14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Hv. 1. þm. Skagf. spurði, hvort okkur jafnaðarmönnum hefði verið kunnugt um þenna kaupskap hæstv. forsrh. og útgerðarmanna. Hv. þm. gerði þessa sömu fyrirspurn við síðustu umr. þessa máls, og svaraði þá hv. 4. þm. Reykv. því skýrt og afdráttarlaust, að þeir hefðu enga minstu vitneskju um það haft. Og fyrir mitt leyti get jeg fullyrt það, að ef jeg hefði verið að spurður, hefði jeg aftekið með öllu að ganga að slíku samkomulagi. Jeg veit ekki, hvað hv. 1. þm. Skagf. vill hafa gleggri svör, því einnig hv. 2. þm. Reykv. hefir svarað spurningunni fyrir sitt leyti.

Það var hv. 2. þm. Reykv., sem fyrstur hóf máls á þessu hjer í deildinni og beindi fyrirspurn um það til hæstv. forsrh. Þeir þm., sem fundið hafa að gerðum stjórnarinnar í þessu máli, hafa síðan flestir tekið undir ásakanir hans og okkar jafnaðarmanna út af þessu atriði. Jeg þarf því ekki að endurtaka það, sem jeg og flokksmenn mínir hafa sagt um þetta mál. Jeg verð að álíta svör eða svaraleysi hæstv. forsrh. beina og fullnægjandi sönnun þess, að ákveðið samband sje á milli deilulokanna og tilskipunarinnar um að innheimta ekki skattviðaukann. Jeg þykist auk þess hafa fengið fulla vissu um þetta nú undir þessum umræðum. Jeg álít þessa leið háskasamlega, og gersamlega óverjandi að leggja út á hana. Hún er háskaleg að því leyti, að hún gefur báðum aðiljum deilunnar undir fótinn til þess að vera harðari og heimtufrekari í kröfum, einkum þeim, sem betur stendur að vígi og sem kominn er á spenann. Það mun sannast, að þetta mun auka á ósvífni og ágengni útgerðarmanna í kaupdeilum.

Mjer segir þungt hugur um næsta ár, þegar þessir samningar eru útrunnir og semja skal á ný. Annar aðiljinn hefir nú heimtað stóran bita og fengið hann, fyrir að leysa skipin úr læðingi. Hvað munu þeir heimta næst? Og skyldi ekki hinn aðiljinn, sjómennirnir, líka geta þegið einhver fríðindi undir slíkum kringumstæðum? Hvernig hugsar stjórnin sjer að leysa slíkar kaupdeilur í framtíðinni? Á það að gerast með svipuðum hætti, eða hvað?

Það er ekki minsti vafi á því, að þegar þingið í fyrra samþykti lögin um 25% skattviðaukann, þá var það tilætlun þingsins, að heimildin yrði notuð. Tilgangslaust að setja slík lög ella.

Hæstv. forsrh. afsakar þetta með því að segja, að fjárhagurinn hafi verið svo góður þetta ár, að ekki hafi þurft að grípa til heimildarinnar. Það er rjett, að fjárhagurinn er betri en von var til, og afkoma ársins yfir höfuð. En engir ættu að vera þess minnugri en hæstv. forsrh., að hjer í landi er gnótt óunninna en nauðsynlegra verka, sem hrinda hefði mátt í framkvæmd fyrir þær 400–500 þús., sem hann afsalaði ríkissjóði. Mjer virðist hæstv. forseti hafa hjer tekið sjer vald, sem á að vera hjá Alþingi einu, þ. e. tekið af því ráðin og breytt þvert gegn tilætlun síðasta Alþingis um þessi lög. Auðvitað afsakar hæstv. forsrh. þetta með því að segja, að hjer sje einungis um heimildarlög að ræða. En hann má skilja það, að þau lög voru sett til þess að þeim væri framfylgt.

