05.04.1929
Neðri deild: 37. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hæstv. forsrh. spurði að því í gær, hvort það mætti skilja svo, að landbn. tæki aftur til 3. umr. brtt. sína viðvíkjandi nafni bankans. Nefndin hefir nú athugað þetta og orðið ásátt um það að taka þessa brtt. sína aftur, en felst hinsvegar á brtt. hv. 1. þm. N.-M. (HStef) um þetta atriði, þar sem nefndinni finst nafnið heppilegra samkv. hans till.

Það kom til orða í gær, að hv. 1. þm. N.-M. tæki hinar till. sínar aftur til 3. umr., en þar sem atkvgr. var frestað, þá hefir nefndin fengið tækifæri til þess að athuga brtt. hans og óskar því ekki, að hann taki þær aftur til 3. umr. Hinsvegar getur nefndin á hvoruga till. hans fallist.

2. brtt. hv. þm. fellir niður heimild þá í 4. gr., að bankinn geti tekið lán erlendis gegn tryggingu í sjálfs sín eignum án þess að hafa til þess sjerstaka lagaheimild í hvert sinn. Nefndin lítur svo á, að ef þetta yrði samþ., þá væri með því þrengt um of að bankanum, og getur hún ekki sjeð, að nein ástæða sje til þess. Sje líka tekið tillit til þess rjettar, er Landsbankinn hefir í þessu atriði, hefði Búnaðarbankinn minni rjett, og verður ekki bent á neitt, er rjettlæti það.

Samkv. 3. brtt. sama hv. þm. er ætlast til þess, að samþykki Alþingis þurfi til í hvert skifti sem lán er tekið samkv. 11. gr. En nú er í 11. gr. ábyrgðarheimild fyrir ríkisstjórnina, er ekki má fara fram úr ákveðinni upphæð, sem sje 3 milj. kr. Hefði nú þessi ábyrgðarheimild verið óákveðin, hefði verið öðru máli að gegna. En þar sem talað er um ákveðna upphæð og þingið hefir í eitt skifti fyrir öll kveðið á um það, hve há hún skuli vera, þá væri það harla undarlegt, ef leita þyrfti lagaheimildar til að nota heimild þá, er áður er samþ.

Hæstv. forsrh. vjek nokkuð að till. nefndarinnar viðvíkjandi stofnfje veðdeildarinnar. Sama gerði og hv. 2. þm. Skagf. En ef hæstv. forsrh. og aðrir hv. þm. hafa skilið till. nefndarinnar svo, að hún væri mótfallin því, að veðdeildin fengi að stofnfje þessar 2 milj., þá er það hinn mesti misskilningur. Ástæðan til brtt. nefndarinnar var sú, að henni þótti ekki rjett að taka kirkjujarðasjóðinn og skella honum inn í veðdeildina, heldur vildi hún láta hann halda áfram að starfa sem sjerstakan sjóð. Nefndin hafði svo ekki aðra peninga til að benda á í stað kirkjujarðasjóðsins, því henni fanst ekki rjett að krefjast beinna framlaga úr ríkissjóði. Enn má benda á það, að með þessari breytingu verður að taka meira af skuldabrjefum viðlagasjóðs í veðdeildina en upphaflega var ætlast til, en þar sem kirkjujarðasjóður verður hvort sem er ávaxtaður í veðdeildinni, tel jeg, að þessi breyting sje meira í orði en á borði.

Mjer virtist svo sem hæstv. forsrh. væri mjer sammála um það, að hvað snerti brjefasölu deildarinnar væri engin Hætta á ferðum í bráðina. En svo spurðist hann fyrir um það, hvort jeg vildi ábyrgjast, að svo yrði einnig í framtíðinni. Vitanlega vil jeg ekkert ábyrgjast um það. Jeg geri ekkert lítið úr þeirri hættu, er nefnd hefir verið og landbúnaðinum gæti stafað af breyttri kjördæmaskipun. En ef þeir menn komast til valda í þessu landi, er vilja níða niður landbúnaðinn og draga úr honum, þá fæ jeg ekki skilið, að við getum á neinn hátt hindrað aðgerðir þeirra með því að setja kirkjujarðasjóðinn í stofnfje veðdeildar bankans, því ef svo fer, sem jeg vona þó að ekki verði, að slíkir menn komist til valda, þá mundu þeir hafa nóg ráð til að breyta til, hversu rammbyggilega sem um þetta væri búið.

Í þessu sambandi má benda á það, að ekki eru líkur til þess, að veðdeildin þurfi á meiri brjefasölu að halda en gert er ráð fyrir í till. nefndarinnar.

