14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Við höfum nú rætt um þetta mál næstum allan þennan fundartíma og 2 undanfarna daga. Verð jeg nú að segja í lok þessarar umr., að þrátt fyrir allar þessar umr. hefir ekkert nýtt komið fram í málinu, og þm. engar nýjar upplýsingar fengið. Tel jeg vafasamt fyrir þá, sem til þessa hafa stofnað, hvort þeir eigi að teygja lopann lengur. Jeg hefi sjálfur talað lítið, og tel tíma þingsins illa varið með þessu lagi.

Vil jeg aðeins minnast á tvo aðilja, sem hér hafa látið til sín heyra. Annar aðiljinn eru tveir helstu fulltrúar útgerðarmanna hjer í hv. deild, og er jeg þeim þakklátur fyrir afskifti þeirra af málinu og vingjarnleg ummæli í minn garð. Hinn aðiljinn eru hv. 1. þm. Reykv. og forstjóri þeirrar bankastofnunar, sem á allan sinn hag undir velgengni útgerðarinnar. Hafa báðir þessir hv. þm. endilega þurft að láta ljós sitt skína og það í litlu samræmi við áður nefnda aðstöðu sína, í slíku stórmáli sem verkfallið var.