03.04.1929
Efri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Halldór Steinsson:

Jeg get ekki verið sammála hv. 3. landsk. (JÞ) og hv. 4. landsk. (JBald) um að stjórnin eigi ekki aðkast skilið fyrir að fella niður að innheimta tekjuskattsviðaukann á þessu ári. Hvernig sem á það er litið, þá tel jeg alveg óhæfilegt og óverjandi af stjórninni að kasta þessum tekjum úr ríkissjóði, á þann hátt, að jafna með þeim úr vinnudeilunum. Ef það á að leggja fram fje úr ríkissjóði í hvert sinn, sem ástæða þykir til að skakka leikinn í vinnudeilum, þá er gengið inn á braut, sem ekki verður happasæl fyrir fjárhag þessa lands.