14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Jeg get ekki skilið, hvers vegna hæstv. forsrh. er að blanda mjer sem bankastjóra Íslandsbanka inn í þetta mál. Jeg hefi sem þm. minnar þjóðar fullan rjett til þess að gera mínar fyrirspurnir til hæstv. stjórnar, og fá upplýst slík felumál sem þetta. Stjórn Íslandsbanka er hjer ekki til umræðu, og hæstv. forsrh. hafði enga ástæðu til þess að blanda mjer sem slíkum inn í þessar umræður.

Ef hæstv. forsrh. hefði sýnst jeg vinna á móti sátt í vinnudeilunni, gat þetta verið annað mál, en því fór fjarri. Hitt er annað mál, að jeg álít það ráð, sem nú var notað, ekki vera til frambúðar, og ekki muni vera unt að fara slíka hættuleið framvegis. Jeg hefi reynt af fremsta megni að stuðla að því, að frv. um dóm í vinnudeilum nái fram að ganga, en jeg hefi hvorki heyrt hæstv. forsrh. eða form. bankaráðsins minnast á hann einu orði. Á bak við tjöldin er það fullyrt, að hæstv. stj. hafi lofað jafnaðarmönnum því, að vinnudómsfrv. skuli falla. Er það illa farið, því að þjóðin heimtar vinnufrið, og hann verður best trygður með vinnudómstól.