03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

89. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Hæstv. fjmrh. (EÁ) hefir nú lagt á móti till. okkar meiri hl. fjhn. og vill heldur frv. eins og það er og vill eigna sjer, að því er mjer skilst, að hafa fundið þessa nýju tekjustofna, sem komu inn í frv. í hv. Ed.

Það er nú vandalaust að sjá, að það er nokkurt atriði fyrir ríkissjóð, hvor leiðin er farin. Það er útlátalaust og vandalítið að skipa fyrir um, að aðili, sem hjer á ekkert atkvæði um, skuli leggja fram ákveðna fúlgu fjár, án þess að ætla honum nokkra tekjustofna á móti.

Jeg lít svo á, að sveitarsjóðirnir hafi fæstir gjaldgetu til að bæta á sig byrðum, nema þá að þeir fái nýja tekjustofna.

Jeg kalla það heldur ekki „fair play“ af þinginu, sem hefir umráð allra tekjustofnanna, að koma ríkinu hjá útgjaldabyrðum, sem það þó sjálft ákveður og leggur á, og varpa þeim yfir á þriðja aðilja, sem engum tekjustofnum hefir yfir að ráða, og hefir ónógar tekjur fyrir. Þetta er svipað eins og þegar sett var einu sinni sparnaðarnefnd milli þinga, til þess að athuga, hvernig mætti draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Tillögur þeirra vitru manna, sem í nefndinni sátu, voru: Látið sveitarfjelögin borga. Þetta er sama ráðið og hv. Ed. fann í þessu máli.

Hæstv. fjmrh. (EÁ) hjelt því fram, að sveitarsjóðirnir mundu fá framlag sitt margfaldlega endurgreitt. Jeg skildi nú ekki, hvað hann meinti með þessu, enda talaði hann stutt og útskýrði þetta ekki frekar. Það má vera, að meining hæstv. ráðh. sje sú, að aukinn ellistyrkur muni halda mönnum frá sveit. Nú er það svo, að ef menn hafa þegið af sveit, eiga þeir ekki rjett á ellistyrk. Eftir eru þá aðeins þau tilfelli, að ellistyrkurinn muni bjarga mönnum frá að þiggja sveitarstyrk. Með þeirri aukningu, sem hjer um ræðir, verður ellistyrkurinn ekki svo mikill, að hann geti, að minni hyggju, valdið miklu um það, hvort menn verða að þiggja af sveit eða ekki. Að minsta kosti ekki ef um fjölskyldmann er að ræða.

Þetta er þá þetta margfalda endurgjald, sem hæstv. fjmrh. talar um.

Við hv. frsm. minni hl. þarf jeg fátt að segja. Mjer finst hann hafa misskilið bæði nál. og mig í einu atriði. Hann telur, að með okkar till. sje of mikið sjeð fyrir nútíðinni, en oflítið fyrir framtíðinni. Það er að vísu rjett að því leyti, að eftir till. meiri hl. er ætlast til, að meira verði greitt út úr sjóðunum hlutfallslega en áður, en jeg held, að það sje heldur ekki gott að mæla á móti því, að þörf nútíðarinnar sje ríkari en þörf framtíðarinnar. Og þar sem búið er að leggja upp yfir 1 milj. króna sjóð og honum er ætlað að vaxa sem nemur fylstu innlánsvöxtum, þá sje jeg ekki að neitt sje níðst á framtíðinni í þessu efni.