11.04.1929
Efri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (2373)

89. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Jón Þorláksson):

* Fjhn. hefir ekki tekið afstöðu til brtt. á þskj. 291, um að hækka ríkissjóðstill. úr 1 kr. upp í 1,50 kr. En eftir því sem fram kom í n., þá hygg jeg, að þeir 4 nefndarmenn, sem skrifuðu undir nál. án fyrirvara, sjeu frekar mótfallnir henni. N. fanst ekki ástæða til þess, að sjóðirnir yrðu styrktir opinberlega með hærri upphæð en þeirri, sem fólst í frv. hv. flm. Og með brtt. n. næst eins mikið og með frv. Að ríkissjóði kallar margt, og jeg er ekki viss um, að rjett sje að leggja á hann alt að 25 þús. kr. gjaldaauka, og það því síður sem hreppssjóðir leggja nú fram, ef brtt. n. verður samþ.

Jeg vil benda á það, að eins og brtt. á þskj. 291, við brtt. n., er orðuð, þá leiðir hún það af sjer, að ekki koma nema 50 aurar til útgjalda, en hitt legst við sjóðinn, af því að engin brtt. liggur fyrir við brtt. n. um 12. gr. 1. frá 1909, en þar er svo ákveðið, að helmingur gangi til útborgunar. — Eins og þetta því liggur fyrir nú, geri jeg ráð fyrir því, að minsta kosti 4 nefndarmennirnir verði brtt. mótfallnir. — Þetta er að vísu ekki stór hækkun, en jeg álít þó, að það megi telja hana sómasamlega til bráðabirgða. Endurskoðun á tryggingalöggjöfinni liggur nú fyrir, og er ellitryggingin einn liður hennar. En út í það skal jeg ekki fara nú, enda hefi jeg ekkert umboð til þess frá n. En jeg get ekki neitað mjer um þá ánægju, að minnast á eitt atriði, sem við Íslendingar getum hrósað okkur af. Við höfum sem sje altaf haft í okkar lögum það, sem fáar aðrar þjóðir hafa gert, að hjer sje börnum skylt að framfæra foreldra sína eftir mætti. Þetta þykir svo sjálfsagður hlutur hjer, að menn má furða á því, að slíkt skuli ekki vera í lögum allra menningarþjóða. — Þetta gerir aðstöðu okkar öðruvísi, og ólíkt skemtilegri, til tryggingarmálanna, heldur en er með öðrum menningarþjóðum.

Ræðuhandr. óyfirlesið.