21.03.1929
Efri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

89. mál, almennur ellistyrkur

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg mun ekki lengja mikið umr. um þetta mál, því það er þegar búið að svara ýmsu því, er jeg myndi hafa tekið til athugunar. Þó get jeg ekki komist hjá því að snúa mjer lítið eitt að ræðu hv. fjmrh. Hann talaði um, að nefskattar væru mjög ósanngjarnir og illa sjeðir meðal almennings, og það má vel vera. En mjer er spurn: Hví benti hann ekki á aðra færari leið? Hann vildi að vísu lækka einstaklingsframlagið, en láta bæjar- og sveitarsjóði bera þyngsta baggann, en það yrði auðvitað ekki gert með öðru móti en því, að auka skattana innan hjeraðs, en jeg hygg, að flestum þyki þeir nógu þungir, þótt ekki sje við þá bætt, og ennfremur býst jeg við, að menn mundu engu síður kvarta undan því en þessum nefsköttum, sem hjer um ræðir. Eins og jeg gat um í framsöguræðu minni, er tilgangur okkar flm. sá, að bæta úr því ástandi, sem er óviðunandi. Það er beinlínis tál og blekking að láta fátæk gamalmenni búast við því og byggja á því, að þau fái ef til vill verulegan styrk úr ellistyrktarsjóði fyrir jólin, en svo þegar til kemur, fái þau aðeins 10 eða 20 kr., og það er, eins og allir sjá, aðeins smávægileg glaðning. Meðan engar betri tillögur koma fram í þessu máli, hygg jeg að ekki sje fundin betri leið út úr þessu vandræðamáli en við flm. frv. höfum

valið. Okkur er það að vísu ljóst, að nefskattar eru illa þokkaðir meðal almennings, enda er því altaf svo farið, að menn eru viðkvæmir fyrir því, þegar seilst er ofan í pyngjur þeirra. En hitt, að bæjar- og sveitarsjóðir greiði eina krónu fyrir hvern mann, veitir ekki ellistyrktarsjóðunum sömu aukningu og hjer er farið fram á. Hjer er aðeins verið að bæta úr brestunum til bráðabirgða, þar til betri leið verður fundin og fullkomlega ráðið fram úr þessum málum.

Jeg er þakklát hv. 1. landsk. fyrir þann skilning, er hann sýndi í þessu máli, þótt vænta mætti þess úr þeirri átt, þar eð bann og samflokksmenn hans láta sjer ant um hag alþýðunnar, og jeg vonast til þess, að sá stuðningur, er fólst í orðinn hans, verði til þess að styrkja þetta frv., svo að það nái að komast út úr deildinni, breytt eða óbreytt, þótt jeg efist um að breytingar, sem kunna að verða gerðar á því, verði mikið til bóta. En jeg er hissa á því, að engar ráðstafanir skuli fyr hafa verið gerðar til að auka fjármagn sjóðanna, því að öllum hefir verið það ljóst, að brýn nauðsyn bar til, en ef einhver betri leið verður fundin en sú, er við flm. höfum valið, vil jeg leyfa mjer að segja það fyrir hönd okkar flm., að enga mun það gleðja meir en okkur. Það er þegar búið að taka það fram, að sóknargjöld eru annars eðlis og óskyld þessum gjöldum, og vil jeg benda á það, að sóknargjalda njóta þeir einir í lifanda lífi, sem eru tíðir kirkjugestir og hlusta þar á ræður presta og fagran söng, og svo hinir, sem látnir eru, og fá aðhlynningu fyrir líkama sinn, en ellistyrksins njóta aftur á móti í lifanda lífi allir þeir, sem fullnægja ákvæðum ellistyrktarsjóðslaganna.