07.05.1929
Neðri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (2433)

81. mál, bann gegn líkamlegum refsingum

Sveinn Ólafsson:

Það mun eiga að líta á þetta mál eins og mannúðarmál, frá sjónarmiði hv. flm. Hann mun hafa ætlað, að ef þetta yrði lögfest, þá mundi uppeldi barna bæði í heimahúsum og skólum breytast til batnaðar og meiri mannúðar. En um leið og sett eru lög um þessa hluti og bannað að beita aga við börnin eða líkamlegum refsingum, er gefin óbein yfirlýsing um það, að ómannúðlegum uppeldisaðferðum sje hjer beitt, en þeirri yfirlýsingu vildi jeg afdráttarlaust mótmæla. Jeg kannast ekki við að slíkri harðýðgi sje beitt við börn, að setja þurfi lög af nýju þeim til verndar, enda eru þung viðurlög í gildandi lögum við slíkum misþyrmingum. Með lögum er heldur ekki hægt að fyrirbyggja, að hrakmenni fremji slíka fólsku, og þess vegna er svona lagasetning þýðingarlaus. Auk þess er ekki rjett að taka af móðurinni rjettinn til að aga barn sitt. Ef hún fer út fyrir sæmileg takmörk, liggur hegning við því í núgildandi 1., eins og jeg tók fram áðan, en hitt er vitanlegt, að móðir agar barn sitt með kærleiksríkri umhyggju fyrir velfarnan þess, en ekki af heift. Og hvar liggur svo ákæruvaldið, ef slík 1. sem þessi verða samþ.? Er ætlast til þess, af hv. flm., að börn gerist ákærendur foreldra sinna? Mjer dettur í hug, að móðir gæfi drenghnokka löðrung fyrir ókvæðisorð, sem hann hefir á götunni numið og viðhefir í hóp systkina á heimilinu. Hver á þá að ákæra hana? Eftir þessu frv., ef samþ. verður, á að draga móðurina fyrir lög og dóm, en jeg held, að það þætti nokkuð strembið, þegar svona stendur á. Jeg veit yfirleitt ekki, hver á að fara með ákæruvaldið í þessum efnum. Jeg get því ekki fallist á þetta frv., eins og það liggur fyrir, og tel það með öllu þýðingarlaust, auk þess sem mjer finst það ekki ná nokkurri átt að gefa þá yfirlýsingu — eins og óneitanlega væri gert með samþykt þessa frv. — að hjer sje algengt að misþynna börnum. Annars svaraði hv. 1. þm. Skagf. svo rækilega hv. flm. þessa frv., að meira ætti ekki að þurfa við. Jeg læt hjer því staðar numið.