14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Mjer skildist á ummælum hv. þm. V.-Ísf., þegar hann talaði um sinn eigin heiðarleik, að hann væri eiginlega að blanda eitri í kaleikinn. Jeg hóf hjer andstöðu með því, að ávíta hæstv. stj. fyrir að neita þinginu um upplýsingar í mjög mikilsverðu máli. Er það óhæfileg regla, ef hæstv. stj. leysir stórdeilur á þann hátt, sem nú hafa verið leiddar getur að, og neitar svo þm. um allar upplýsingar í málinu. Megi maður svo ekki gera fyrirspurnir undir svona kringumstæðum, þá verð jeg að segja, að mjer finst vera orðið alveg ólíft á þingi.

Jeg skal skjóta því til hv. 2. þm. G.-K., að ummæli mín átti ekki að skilja svo, að jeg áliti orð hans og hv. 3. þm. Reykv. minna virði af því, að þeir væru útgerðarmenn. Síður en svo. Ég veit að þeir láta það engin áhrif hafa á sig, þó að þeir hafi haft fjárhagslegan hagnað fyrir sín fyrirtæki af þessari lausn málsins. En jeg tel vitnisburð þeirra minna virði vegna þess, að ef hæstv. forsrh. er bundinn þagnarskyldu í þessu máli, þá eru það einmitt þessir hv. þm., sem hafa múlbundið hann. Er því ekki nema eðlilegt, að þeir taki upp þykkjuna fyrir hann.

Það fer fjærri því, að jeg eigi erfitt með að verja framkomu mína í þessu máli fyrir mínum kjósendum. Bara að hæstv. forsrh. eigi ekki erfiðara með að telja sínum kjósendum trú um, að hann hafi hér verið að gera þeim gagn. Og það mun hann finna, að það verður við ramman reip að draga, þegar hann ætlar að fara að leysa kaupdeilur í framtíðinni á sama hátt og nú. Hann er búinn að gefa mönnum svo mikið undir fótinn með milligjöf úr ríkissjóði, að aðiljar vinnudeilunnar geta sagt eins og kjósandinn í New York: „Jeg er ekki enn búinn að ákveða, hvað jeg geri, því að jeg veit ekki hvað boðið verður í atkvæðið.“ Mun það sýna sig á sínum tíma, hvor okkar hæstv. forsrh. á hægara með að verja sína framkomu í þessu máli fyrir hv. kjósendum.

Þarf jeg svo ekki að fjölyrða frekar, því að þetta mál er alveg upplýst.