11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

89. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Jón Þorláksson):

* Hv. Nd. hefir gert ýmsar breytingar á frv. frá því, sem það var samþ. hjer, og skal jeg leyfa mjer að geta þeirra helstu.

Þessi hv. deild fjelst á að taka bæjar- og sveitarsjóði inn í tölu þeirra, sem ásamt ríkissjóði leggja fram fje til ellistyrktarsjóðanna. Hv. Nd. hefir felt þetta niður úr frv., en í þess stað hækkað framlag ríkissjóðs úr 1 kr. á mann upp í 1,50 kr. Nemur þetta fyrir ellistyrktarsjóðina helmingi þess, sem bæjar- og sveitarsjóðum var ætlað að greiða, eftir till. þessarar hv. deildar, en er um 25 þús. kr. útgjaldahækkun fyrir ríkissjóð, eins og nú stendur. Þá hefir hv. Nd. gert breytingar á úthlutunarákvæðum frv., sem hafa það í för með sjer, að sú upphæð, sem árlega er lögð fyrir til aukningar sjóðunum, minkar um 1/3 eða heldur meira. Fjhn. taldist svo til, að það væru 72–75 þús. kr., sem nú ganga til aukningar sjóðunum, en samkv. breytingum hv. Nd. lækkar það niður í 45 þús. kr. Loks hefir hv. Nd. gert þær breytingar á 4. gr. frv., sem n. hjer virtist sem næst því að vera missmíði eða alger missmíði, þar sem með þessari gr. er nú ákveðið, að 1. skuli ganga þegar í gildi, og eru þannig gerðar breytingar á miðju reikningsári á framlagi ríkissjóðs og gjaldandanna annarsvegar, og úthlutunarreglunum hinsvegar. Fjhn. gat ekki sjeð, að þetta gæti staðist, og afrjeð því að flytja brtt. við frv., eins og það nú er, og ganga þær till. í þá átt, að færa frv. aftur til þess horfs, sem það var í, er það fór frá þessari hv. deild.

Þessar brtt. eru hv. þd. kunnar að efninu til, og sje jeg því ekki ástæðu til þess að fara um þær fleiri orðum, nema hvað jeg vil geta þess, að n. sá ekki, að rjett væri að fallast á að sleppa bæjar- og sveitarsjóðunum með öllu, en hækka hinsvegar framlag ríkissjóðs, því að hún lítur svo á, að með þessari aukningu á árlegum úthlutunum úr sjóðunum, sem til er stofnað með frv. eins og það liggur hjer fyrir, sje farið að muna svo mikið um ellistyrkinn, að telja megi, að hann sje kominn inn á þau svið, sem hvíla á sveitarsjóðunum, og ljetti þeim þannig fátækraframfærið, og sje því rjett að gera sveitarsjóðina að gjaldskyldum aðilja.

Ræðuhandrit óyfirlesið.