21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

89. mál, almennur ellistyrkur

Halldór Steinsson:

Jeg vildi aðeins segja örfá orð út af ummælum hv. fjmrh. Hann taldi þessa leið rjetta, og að nauðsyn bæri til að stækka þessa sjóði, en hitt taldi hann ósanngjarnt, að fara að auka nefskattana á þjóðinni frá því, sem verið hefði frá því árið 1909. Þing eftir þing hefir verið skorað á landsstjórnina að hefjast handa í þessum efnum, en hún hefir daufheyrst við því, og ekki fundið betri leið. Er því ekki þingmönnum vorkunn, þótt þeir grípi til sinna eigin ráða? Það má segja um þennan nefskatt, að hann er það sanngjarnari en aðrir, að þeir fátæklingar, sem eiga erfitt með að greiða hann, mega vænta þess, að þeir fái styrk úr þessum sjóði. Alt öðru máli er að gegna um aðra nefskatta, svo sem um prests- og kirkjugjöld o. fl., sem menn verða að greiða án þess að hafa nokkur not þeirra sjóða, er gjöldin renna til. Þessi nefskattur er því sýnilega lang sanngjarnastur. Þótt lögin sjeu máske ekki fullkomin, getur nefndin lagað þau þannig, að þau verði aðgengileg. Það er nauðsyn, að gera eitthvað í þessu máli og ráða bót á því böli, að fyrir fátæklingum, sem komnir eru yfir sextugt og hafa útslitið kröftum sínum, skuli ekkert liggja nema sveitin, því að sá styrkur, sem þeir fá nú, er verri en enginn, þar eð þessir menn fá oft aðeins 10–20 kr. á ári, sem jafnvel fátæklinga munar mjög lítið um.