En tvent vil jeg leggja hv. þdm. sjerstaklega á minni. Annað það, hve gífurlegt vald útgerðarmenn hafa í þessu landi, að þeir skuli geta svínbeygt hæstv. stjórn til að heykjast á sínum aðal stefnumálum. Ráðherrann hefir oftsinnis lýst því yfir, að hann væri andstæður stefnu íhaldsins í skattamálum. Þess vegna hlýt jeg að álykta á þá leið, að fulltrúar útgerðarmanna hafi knúið hæstv. ráðh. til þess, að fremja þann verknað, sem brýtur í bága við stefnu flokks hans á síðasta þingi. Sennilega hefir hæstv. ráðh. vaxið í augum það böl, sem hann hefir þótst sjá fram á af áframhaldandi verkstöðvun, og þess vegna unnið það til sætta, að hvika frá stefnu sinni. En ekkert sýnir ef til vill betur en þetta, hversu ægilega voldugir umráðamenn framleiðslutækjanna eru. Það sýnir, að á okkar landi er lýðræðið ennþá orðagjálfur eitt, innantómt orð. Örfáir menn ráða yfir atvinnu fjöldans og afkomu allri, og þeir hinir sömu menn taka sjer oft æðsta úrskurðarvald í stórmálum, ekki í orði heldur á borði.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ríkissjóðurinn væri máttur borgaranna til að greiða í ríkissjóðinn. Enda þótt þetta sje harla nýstárleg niðurstaða, má hún þó til sanns vegar færast að því leyti, að ef þessir menn stöðva framleiðslutækin, þá er um leið gjaldgeta almennings þrotin, með öðrum orðum, þá er ríkissjóðurinn þrotinn.

Annað er það, sem jeg vildi mega leiða athygli hv. þdm. að, og það er, hve rík sönnun þetta er fyrir hinni knýjandi nauðsyn rannsóknar á hag og rekstri útgerðarinnar, svo að allur almenningur fái að vita, hvað hefir skapað slíka aðstöðu fyrir fáa menn í þjóðfjelaginu. Og jeg get ekki sjeð, hvernig stjórnin getur lagt á móti slíkri rannsókn, eftir alt það, sem undanfarið er, og ekki síst, þegar nú er upplýst hverjir hafi skapað friðarkostina. Það eru ekki útgerðarmenn alment, heldur einungis þeir af þeim, sem loðnastir eru um lófana. Þeir útgerðarmenn, sem tapað hafa, eða eru illa efnum búnir, þeir fá ekkert af þessum ívilnunum. En hinir, sem grætt hafa svo skiftir hundruðum þúsunda, þeim er gefið. Það er tekið frá þeim, sem ekkert hafa, og gefið þeim sem hafa. — Jeg vona, að jeg styggi ekki hv. þm. Dal. þótt jeg segi frá því, að daginn eftir að sættir komust á, sagði hann mjer, að hann hefði heyrt, að ríkisstjórnin hefði lofað að lækka toll á kolum og salti til þess að ívilna útgerðinni. Ef míns álits hefði verið leitað um þetta, hefði jeg verið því mjög mótfallinn, en þó hefði verið ólíkt meira vit í þeirri ráðstöfun en hinni, að gefa eftir tekjuskattsaukann. Slík ívilnun hefði náð til allrar útgerðarinnar, ekki einungis þeir hefðu notið hennar, sem eru stórauðugir og hafa grætt síðastliðið ár stórfje, heldur líka hinir, sem berjast í bökkum. Með því að gefa eftir skattaukann, er þeim einum gefið, sem síst þurfa gjafa við, þeim ríkustu og tekjumestu.

Jeg vildi nú að lokum mega vænta þess, að þær umræður, sem nú hafa farið fram um þetta mál, umræðurnar um vinnudóminn, sem stóðu yfir í 4 daga, og loks byrjunin að umræðum um rannsókn togaraútgerðarinnar, mætti verða til þess, að hv. þdm. yrði það ljóst, að sá atvinnurekstur, sem þúsundir eða tugir þúsunda manna eiga afkomu- og bjargarvonir sínar undir, en lýtur stjórn og umráðum nokkurra manna, sem svo láta stjórnast af enn færri mönnum, má ekki vera einkamál þessara manna. Ríkisheildin verður að hafa hlutdeild í rekstrinum framvegis, starfsmennirnir líka. Annars munu aðiljar ávalt tefla á tæpustu vöð, einkum atvinnurekendur, því þegar þeir ráða yfir framleiðslutækjunum, eru það um leið þeir, sem raunverulega ráða í þessu landi.