11.04.1929
Efri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2370)

89. mál, almennur ellistyrkur

Ingibjörg H. .Bjarnason:

Við flm. getum þakkað hv. fjhn. fyrir meðferðina á frv. okkar á þskj. 146, um breytingar á lögum nr. 17, 9. júlí 1909, um almennan ellistyrk, sem nú er til 2. umr. í þessari hv. deild.

Að vísu hefir hv. fjhn. borið fram nokkrar brtt., en við því mátti einnig búast, því að frv. var samið í flýti.

Eins og sjest á nál. hv. fjhn. á þskj. 270, þá er n. öll sammála um, að rjett sje að auka framlög til ellistyrkarsjóðanna í þeim tilgangi, að upphæð sú, sem til úthlutunar kemur árlega, verði hærri, og komi þannig að meiri notum. Þetta vakti líka fyrir okkur flm., og má segja, að það sje einnig aðaltilgangur okkar flm., að láta sjóðina koma nú þegar að sem mestum notum fyrir fátæklinga þá, sem vilja halda sjer frá sveit. Með 1. brtt. sinni leggur nefndin til, að bætt verði við þriðja aðiljanum, þ. e. bæjar- og hreppssjóðum, með árlegu tillagi, 1 kr. fyrir hvern gjaldskyldan mann, og svo framarlega sem það reynist kleift, þá tel jeg það mjög vel farið, sjerstaklega þegar tillit er tekið til þess, að alt framlag sveitarsjóðanna kemur til úthlutunar hvert ár. Jeg get fyrir mitt leyti fallist á þetta, en að við flm. tókum þetta ekki upp í frv., stafar af því, að þessir skattar eru heldur illa sjeðir, eins og allir vita. Jeg vona nú samt, að þetta ákvæði mæti ekki andúð hjá stjórnum bæjar- og sveitarsjóðanna.

Um 2. brtt. nefndarinnar er það að segja, að jeg hefði heldur kosið að persónuframlögin, sem frv. ætlaðist til að hækkuðu um helming, hefðu haldist, því að það er skoðun mín eftir sem áður, að engan fullvinnandi mann, karl eða konu á gjaldskyldualdri, hefði munað tilfinnanlega um að greiða þau. Þó má vel vera, að þetta sje viturlega ráðið.

Að því er framlag kvenna snertir, þá hefði mjer þótt æskilegra, að sú hækkun, sem frv. gerir ráð fyrir, hefði haldist, þar eð jeg tel, að konur eigi að sjálfsögðu að leggja fram sinn skerf, þegar um er að ræða einhver þau mál, sem horfa til almenningsþarfa, og sem þær, eins og t. d. hjer, geta átt von á að njóta jafnt góðs af og karlmenn. Hefðu framlög kvenna verið hækkuð upp í 2 kr., þá mátti á tilsvarandi hátt hækka framlög karlmanna upp í 4 kr., svo að hvorttveggja væri á sama grundvelli, og bæði konur og karlar tækju hlutfallslega sinn hluta af byrðinni.

Jeg vil þó ekki gera þetta að neinu verulegu ágreiningsefni, því að betur sjá augu en auga, og vona jeg, að allar brtt. hv. n. verði til þess að auka tekjur sjóðanna sem mest. Því meiri sem tekjurnar eru, því meira er hægt að borga út, og því myndarlegri verður styrkurinn fyrir hvern styrkþega. Við flm. töldum það mesta ókostinn á fyrirkomulagi sjóðanna, hve lítið er borgað út árlega, en nú er bætt úr þessu að talsverðu leyti, því að eftir útreikningum hv. frsm. fjhn. eykst hin árlega úthlutun um 85–87 þús. kr. frá því, sem er eftir núgildandi lögum. Ef breyting þessi nær fram að ganga og verður að lögum, þá þarf ekki að ganga í neinar grafgötur með það, að þessi ákvæði eru til stórbóta.

Þriðju brtt. hv. n. þykir mjer sjerstaklega vænt um, þar sem hún einmitt fer í þá átt að auka að mun fje það, sem árlega kemur til úthlutunar úr ellistyrktarsjóðunum. Þessi breyting á 12. gr. ellistyrktarsjóðslaganna eftir nál. hv. n., er í því fólgin, að til úthlutunar skuli koma ¾ í stað 2/3 af gjaldi því, sem gjaldskyldum mönnum ber að greiða það ár til ellistyrktarsjóðanna í kaupstað eða hreppi, svo og alt tillagið það ár úr bæjarsjóði eða hreppsjóði, ennfremur helmingur styrks þess, er ríkissjóður leggur til styrktarsjóðanna á árinu, svo og helmingur vaxtanna af styrktarsjóðnum fyrir næsta ár á undan.

Þessi brtt. eykur mjög styrktarfje það, sem til úthlutunar kemur árlega. Styrkveitingar úr sjóðnum geta því framvegis komið að miklu meiri notum en áður, nái þessar breytingar fram að ganga.

Við flm. frv. höfum leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 291, þar sem farið er fram á, að 1. brtt. hv. n. orðist þannig:

„Sjóðir þessir skulu styrktir með árlegu tillagi úr ríkissjóði, er nemi kr. 1,50 fyrir hvern gjaldskyldan mann, og með 1 kr. tillagi úr bæjarsjóði eða hreppssjóði.“

Þetta er í rauninni ákaflega sanngjarnt, og væntum við þess, að hv. fjhn. og aðrir hv. deildarmenn muni geta fallist á þessa till. okkar. Hin auknu útgjöld fyrir ríkissjóð, ef brtt. þessi við brtt. hv. n. nær fram að ganga, eru ekki svo tilfinnanleg, að það geti hrætt neinn, en hins vegar mundi það, eins og áður er tekið fram, auka allmikið styrktarfje það, sem þannig kæmi árlega til úthlutunar. Jeg vænti þess, að hv. þdm. taki þessa brtt. til athugunar og lofi henni að koma til umræðu og athugunar, áður en gengið verður til atkv.

Jeg finn svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta, en vil að lokum þakka hv. fjhn. fyrir það, að hún sá sjer fært að stíga svona stórt spor til þess að auka tekjur sjóðanna og um leið árlega úthlutun úr þeim.