11.04.1929
Efri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2372)

89. mál, almennur ellistyrkur

Halldór Steinsson:

Hv. fjhn. hefir nú gert allvíðtækar brtt. við frv. Er jeg samþ. því, að bæjar- og hreppssjóðir leggi í sjóðina því jeg tel þá síst of ríka. Finst mjer og rjettlátt, að þeir aðiljar leggi eitthvað fram, þar sem styrkurinn er eingöngu borgaður í þágu þeirra sjálfra. En jeg er aftur á móti mótfallinn því, að ríkissjóðstillagið sje fært niður úr því, sem er í frv. Þegar lög þessi voru sett 1909, þótti það sanngjarnt, að ríkissjóður greiddi helmings upphæð við það, sem karlmönnum var skylt að greiða. Við þetta hefir svo setið í 20 ár, án þess að nokkrar umkvartanir hafi heyrst. Mjer finst því ósamræmi að kippa þessu hlutfalli burt, sem hefir verið á milli greiðslu ríkis og einstaklinga. Jeg hefði því helst kosið, að tillag ríkisins hefði verið sett 2 kr., eins og var í frv. En jeg bjóst nú við, að það þætti of hátt farið, og hefi því komið fram, sem flm., með brtt. um, að það skuli vera kr. 1.50. Er ekki hægt annað að segja, en að ríkið sleppi vægt, þótt þetta nemi útgjaldaauka fyrir það sem svarar rúmum 20 þús. kr. Og þegar um hjálparstofnun er að ræða, er naumast hægt að telja þetta eftir. Vona jeg því, að brtt. okkar hv. 2. landsk. verði samþ.