessu. Hæstv. ráðh. verður því að gefa svar við því, hvernig niðurfelling tekjuskattsviðaukans stóð í raun og veru í sambandi við lausn deilunnar.

Hæstv. forsrh. sagði að vísu eitthvað á þá leið, að góðærið og tekjuafgangur ríkissjóðs hefðu valdið ákvörðunum stjórnarinnar um að innheimta ekki tekjuskattsviðaukann, en jafnframt talaði hann um trúnaðarmál milli sín og aðilja í verkfallsdeilunni, sem hann ekki mætti segja frá. En það er mjög óviðeigandi, að hæstv. ráðh. bindi sig þagnarskyldu, jafnvel í slíkri deilu, um stórmál, er varða alþjóð svo mikils. Það hefir verið talað um að ½ milj. kr. væri gefin eftir af tekjum ríkissjóðs, og það hefir, satt að segja, oft verið gert veður út af því, sem smærra er, og heimtaðar skýrslur um það. — Ef að hæstv. ráðh. getur ekki. gefið skýr svör um þetta, má slá því föstu, að það, sem skeð hefir er, að vinnudeilan hefir verið jöfnuð með því, að minka tekjur ríkissjóðs um ½ miljón kr.

Í sambandi við þetta má minnast þess, þegar þáverandi þm. Str. (núverandi hæstv. forsrh.) og aðrir samflokksmenn hans gerðu veður út af ábyrgð ríkisins á lántökuheimild Landsbankans í Ameríku. Af praktiskum ástæðum óskaði Landsbankinn eftir, að það væri ekki opinberað, fyrir hve hárri upphæð væri veitt ábyrgðarheimild. En út af því reis mikill stormur hjer á Alþingi, og þó voru þingnefndum þá gefnar nákvæmar skýrslur um það. En hjer gefur hæstv. ráðh. aðeins þau svör, að hann sje bundinn þagnarheiti. Mjer finst þetta óhæfa. Og þegar verið er með bak-

tjaldamakki að láta ríkissjóði blæða til þess að koma á sáttum í þessum vinnudeilum, þá er vert að athuga, hvað í því felst.

Hækkunin á kaupi sjómanna munaði mjög litlu frá tillögu þeirri, er sáttasemjari bar fram, og menn álitu að yrði hið endanlega kaup. Hjer hefir því sennilega, ofan á alt annað, verið gerð mjög óhagstæð verslun.

Eftirgjöf tekjuskattsviðaukans nær til fjölda margra manna. Það eru ekki aðeins hinir stærri gjaldendur, sem sleppa við þær álögur, heldur og margir smærri. Jeg ætti nú líklega að vera þakklátur hæstv. ráðh. fyrir hönd minna kjósenda hjer í þessum bæ, og jeg er það. En þakklátari hefði jeg verið, ef þetta hefði komið fram sem drengskaparbragð, og ef stjórnin hefði gefið út ákveðna skipun um það strax um síðastl. áramót, að hún ætlaði ekki að innheimta þennan rangláta skatt.

Þakklæti mitt viðrast því burtu vegna þess, að hjer sýnist vera um hneykslismál að ræða, þar sem slík verslun hefir átt sjer stað. Jeg tók það fram við aðra umr. þessa máls, að jeg hefði ekki orðið neitt hissa á því, þegar fregnin barst út um það, að stjórnin hefði orðið að setja niður kaupdeiluna með þessum eftirgjöfum. Stjórnin hafði áður sýnt það, að hún var fús til að jafna úr slíkum deilum á þennan hátt hjer í Reykjavík, þar sem greiddur var úr ríkissjóði helmingurinn af þeirri upphæð, sem á milli bar sjómanna og stjórnar Eimskipafjelags Íslands. Mjer fanst þá alveg óforsvaranlegt, að gengið var inn á þá braut af stjórninni, því að þá var, satt að segja, engin neyð orðin hjer vegna siglingateppu. Þó það væri í eðli sínu ófært af stjórninni að fara þá leið að greiða kaupmismun úr ríkissjóði, þá var þó um talsvert annað að ræða, að borga það litla, sem á milli bar í þeirri deilu, samanborið við það, að gefa eftir tekjuskatts-viðaukann.

Mál þetta virðist horfa undarlega við eftir því, hvernig fulltrúar jafnaðarmanna tala um það hjer í deildinni, þar sem mjer virðist þeir sverja og sárt við leggja, að þeir hafi enga hugmynd um þetta haft. Mjer þykir það í raun og veru ólíklegt, að þeir viti ekkert um það, sem fram hefir farið frá þeirra aðiljum í samninganefndinni. Mjer finst þá liggja næst að snúa sjer til hæstv. stjórnar, sem rjeð, hvað hún gerði. (HV: Það má spyrja hinn aðiljann). Jeg sje ekki ástæðu til þess. Báðir aðiljar voru að semja fyrir sig, en hæstv. forsrh. fyrir landið. Fyrir þessa milligöngu sína hefir hann fengið allmikið lof í einu blaði, en það fer bara heldur glansinn af afreksverki hans, ef hann hefir sett deiluna niður með því móti að láta ríkissjóð hlaupa undir bagga.

Eitt er ennþá í þessu máli, sem mjer finst einkennilegast — og jeg vil segja varhugaverðast. Það er það, hver áhrif þetta hefir fyrir sveitirnar. Hæstv. forsrh. hefir undanfarandi ár sýnt mikinn áhuga á því í orði, að gæta hagsmuna sveitanna og landbúnaðarins; hefir stöðugt viljað láta menn trúa því, að hann væri þeirra fulltrúi sjerstaklega, og beitt sjer fyrir mörgum málum, sem sveitirnar varða. Er þess vegna undarlegt, hvernig hann kemur fram við sveitirnar í þessu máli. Því að það er augljóst, að þeir, sem eiga að bera hallann, eru aðallega sveitir landsins. Kauphækkun, eins og hjer er um að ræða, hlýtur vitaskuld að koma niður í hækkuðu kaupgjaldi á öllum sviðum, einnig til sveita. Maður getur sagt, að þessar tvær breytingar, að sleppa við tekjuskattsviðaukann og að gjalda hærra kaup, standist á hjá sjávarbændum, en fyrir sveitirnar virðist mjer þetta einhliða halli og ekkert koma á móti.

Jeg skal svo ekkert fara út í þetta frekar, heldur aðeins óska eftir því, að hæstv. forsrh. geri nú hreint fyrir sínum dyrum og segi frá því, hvernig í þessu máli liggur. Jeg vil ekki fara neitt að tala um það, að svo komnu, hvernig það er við eigandi, ef hann hefir hjer verið að gefa útgerðinni, sem hann hefir annars talað svo margt um, einhver fríðindi. Við munum altaf, hvernig látið var í blaði hæstv. forsrh., sem hann var sjálfur ritstjóri að, þegar hann var að bera út hjer um árið, að þáverandi stjórn hefði ætlað að gefa útgerðarmönnum yfir 600 þús. kr. á einu ári, — sem auðvitað reyndist nokkuð annað, eins og sýnt var fram á, — hvernig hamast var gegn þessu í hans blaði og öllum málgögnum þess flokks. Skyldi þá hæstv. ráðherra hafa fallið í eitthvað svipað á þessu þingi?