14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2333)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Guðmundsson:

Jeg get tekið undir það, sem hv. 2. þm. Rang. (GunnS) sagði, að undarlegt sje, að hjer skuli deilt um það, sem allir þm. vita: sambandið á milli lausn kaupgjaldsdeilunnar og afturköllun hæstv. stjórnar um að innheimta tekjuskattsaukann á yfirstandandi ári. Það hefir aðeins leikið vafi á því, hvort fulltrúar sjómanna hafi vitað um skattaívilnun stjórnarinnar áður en aðiljar komu sjer saman um kaupið. Um þetta spurði jeg hjer á dögunum, en man ekki til að því hafi verið svarað.

En þegar þessu er þannig varið, þá er mjer með öllu óskiljanlegt, hvernig hæstv. stjórn hefir svarað. Hversvegna má ekki segja þetta, sem allir vita? Er ekki einmitt með þessu verið að gefa undir fótinn, að eitthvað óhreint sje hjer á bak við? Annars mundi hæstv. stjórn ekki fara svona undan í flæmingi og afsaka sig með því, sem engin afsökun er, að hún sje bundin þagnarskyldu.

Út af því, sem háttv. þm. V.-Ísaf. (AÁ) sagði, þá vil jeg með fáum orðum minna hann á það, að mjer þykir hann næmari fyrir hneyksli, þegar hans stjórn á í hlut, heldur en stundum áður. Hann reis ekki upp á meðan hann var í „opposition“ er ráðist var á þáverandi stjórn, og hreyfði sig jafnvel ekki henni til varnar, þótt hann viðurkenni nú, að ráðist hafi verið stundum að ósekju að þáverandi stjórn. En jeg kynni betur við að þeir, sem ætla að kenna öðrum, lifðu sjálfir eftir kenningum sínum. En þessi hv. þm. hefir enn ekki orðið til þess að taka upp hanskann fyrir andstæðinga sína, þótt á þá hafi verið hallað meira en ástæður voru til. Hann hefir ekki ennþá farið að eins og hv. 2. þm. G.-K. og hv. 3. þm. Reykv. og sett ofan í við sína flokksbræður, ef úr hófi þótti keyra. Að minsta kosti varð slíks ekki vart í tíð fyrv. stjórnar, svo að jeg viti. En þar fyrir er reglan lofsverð og falleg, en jeg býst við, að það muni vera næsta erfitt að fylgja henni. Og þess er þá að vænta, að hv. þm. minnist þess nœst þegar hann kemst í stjórnarandstöðu, að hann hefir nú gefið þessa reglu. Fyrir mitt leyti er jeg fús til að reyna að fylgja henni, enda mun tæpast með sanni sagt, að jeg hafi verið sjerstaklega harður í andstöðunni gegn núverandi stjórn.