11.04.1929
Efri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2371)

89. mál, almennur ellistyrkur

Jón Baldvinsson:

Jeg vakti máls á því hjer við 1. umr., að jeg teldi rjettast, að í ellistyrktarsjóðinn kæmu tillög frá þremur aðiljum, sem sje bæjar- og sveitarsjóðum, fólkinu sjálfu, og svo frá ríkissjóði. Hitt er jeg ekki ennþá farinn að gera upp við sjálfan mig, í hvaða hlutföllum þessi tillög eiga að vera. Helsti gallinn á ellistyrktarsjóðslögunum er í mínum augum sá, að samkvæmt þeim fá menn ekki skilyrðislausan rjett til styrks, heldur aðeins styrk, sem fátækrastjórnin úthlutar, og það stundum ekki sem rjettlátast. Mjer er að vísu sagt, að allir, sem hafi sótt um slíkan styrk, t. d. hjer í Reykjavík, hafi fengið hann, en þá eru fjárhæðirnar svo litlar, að þær duga alls ekki til þess að draga fram lífið, en eru aðeins smávægileg hugnun fyrir gamalt fólk, og geta aðeins hjálpað þeim yfir 1–2 mánuði. með sparnaði. Jeg hefi fylgt þessari skoðun í nefndinni, og hv. frsm. tók það rjettilega fram, að jeg var meðnefndarmönnum mínum sammála um það, að auka tillögin til sjóðanna, og væri þeim tekjuauka síðan varið til árlegrar úthlutunar. Jeg hefi aftur á móti ekki mikla trú á því að safna í sjóði, er starfa eigi í framtíðinni, því að þeir koma oft ekki að tilætluðu gagni, þegar til á að taka, og eru þá oft ekki miklu megnugri heldur en þegar þeir voru stofnaðir. Sjóður, sem er t. d. stofnaður fyrir stríð, væri nú orðinn miklu minna virði vegna þess, hvað kaupmáttur krónunnar fer þverrandi.

Jeg hefði helst kosið, að persónuframlag einstaklinganna, nefskattarnir, væru ekki látnir hækka, og það eru þeir, sem jeg er á móti í þessu frv. Það þarf auðvitað að hækka tillög til sjóðanna, en sú hækkun á helst að koma fram á ríkissjóði og bæjar- og sveitarsjóðum, en ekki einstaklingunum. Jeg vil svo benda hv. deildarmönnum á það, að þetta verður alt tekið til rækilegrar athugunar í hv. Nd., því að þar er á ferðinni frv. til 1. um almenna tryggingu og þar á meðal ellitryggingu. Þar verða lagðar ákveðnar línur um þessi mál, og er eiginlega ekki hægt að taka þetta neitt föstum tökum á meðan.