03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (2385)

89. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Jeg ætla ekki að fara að deila harðvítuglega við hv. frsm. minni hl. (HJ). Mjer skildist hann einkum mæla í móti í málinu af tveim ástæðum: vegna ósamræmis í tillögum um málið, og vegna þess, að málið gæti vel beðið. Hvað ósamræmið í skoðunum manna um þetta efni snertir, finst mjer það ekki skifta máli, ef menn geta fallist á síðustu tillögurnar, sem fram hafa komið. Mjer finst einmitt að hinar mörgu till., sem fram hafa komið, benda til þess, að málið hafi verið allvel athugað. Hitt er annað mál, þó að menn sjeu ósammála um einstök atriði. Skoðanamunurinn á milli fjárhagsnefnda deildanna er aðallega um eitt atriði. Sje jeg ekki, að það hafi svo mikla þýðingu, enda er algengt, að slíkt komi fyrir.

Jeg hefi áður skýrt frá því, hversvegna við gætum ekki fallist á aðalbreytingu Ed., sem sje þá breytingu, að gera bæjarsjóði og sveitarsjóði að gjaldaðilja. Hinsvegar getum við verið sammála hv. Ed. um það, að rjett sje að tekjuauki sjóðanna sje látinn koma til úthlutunar að meiru leyti en nú er.

Jeg skal taka það fram, eins og jeg hefi gert áður, að meiri hl. vill ekki fallast á að afgreiða þetta mál eins og það kom frá Ed., og það er af því, að við gerum ráð fyrir, að þess verði ekki langt að bíða, að þessi löggjöf verði rækilega endurskoðuð. Það er því rjett hjá hv. frsm. minni hl., að þessum breytingum er ekki ætlað að standa um langan tíma, heldur er hjer um bráðabirgðabætur að ræða, og því viljum við ekki víkja frá grundvelli gildandi laga um gjaldstofnana. Hinsvegar geta vel liðið svo 2–3 ár, að ekkert verði gert í málinu, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga. Bæði gæti hugsast, að málið yrði síðbúið fyrir næsta þing, og auk þess er alls ekki víst, að samkomulag náist á einu þingi um afgreiðslu málsins. Loks hlýtur að verða nokkur frestur á því, að lögin komi til framkvæmda eftir að þau hafa náð samþ. þingsins. Jeg held einmitt, að það frv., sem hjer liggur fyrir, sje heppilegt millistig í málinu. Ef um róttækar till. í málinu væri að ræða, að lokinni rannsókn, væri heppilegra, að þær gengi ekki í gildi strax. Hinsvegar er þetta frv. svo einfalt, að það gæti strax komið til framkvæmda, ef samþ. verður.

Hv. frsm. minni hl. hafði fengið út aðrar tölur en jeg, og skal jeg ekki segja um, hvernig í þeim mismun liggur. Sumpart stafar hann af því, að jeg tel vextina með, en hann ekki. Jeg gat um, hverjar mínar heimildir væru. Vera má, að mismunurinn liggi í því, að tekjurnar árið 1927 sjeu miðaðar við næsta manntal á undan. Manntalið breytist frá ári til árs. Annars skal jeg ekki um þetta deila.

Það liggur í hlutarins eðli, að ekki er hægt að gera þetta mál að miklu kappsmáli, þar sem gagngerðar breytingar á ellistyrkslöggjöfinni standa fyrir dyrum. En eins og jeg hefi sagt, tel jeg þetta frv. eðlilegt millistig, því að að ef sjóðirnir eiga að verða hlutverki sínu vaxnir, verður að líkindum ekki hjá því komist að auka stórum tillög beggja þeirra aðilja, er nú gjalda til þeirra. Og þá er þetta frv. hæfilegt millistig.