03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

89. mál, almennur ellistyrkur

Ólafur Thors:

Það er auðvitað rjett, að það kaupir sjer enginn himnaríkissælu fyrir 70 krónur. Jeg hefi hinsvegar haldið því fram, að ekkert ilt geti leitt af að samþ. þetta frv. Ekkert annað en gott eitt, frá mínu sjónarmiði. En hv. 2. þm. Reykv. svarar því til, að það tefji fyrir fullnaðarframkvæmdum í málinu. — Nú höfum við meiri hl. menn og flm. líka, tekið það skýrt fram, að þetta eigi aðeins að vera til bráðabirgða. Við viljum komast eitt skref áfram, heldur en að standa í stað í þessu efni. Og er það ekki einmitt starfsregla jafnaðarmanna, að vinna að umbótum smátt og smátt? Jeg hefi haldið, að svo væri. En hvers vegna vilja þá þeir, sem kalla sig jafnaðarmenn, vinna á móti því, að slík þróun geti átt sjer stað hjer? — Jeg get að vísu vel skilið, að þeim, sem vanir eru hæstu launum, þyki þetta litið, en jeg er hinsvegar viss um, að af fátækum gamalmennum, sem minna eru vön, verði þessi hækkun vel þegin.