17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2417)

89. mál, almennur ellistyrkur

Haraldur Guðmundsson:

* Þetta litla mál sýnir býsna vel starfshætti þessa þings. Það er búið að ganga gegnum margar umræður, og loks er það komið í Sþ., meðan ýms stórmál liggja óafgr. og verða ekki afgr.

Þetta frv. hefir verið kallað rjettilega kákfrv. En það er kákfrv. fyrir þá sök, að það fylgir þeirri meginstefnu um okkar nefskatta, að heimta ekki tryggingarfje á móti frá því opinbera.

Á síðasta þingi var samþ. þáltill. þess efnis að skora á stj. að undirbúa og leggja fyrir næsta þing 1. um almennar ellitryggingar. Hæstv. stj. hefir látið þetta undir höfuð leggjast, svo að hún ber mikla sök á því, að þetta mál hefir flækst fyrir þessu þingi — illu heilli. Á þessu þingi hefi jeg ásamt fleiri hv. þm. borið fram till. til þál. um að skora á hæstv. stj. að undirbúa almenna löggjöf um fullkomna, almenna tryggingu. Sú þáltill. hefir ekki fengið afgreiðslu enn, og því litlar horfur á, að hún fái afgreiðslu. En þessu máli, sem ekkert gagn gerir, en lögfestir óheillastefnu, því er svo langt komið.

Í trausti þess, að hæstv. stjórn bæti ráð sitt og líti á fyrirmæli þingsins frá í fyrra um að undirbúa löggjöf sæmilega um þetta efni, vil jeg leyfa mjer að leggja til, að frv. verði vísað til stjórnarinnar.

Ræðuhandrit óyfirlesið.