14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2328)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Enda þótt jeg sje ekki fylgismaður hæstv. forsrh., get jeg ekki annað en glaðst yfir þeirri liðveislu, er honum berst úr mörgum áttum í þessu máli. Jeg hefði skilið þessa miklu hjálp, ef að margir hefðu ráðist að hæstv. forsrh., en á meðan það er nú aðeins einn maður, sem gerir þó ekki annað en beina nokkrum hógværum spurningum til ráðherrans, þá þykir mjer satt að segja nóg um, þegar ekki aðeins fylgismenn, heldur og andstæðingar hæstv. forsrh. rjúka upp til handa og fóta og keppast hvor í sínu lagi við að bera blak af honum.

Hv. 2. þm. G.-K. kom hjer fram eins og kennari, sem er að kenna dreng að draga til stafs; hann lítur á stafagerð drengsins og segir: nei, nú gerðirðu skakt, góði minn! Hv. þm. vildi gefa í skyn, að hæstv. forsrh. hefði ekki svarað heppilega, og vildi því svara fyrir hann. En jeg verð nú að segja fyrir mitt leyti, að mjer fanst síst meira að græða á svari hv. þm. Það var á engan hátt betra nje ljósara en það svar, sem togað hafði verið af vörum hæstv. forsrh.

Hv. 2. þm. G.-K. taldi sig knúðan að taka til máls vegna þess, að jeg hefði bendlað sig við hneyksli.

Jeg man nú að vísu ekki hvernig orð mín fjellu, en að jeg hafi verið að bendla þennan góða vin minn og ágæta flokksbróður, sem jeg játa fúslega að jeg met mjög mikils, — að jeg hafi verið að bendla hann við nokkurt sjerstakt hneyksli, því mótmæli jeg algerlega.

Hneykslið, sem jeg nefndi, var það, að hæstv. forsrh. vill ekki svara því, á hvern hátt hann leysti kaupdeiluna og afsakar sig með því, að hann sje bundinn þagnarskyldu um það, er fór á milli hans og þeirra, er hann samdi við. Ef hitt var hneyksli, að leysa þessi bæði mál saman, þá var það ekkert hneyksli, sem snertir aðilja. Hneykslið er þá og verður það, að hæstv. forsrh. gengur inn á óbilgjarnar kröfur. Það er ekkert hneyksli að gera kröfur. Það er fyrst hneyksli að ganga að þeim.

Vitaskuld verður hæstv. forsrh. að gæta þess, þegar hann tekur að sjer að jafna slíkar deilur, að hann hefir ekki aðeins skyldur við aðilja, heldur hefir hann og meðfram, stöðu sinnar vegna, skyldur við Alþingi.

Jeg vil þá víkja snöggvast að því svari, sem hv. þm. G.-K. sagði, að hæstv. ráðherra hafi átt að gefa. Segjum þá svo, að hjer hafi staðið í járnum í huga ráðherrans um það, hvort hann ætti að innheimta skattaukann eða ekki. En svo hafi kaupdeilan komið, og þá hafi hann leyst það mál með því að lofa útgerðarmönnum að skattaukinn yrði ekki heimtur inn fyrir síðastliðið ár.

Þetta minnir á söguna um asnann milli töðusátanna. Sáturnar voru nákvæmlega jafnstórar og jafngóðar og asninn nákvæmlega jafnlangt frá báðum, og svo dó hann úr hungri, af því að hann langaði nákvæmlega jafnmikið í báðar sáturnar. Þessu líkur á þá hæstv. ráðherra að hafa verið, og þá þurfti eðlilega ekki nema mjög lítið til þess að beygja huga hans til annarar hliðarinnar.

En sleppum nú þessu. Svar ráðherrans, svo og ummæli þm., sem talað hafa, hafa veitt mjer alla þá fræðslu, sem mjer er þörf á. Það er sem sje orðið augljóst, að það hefir verið einhver þremillinn þarna á milli þils og veggjar, og það hefir upplýst betur og betur, að það hefir verið svo sem orðrómurinn sagði. Deilan hefir verið leyst með því að gefa eftir skatt, sem stjórnin hafði áður ákveðið að ríkissjóður þyrfti að fá. Kaupið hefir verið hækkað með skattaívilnun. Það er að vísu gott fyrir Reykjavík, en sveitirnar bera skarðan hlut frá borði. Þær verða að borga brúsann. (ÓTh: Jeg held að Reykjavík sje þá vel að því komin). Já, jeg finn líka ástæðu til að þakka hæstv. forsrh. vegna kjördœmis míns. En það hefði verið skemtilegra, að þetta góðverk hefði ekki verið flekkað af neinu öðru.

Hv. 2. þm. G.-K. var að tala um auðinn, sem togararnir sæktu í djúp hafsins. En þetta sannar lítið, því að það er enginn kominn nú til þess að segja, að deilan hefði ekki verið skjótt til lykta leidd, þótt þetta hefði ekki verið gert. Það eru meira að segja mikil líkindi til, að kaupdeilan væri enduð, þótt ekki hefði verið gripið til þessa örþrifaráðs. Verði áfram haldið á þessari braut, verður einum gefinn kaffitollurinn, öðrum vörutollurinn og þá kannske eins og einhver náungi stakk upp á: embættismönnum gefinn ágóðinn af Helgustaðanámunni.

Þá bar sami hv. þm. mjer á brýn, að jeg hefði farið með rökvillu, þegar jeg sagði að verkfallið hefði verið óviðkomandi innheimtu tekjuskattsviðaukans. Þetta var ekki rökvilla. Árið 1928 er liðið, og það var gott ár. Tekjuskattsaukinn, sem eftir var gefinn, bygðist á því ári. En verkfallið gat fyrst snert tekjuskattinn af árinu 1929, og heimildin til að heimta hann inn er enn í gildi. Rökvillan er því ekki mín, heldur er hún þeirra megin, hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. G.-K., ef hún er einhver. Auk þess hefir einmitt verkfallið sýnt, að togararnir eru ekki almáttugir, því þó að engir togarar gengju þennan tíma, þá gaf forsjónin okkur fult eins mikinn fisk á land og á sama tíma árið áður. En með þessu er jeg þó ekki á nokkurn hátt að mæla vinnustöðvun bót.

Þetta læt jeg mjer nægja, og þakka hæstv. forseta fyrir þolinmæði þá, er hann hefir sýnt mjer með því, að leyfa mjer að hafa þessa aths. í lengra lagi en þingsköp heimila.