14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2329)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Mjer þykir satt að segja hart, að það skuli átalið í þinginu, að þm. spyrji hæstv. forsrh. hvaða ráðstafanir hann hafi gert í jafnstóru fjárhagsmáli og hjer er um að ræða.

Þegar jeg um daginn hafði skotið fram spurningu minni til hæstv. forsrh. um afskifti hans í kaupdeilunni, þá sagði einn merkur Framsóknarmaður við mig á eftir, að það væri hart að sjá hnífinn þannig rekinn í bak hæstv. forsrh. Mjer þótti þessi ásökun í minn garð undarleg, því að jeg get á engan hátt viðurkent, að jeg sje að læðast aftan að hæstv. ráðherra, þótt jeg beini til hans fyrirspurn, að honum sjálfum áheyrandi, hjer í hv. þingd.

En það verð jeg að segja, að mjer finst nýr siður upp tekinn á hinu háa Alþingi, þegar svo mikill og traustur varnargarður er sleginn um hæstv. forsrh. um leið og hann er spurður í prúðum orðum um mál, sem alla þjóðina varðar, að ekki aðeins stuðningsmenn hæstv. stj., heldur og andstæðingar — eða öllu heldur fyrverandi andstæðingar hennar — hlaupa fram fyrir skjöldu henni til varnar og segja berum orðum, að hún þurfi engu að svara. M. ö. o. það komi engum við, á hvern hátt hœstv. forsrh. hafi leyst kaupdeiluna. (ÓTh: Jeg hefi alderi talið mjer skylt að fylgja öllu því skilyrðislaust, sem flokksbræður mínir kunna að fitja upp á. Jeg rígbind mig ekki við neitt nema sannleikann, hann vil jeg segja hver sem í hlut á.) — Jeg nefndi líka hv. fyrverandi andstæðing hæstv. stjórnar.

Jeg ætla ekki að orðlengja um þetta frekar. Þau svör, sem hæstv. forsrh. hefir gefið mjer og öðrum, sem spurt hafa, eru mjer fullnægjandi. Jeg er ekki í nokkrum vafa um það, á hvern hátt hann hefir leyst kaupdeiluna. En þó vil jeg aðeins bæta við og segja:

Ef hæstv. forsrh. hefir gefið skattaukann eftir af þeirri ástæðu, að hann við nánari athugun hafi sjeð, að óþarft væri að nota hann í þetta sinn, þá var engin þagnarskylda því til fyrirstöðu, að hæstv. ráðherra skýrði frá því. Ef hann hefir gefið hann eftir án þess útgerðarmenn væru nokkuð við það riðnir, þá var hann heldur ekki bundinn neinni þagnarskyldu.

Það er því auðsætt, að hæstv. stj. hefir gefið skattinn eftir til þess að geta komið sættum á í kaupdeilunni. Af því stafar þagnarskyldan og engu öðru.

Hæstv. forsrh. var ljóst, hve kaupdeilan var orðin alvarleg, og til þess að jafna hana sá hann ekki annað ráð vænlegra, en gefa eftir tekjuskattsaukann.

Þessi braut, sem farið er út á, er auðvitað mjög hættuleg, en mjer finst að hæstv. forsrh. hefði átt að játa það hreinskilnislega, að hann hafi gengið inn á það að gefa útgerðinni eftir skattaukann, svo að henni veittist ljettara að taka á sig kauphækkun þá, er samdist um.