07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Það hefir einhverra orsaka vegna dregist að fá þetta frv. tekið á dagskrá og til umr. hjer í deildinni. Bendir það til þess, að þeir, sem ráða tilhögun dagskrárinnar, telji þetta smámál. En jeg held þó, að flestir verði að játa, að hjer sje um markvert mál að ræða. Uppeldismálin eru nú alstaðar talin mikilsverð, sjerstök fræðigrein. Gott uppeldi miðar að því, að auka mentun og þroska æskulýðsins, andlegan sem líkamlegan, en ekki að því, að láta hann vaxa eins og lauk úr grasi án allrar aðhlynningar eða ræktunar. Oft er talað um tvennskonar aðferðir meðal uppeldisfræðinga, hvort heldur eigi að beita ströngum aga til þess að vekja ótta hjá unglingum, eða að örfa þroskann á þann hátt, að glæða starfshugann. Til eru þeir, sem álíta rjettast að ógna með vendinum, barsmíðum og allskonar refsingum.

Jeg hygg, að ekki sje ofmælt, þó að sagt sje, að þessi skoðun hafi á síðari árum farið halloka fyrir hinni skoðuninni, sem eykst fylgi hjá öllum þeim, er við uppeldismál fást, að það ríði á að glæða starfshug unglinganna og vekja hjá þeim löngun til náms og menningar. Jeg held, að það sje ekki ofmælt, að nú sje víðast lítið svo á, að sá kennari, sem ekki getur haldið börnum til náms og starfs og haldið uppi góðri reglu, án þess að grípa til vandarins eða reglustikunnar, sje ekki þeim vanda vaxinn að hafa með höndum kenslu og uppeldi barna eða unglinga. En ef þetta er rjett um kennara, hlýtur það að ná jafnt til allra þeirra, sem hafa með höndum uppeldi og menningu unglinga.

Almenningsálitið hjer á landi hefir þegar fordæmt líkamlegar refsingar sem uppeldisráð eða kensluaðferðir. Má öllum vera það ljóst af dæmi, sem gerðist á Norðurlandi fyrir skömmu. Þar var kennari flæmdur burtu frá starfi sínu vegna þess, að hann hafði beitt slíkum líkamlegum refsingum. Um þetta væri auðvitað ekkert að segja, ef þessi maður væri hinn eini af íslenskum barnakennurum, sem beitti líkamlegum refsingum. En það er víst, að við marga skóla þessa lands eru kennarar, sem beitt hafa og beita líkamlegum refsingum á sama hátt eða svipaðan og þessi kennari hefir gert. Ástæðan til þess, að hann er tekinn út úr og kærður fyrir þetta er sú, að pólítískir andstæðingar hans hafa þóst finna þarna höggstað á honum, sjeð sjer leik á borði að flæma hann frá starfi sínu fyrir samskonar verknað og ýmsir aðrir kennarar óátalið hafa framið, verknað, sem enginn lagastafur bannar, en almenningsálitið yfirleitt fordæmir.

Að því hafa engar líkur verið færðar, að þessi kennari hafi misþyrmt börnunum, enda heyrði það undir hegningarlögin, ef svo hefði verið. Og á því er enginn vafi, að reynt hefði verið að sækja þennan mann til sektar fyrir misþyrmingar, ef unt hefði verið.

Í þessu máli er ekki nema um tvær leiðir að velja. Annaðhvort segir löggjafarvaldið: Jeg hefi ekkert við það að athuga, þó að börn sjeu barin af þeim, sem sjá um uppeldi þeirra, ef þeim bara er ekki misþyrmt. Eða það segir: Allar líkamlegar refsingar barna og unglinga eru bannaðar. Þarna er enginn millivegur til. Eitt og hið sama á að ganga yfir alla þá, sem við uppeldismál fást.

Það verður gaman að sjá, hvernig þeir menn, sem mest hafa gert til þess að flæma þennan kennara á Akureyri frá starfi sínu, bregðast við þessari málaleitan. Ef rjett er að banna líkamlegar refsingar í skólum, er tvímælalaust líka rjett að banna þær við iðnnám. Og sje rjett að banna líkamlegar refsingar þar, er einnig rjett að banna þær í heimahúsum, því að ef börn eru vanin á að hlýða með vendinum heima, verður erfitt að aga þau með öðru móti síðar og annarsstaðar. Af þessum ástæðum nægir ekki að banna eingöngu líkamlegar refsingar hjá vandalausum.

Jeg vil mælast til þess við þá nefnd, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hún taki einnig til athugunar þá kafla í hegningarlögunum, sem hliðstæðir mega teljast þessu frv. í hegningarlögunum frá 1896 er gert ráð fyrir, að unglingar sjeu dæmdir til hýðingar með vendi eða priki. Þegar svo hegningarlögunum var breytt 1907, um leið og sett voru ákvæðin um skilorðsbundna dóma, var bannað að hýða unglinga með priki, en hinsvegar leyfilegt að nota vöndinn á þá framvegis. Og svo mun enn vera. Jeg vil skjóta því til hv. n., hvort ekki sje tími til kominn að athuga þennan kafla hegningarlaganna.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en leyfi mjer að mælast til þess, að því verði vísað til allshn., að lokinni þessari umr.