Mjer fanst anda heldur kalt til þessa máls frá hv. 2. þm. Reykv. (HV). Hafði jeg hugsað mjer að svara honum nokkru, en hæstv. forsrh. hefir tekið af mjer ómakið að mestu leyti. Ræða hv. þm. gaf að ýmsu leyti tilefni til þess, að farið yrði út í gamla matninginn milli kaupstaða og sveita. Jeg mun þó sleppa því að þessu sinni, en get þó ekki annað en bent á, að það liggja fyrir staðreyndir, er taka af öll tvímæli um það, að þrátt fyrir stuðning þann, er ríkið hefir veitt sveitunum, er það þó víst, að fólksstraumurinn til kaupstaðanna úr sveitunum hefir aldrei verið meiri en nú. Og hvers vegna er það? Til þess liggja eflaust margar ástæður, en mestu mun þar valda sú ástæða, að fólkinu a. m. k. finst, að atvinnuskilyrðin sjeu betri í kaupstöðunum. Af hverju stafar það svo? Jú, það er af því, að fjármagn það, er þjóðin hefir yfir að ráða, hefir meira runnið til sjávarins en sveitanna. En vitanlega leitar hinn vinnandi lýður helst þangað, sem fjárvonin er mest.

Hv. 2. þm. Reykv. þóttist vita til þess, að lán til bænda væru altaf látin sitja fyrir í veðdeild Landsbankans. Það má vel vera, að bankastjórar Landsbankans hafi gert sjer far um það, en jeg vil benda hv. þm. á, hve mikill aðstöðumunur er á því fyrir menn utan af landi og þá, sem t. d. búa hjer í Reykjavík, að notfæra sjer þetta. í þessu sambandi var hv. þm. að tala um sem æskilega leið í þessu efni að hafa sameiginlegan fasteignabanka fyrir sveitirnar og kaupstaðina, eins og gert er ráð fyrir í ríkisveðbankalögunum. Út í umr. um þetta ætla jeg alls ekki að fara nú, en þó má benda á aðstöðumuninn á milli þessara tveggja aðilja, því einmitt hans vegna er alment litið svo á af sveitamönnum, að sveitirnar þurfi að hafa sína sjerstöku lánsstofnun.

Það, sem jeg hefi lagt til þessa máls hingað til, hefi jeg gert fyrir hönd nefndarinnar, og hefi jeg því talið mjer skylt að nefna einnig þær ástæður, sem helst mæla með 2. brtt. n. á þskj. 228. En eins og stendur í nál. hafa tveir nefndarmennirnir áskilið sjer óbundin atkvæði um þessa brtt., og er jeg annar þeirra. Vil jeg því að lokum geta um afstöðu mína til þessa atriðis. Eins og jeg hefi áður tekið fram, álít jeg að hæstv. forsrh. hafi gert fullmikið úr þeirri hættu, sem stafa myndi af því að samþykkja þessa brtt., þ. e. a. s. ef trygging væri fyrir því, að ekki yrði gengið lengra út á þessa braut en till. ætlast til. En það er einmitt það, sem jeg er ekki óhræddur um, að ef gengið er inn á þessa braut með ákvæðum í bankalögunum sjálfum, þá geti farið svo, að kröfurnar fari vaxandi í framtíðinni, og þá ekki að vita, hvar staðar nemur. Og þar sem bankastofnun þessi er einungis ætluð fyrir þá, er landbúnað stunda, finst mjer það „princip“brot, að þeir, er eigi stunda landbúnað, geti fengið lán í bankanum til bátaútvegs. Hefi jeg því ásamt öðrum meðnefndarmanni mínum áskilið mjer óbundið atkv. um till. þessa. Hinsvegar er langt frá því, að jeg sje á móti því, að bændur, sem smábátaútveg stunda jafnframt búskapnum, geti fengið lán úr Landbúnaðarbankanum til útvegs síns, en til þess að það megi verða, þarf enga breytingu á 2. gr. frv. En verði till. meiri hl. n. samþ., þá er ekkert því til fyrirstöðu, að útgerðarmenn, sem engan landbúnað stunda, geti stofnað lánsfjelög og fengið rekstrarfje í Landbúnaðarbankanum. Geta þannig orðið til heil lánsfjelög, þar sem enginn fjelagsmanna stundar landbúnað, en þá er komið of langt út af þeirri braut, sem frv. er ætlað að marka.

Jeg get tekið undir það með hv. 1. þm. S.-M., að best væri að þessi umþráttaða brtt. kæmi ekki til atkv. nú, heldur verði atkvgr. um hana frestað til 3. umr., því að jeg fyrir mitt leyti gæti vel hugsað mjer miðlunarleið í þessu máli, og væri æskilegra, að samkomulag gæti fengist.

Í ræðu sinni áðan dró hv. þm. Borgf. það mjög í efa, að skýring hæstv. forsrh. á 2. gr. frv. væri rjett, að bændur gætu samkv. henni fengið lán úr bankanum til smábátaútvegs, og virtist hann byggja þann efa sinn á grg. frv. Það er nú ekkert vafamál, að samkv. grg. hefir höfundur frv. lagt þennan sama skilning í greinina. En þegar yfirlýsing um annan skilning á greininni kemur fram á Alþingi án þess að honum sje mótmælt, hefir grg. ekkert lagalegt gildi. Það yrði undir hverju einstöku lánsfjelagi komið, hve miklu það vildi verja af rekstrarláni sínu til smábátaútvegsins.

Það er alls ekki ætlun þeirra, sem mæla gegn þessari till. n., að útiloka það, að þeir bændur, sem landbúnað stunda jafnframt smábátaútvegi, geti varið rekstrarláni því, sem þeir kynnu að fá, að einhverju leyti til útgerðarinnar.