03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

89. mál, almennur ellistyrkur

Ólafur Thors:

Jeg er fyllilega ánægður með málsvörn hv. frsm. meiri hl. (HStef) fyrir okkar hönd, en jeg kann því illa, að heyra hv. 2. þm. Reykv. tala með þjósti um, að verið sje að bjóða fólki steina fyrir brauð með þessu frv.

Hv. þm. mun byggja á því, að væntanleg sje á næsta þingi löggjöf um þetta efni frá hendi hæstv. stj., samkv. þál. frá síðasta þingi. Hæstv. forsrh. skýrði að vísu frá, að löggjöf um þetta efni yrði lögð fyrir næsta þing. Jeg efaði það ekki, að á því mætti byggja, fyr en jeg heyrði hæstv. fjmrh. tala um málið. Hann sagði, að frv. um þetta væri væntanlegt, ef ekki á næsta þingi, þá síðar.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er fram komið sem bráðabirgða umbót í þessu efni og það felur í sjer svo mikla hækkun á ellistyrknum, að það er alveg ástæðulaust fyrir þá, sem þykjast sjerstaklega bera hag smælingjanna fyrir brjósti, að beita sjer gegn því og viðhafa um það hæðileg orð. Af frv. getur a. m. k. ekkert ilt hlotist, nema ef hv. 2. þm. Reykv. þykir það ilt, að fátæk gamalmenni fá dálítið ríflegri styrk en hingað til hefir átt sjer stað.

Ágæti þessa máls verður best sannað með ummælum hæstv. fjmrh., að sveitarsjóðirnir mundu fá framlag sitt margfaldlega endurgreitt á þann hátt, að færri verði þurfandi sveitarstyrks. Betri meðmæli með frv. geta flm. þess ekki kosið.